Spáð í garnir

Enn er hægt að velta fyrir sér ólíkum aðferðum til að spá fyrir um veður. Ein er sú að spá í garnir sláturdýra á haustin og lesa úr þeim veðurskiptingu komandi vetrar. Þessi aðferð hefur yfir sér mikinn forneskjubrag, enda aðferðir sem auðvelt er að tengja í huganum við örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld, sem sáu fyrir og stýrðu örlögum fólks með einhverskonar þráðum sem þær gættu vel. Þegar spáð var í garnir dýra var einmitt rýnt í þær og þá átti framtíðin að liggja ljóst fyrir. En hvernig var þetta nú gert?

Gjarnan var þar valin ær sem hafði gengið heima um nokkurt skeið áður en henni var lógað. Þá var skepnan opnuð og kannað hversu mikið gor var þar að finna í görnunum. Ef það var mikið, var talið að skepnan hefði í lifandi lífi fundið á sér að hún þyrfti að troða vel í vömbina sína á undan hörðum vetur. Á móti var álitið að lítið magn í görnum þýddi að mildur vetur væri í vændum. Eins tók fólk garnirnar í sundur og skoðaði hvernig misjafnlega mikið magn var að finna í görnunum – þannig var hægt að áætla hvernig veðraskiptingin yrði þann vetur, hvenær kæmu illviðri í bland við góðviðriskafla.

Líkt og með annað, fylgir ekki alltaf sögunni hversu áreiðanlegt þetta hefur reynst fólki og hvort framvinda vetrarins hafi einhverntíma afhjúpast með þessu móti í landslagi garna Gibbu gömlu eitthvert haustið. En aðferðin er að minnsta kosti áhugaverð, furðuleg og forn í senn!