Konudagurinn er í dag og góa byrjar samkvæmt gamla mánaðatalinu.
Í fornum sögum eru Þorri og Góa feðgin, en stundum talin hjón á síðari öldum og eiga þá saman börnin Einmánuð og Hörpu. Þorri er sagður sonur Snæs konungs og átti systurnar Fönn, Drífu og Mjöll. Sú síðastnefnda var einmitt móðir Bárðar Snæfellsáss.
Þorri var sjálfur hinn ágætasti kóngur og réði yfir Gotlandi, Kænlandi og Finnlandi og íbúar Kænlands héldu þorrablót til að það myndi snjóa og skíðafæri yrði gott. Blótið var um miðjan vetur og spratt mánaðarnafnið af því. Þorri konungur átti þrjú börn, strákana Nórr og Górr, og eina dóttir sem hét Gói (já einmitt, Gói en ekki Góa). Gói hvarf einn veturinn og þá hélt Þorri blót mánuði síðar en venjulega og síðan heitir sá mánuður Gói. Síðar kom í ljós að hún hafði farið heim með Hrólfi í Bergi sem var konugur Heiðmerkur.
Í mörgum heimildum frá 19. öld er líka talað um Góa, en ekki Góu, og Strandamaðurinn Grafar-Jón gamli sem skrifaði dagbók 1846-1879 skrifar til dæmis alltaf Gói eða Góe, en aldrei Góa.
Jónas frá Hrafnagili segir í Íslenskum þjóðháttum að á fyrsta degi góu hafi húsfreyjur átt að fagna góu með því „að hoppa fáklæddar“ (eins og hann orðar það) þrisvar í kringum bæinn og heilsa henni með vísu:
Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu inn í bæinn,
vertu ekki úti í vindinum,
vorlangan daginn.
Hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara eru allskonar veðurkreddur um góuna, t.d. að það myndi vita á gott vor ef þorri væri þurr, þeysin (þeysöm) góa og votur einmánuður. (Þeysöm þýðir að hlákur séu miklar þann mánuðinn). Eins að úrkoman á góu ráði hvort votviðri verði yfir sumarið og að snjókoma í logni á góu bendi til að grasvöxtur verði góður. Einnig að best sé að þrjá fyrstu daga í góu séu veður grimm, þá muni restin af góunni verða góð.
En ef hún góa öll er góð,
öldin má það muna,
þá mun harpa, hennar jóð,
herða veðráttuna.
Jón segir einnig að á fyrsta góudegi hafi húsfreyjur átt að halda grannkonum sínum heimboð. Dagurinn er fyrst nefndur konudagur um miðja 19. öld og hundrað árum síðar byrjuðu karlar að færa konum sínum blóm á konudaginn.
Á norðausturhorni landsins tíðkaðist sumstaðar að fórna góu smávegis af rauðlituðu bandi eða ull og láta hana fjúka út í veður og vind. Þá átti að verða snjóléttara og svo mátti líka lesa í hver ríkjandi vindátt yrði á góu, eftir því hvert ullin fauk. Ríkjandi vindáttin á góu átti að koma úr þeirrri átt. Það væri gaman að heyra hvort einhver kannast við þetta ennþá.