Viðvaranir í rauðgulri viðvörun!

Við erum flest orðin vön litrófi veðurviðvarana þessi misserin og litast hversdagsleikinn svo sannarlega af þeim. Nú gengur ein rauðgul yfir landið og ágætt halda sig til hlés á meðan og horfa björtum augum fram á við – eða, öllu heldur til fortíðar!

Það hafa í gegnum tíðina ýmsar viðvaranir orðið til, sem vara áttu við veðri framtíðarinnar og meta hana með þeirri þekkingu sem til var hverju sinni. Í augum okkar eru þessar viðvaranir kannski hjákátlegar og óáreiðanlegar. Sem þær eru kannski, en við skulum ekki gleyma því að fólk var einfaldlega að gera sitt allra besta til að skilja framvinduna, á þeim tímum sem veðurfar skipti öllu fyrir líf og heilsu fólksins. Hér eru örfá dæmi um slíkar viðvaranir, en að þessu sinni koma þær aðallega frá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands. Þar svöruðu ófáir einstaklingar um ýmis málefni, s.s. spurningaskrám um veður og veðurfar seint á síðustu öld. Hér geta áhugasamir lesendur þessarar síður glöggvað sig á þessum fjársjóði og öðru áhugaverðu sem finna má á þjóðháttasafninu: https://www.sarpur.is/Spurningaskrar.aspx?View=small

Þessi hending á vel við nú þegar þorramánuðurinn ræður ríkjum og við sum farin að lengja lítillega eftir vorinu:

„Þurr skal þorri, þeysin góa, votur einmánuður, þá mun vel vora.“

Ýmsir svarendur þjóðháttasafns nefna þetta og ljóst að þessi hending hefur verið víða kunn á landinu. Um heim allan er hægt að finna svipaðar runur, sem eiga að leiða til góðrar tíðar. Í Frakklandi var þetta haft nokkurn veginn á þessa leið: „Kaldur janúar, hlýr febrúar, vindasamur mars, votur apríl, hvass maí: boðar gott ár og ánægjulegt.“ Skyldi þetta virka eins hér á Íslandi?

Annars eru ýmsar viðvaranir og ábendingar í gögnum þjóðháttasafns sem gott er að hafa í huga:

• Lítið frost og snjór í janúar og febrúar boða frost og kulda mars og apríl.

• Um frostrósir á glugga var stundum sagt að ef þær sneru niður, þá boðaði það vont veður.

• Ef snjótittlingar hópuðust heim við hús mátti búast við harðindum, en um leið og veður batnaði fóru fluglarnir frá aftur.

• Ef veiðist mús á þessum árstíma, og henni er kastað út eftir dagsetur gerir mikinn byl, svokallaðan músabyl.

• Svo er orðið stutt í góuna, en hún hefst þann 19. febrúar. Mikilvægt var að taka eftir veðrinu fyrstu daga góunnar, samanber þessi hending: „Grimmur skyldi góudagurinn fyrsti, annar og þriðji, þá mun hún góa góð verða.“

En sko til, á meðan ég hef verið að rita þetta er farið að glitta í bláan himininn hér yfir Steingrímsfirði! Og eins gott að fara að slökkva á rauðgula lampanum hérna í vinnunni minni (sem að vísu logar líka þegar engin er veðurviðvörunin!)