Dagur heilags Medardusar, 8. júní

Í dag er dagur heilags Medardusar (456-545 e. Kr.). Hann bjó í Vermand í norðurhluta Frakklands og eftir hans dag hét fólk á þessum slóðum á hann fyrir úrkomu eða góðviðri. Því var trúað að hann hafi lent í því sem barn að örn hafi skýlt honum fyrir rigningu og í sambandi við þessa sögu hefur hann ávallt haft sterka tengingu við veðurfar.

Dagur Medardusar bar með sér veðurhjátrú sem hefur varðveist um aldir á meginlandi Evrópu og fólk tengir við þennan dag, 8. júní: Quand il pleut à la Saint-Médard, il pleut quarante jours plus tard, sem myndi útleggjast á íslensku: „Ef það rignir á degi St. Medardusar, mun rigna í aðra fjörutíu daga!“ Fólk virðist þó hafa sett þessa spá fram með vissum fyrirvara, enda kann það að hljóma ansi illa að í vændum séu 40 dagar af rigningu yfir hábjargræðistímann! Þessvegna var því stundum bætt við að veðrið kunni að breytast aftur á degi heilags Barnabas, sem er 11. júní.

Þessi dagur þekktist á almanökum Íslendinga, og var þar sagt að eins muni viðra næstu fjórar vikur og á degi heilags Medardusar. Og í dag rignir á Ströndum … en við þurfum mögulega ekki að örvænta, á sunnudaginn er dagur heilags Barnabas og þá gætum við séð breytingar á veðrinu!