Kyndilmessa 2. febrúar

Hér sit ég á skrifstofu minni hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – þjóðfræðistofu, og á glugganum hamast hríðin og vill helst að ég hleypi henni inn í hlýjuna. Það kemur vitaskuld ekki til mála, nóg er ég búinn að hafa fyrir því að koma mér og börnunum örugglega á hríðarlausa staði í morgun. En þrátt fyrir þetta árans veður er þó eitt sem gleður mig og eflaust fleiri: í dag er Kyndilmessa!!

Á þessum degi var sérstaklega horft til veðurs og fylgst náið með sólinni: Á Kyndilmessu mátti hún alls EKKI sjást. Kyndilmessudagurinn er einn af þessum dögum almanaksins sem eiga helst að vera óveðursdagur, helst dimmur til loftsins og með takmarkaðri birtu. Hvers vegna? Jú, sólarleysið á að boða betri tíð það sem eftir lifir vetrar. Hér er þekkt minnisvísa því til stuðnings:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa Kyndilmessu,
snjóa vænta máttu mest
maður, upp frá þessu.

Þessi þjóðtrú er að vísu ekki séríslensk og á sér rætur á erlendri grundu. Líkt og hið heimsfræga múrmeldýr Punxsutawney Phil (nei, ég kann ekki að bera þetta fram, en dýrið varð býsna frægt í kvikmyndinni Groundhog Day). Það kemur út úr hýði sínu á þessum degi en skríður rakleiðis aftur inn ef það sér skugga sinn og sefur í nokkrar vikur í viðbót, enda ljóst að sól á þessum degi boði áframhaldandi vetrartíð. Sambærilega þjóðtrú er að finna víða í Norður-Ameríku, þaðan sem hún barst frá Evrópu.

Alltént, þessi hríð í dag er vissulega hvimleið en samkvæmt þjóðtrúnni er hún það eina rétta í stöðunni á þessum degi. Ég ætla að minnsta kosti að fagna þessum veðurhvelli og vona að vorið sé á næsta leyti, auk þess ætla ég að horfa á kvikmyndina Groundhog Day í kvöld! 😊