Pálsmessa

Í dag er Pálsmessa, en sá dagur hefur lengi þótt merkur veðurspádagur og því ekki úr vegi að rifja upp það sem um hann hefur verið sagt, og einkum ort. Það eru nefnilega oft þessar minnisvísur sem hafa lifað í gegnum ótal kynslóðaskipti í landinu, og bera með sér hugsun og reynslu sem einhverra hluta vegna hefur þótt mikilvægt að varðveita:

Heiðríkt veður og himinn klár,
á helga Pálusmessu.
Mun það boða mjög gott ár
maður, gáðu að þessu.

En ef þokan Óðinskvon,
á þeim degi byrgir,
fénaðardauða og fellisvon,
fáráður bóndinn syrgir.

Það er semsagt ekki um að villast, ef dagurinn verður bjartur og sólríkur (þar sem sólin yfirhöfuð sést) má búast við góðu árferði framundan. En þokan mun vera varasöm á þessum degi, eins og þessi vísa sem einnig er vel þekkt sýnir:

Dagur Páls sé dáða klár,
drengjum boðar mjög gott ár,
en sé þykkviðri þoku með,
þá mun falla menn og fé.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var í morgun og sýnir Steingrímsfjörðinn, þar sem litadýrðin gladdi að minnsta kosti augu og sinnið.