Sólin

Árið 1780 var prentuð bók með afar löngum titli: „Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða með andsvari gamals bónda.“ Höfundur var Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og er þetta rit stórmerkilegt, þar sem Björn setur upp samtal gamals bónda og ungs, sem drekkur í sig fróðleik þess fyrrnefnda. Úr verður kennslubók fyrir upprennandi bændur sem vilja verða klárir og engir búskussar!

Einn kaflinn heitir „Af sólinni má svo veðráttu marka“ og í tilefni heiðríkjunnar hér á Hólmavík vil ég deila með ykkur þessum kafla:

Þegar sjálf sólin er skær, í upp- og niðurgöngu, og loftið allt hreint í grennd við hana, merkir gott veður næsta dag og nótt. Fagurt ský, sem kóróna yfir henni, nær hún gengur upp, en eyðist allt í einu, merkir gott veður og bjart.

Þegar sólin sýnist koma upp í heiðbirtu, en gefur þó ei skært skyn, heldur sýnist vera dimm, merkir votviðri. Sýnist hún í upp- eða niðurgöngu gul eða bleik, með vatnslitum eða rauðum skýjum um sig, boðar hreggviðri: sama merkja rauðir geislar, sem ganga í gegnum ský á sumrum, og stendur mikill hiti af þeim, frá sólinni.

Úlfar fyrir og eftir sólunni, fagrir, eða rauð sól í niðurgöngu, boðar oftast þurr þráviðri.

Sjaldan er gýll fyrir góðu, nema úlfur eftir renni, gangi rauður hali af gýlnum, boðar stormviðri.

Margir úlfar kringum sól, rauðgrænir að lit, boða stórviðri með hreggi eða kafaldi, eftir ársins tíma.

Dökkrauðir og grænleitir hringar í kringum sólina, vita á það sama, helst þegar hún er í upp- eða niðurgöngu.

Skær og fagur hringur, kringum sólina, um miðdegi, í björtu veðri, og standi úlfar, skærir sem ljós, í þeim hringi, sólin líka skær innan í hringnum þýðir ætíð veðráttu góða og mjúka. Það merkir og sama, þegar hringar um sól dragast af allt í einu, án þess hlið verði á þeim.

Sólir þrjár í austri, árla sénar, boða kalt veður, en í vestri á kvöldin, blíðviðri.

Veðrahjálmur kallast þegar tveir hringar eru um sólina, hvor utan yfir öðrum, og víða úlfar í þeim hringjum, hvítir, veit á kalt þráviðri um hríð, og stundum til langframa.