Veðurspár á jólum

Nú þegar aðventan er rétt gengin í garð, með tilheyrandi kaup(ó)gleði og spennu fyrir jólum er ekki úr vegi að huga lítið eitt að veðurathugunum sem fólk í fyrri tíð gaumgæfði á þessum árstíma. Jólin eru nefnilega þesskonar tími að þau standa á mörkum ljóss og skugga, hins gamla og þess nýja, sem eru kjöraðstæður fyrir þjóðtrú og sannarlega tími hins yfirnáttúrulega.

Eins og sakir standa hafa ekki mörg snjókorn fallið á landið það sem af er vetri og því stefnir allt í snjólaus jól, svonefnd „rauð jól“. Slíkt var haft til hliðsjónar þegar horft var lengra inn í framtíðina, eða fram að páskum, samanber þessi þumalputtaregla: „Rauð jól, hvítir páskar; hvít jól, rauðir páskar.“ En hlýindi um jólahátíðina hefur í þjóðtrúnni talið „hefna sín“ á páskunum.

Tunglið hefur oft verið skoðað vel í andrá jóla og til eru minnisvísur sem benda til þess að rétt hafi verið að gefa litnum á tunglinu sérstakan gaum í kringum jólin:

Rauða tunglið veit á vind,
vætan bleiku hlýðir.
Skíni ný með skýrri mynd,
skírviðri það þýðir.

Í desember eru ýmsir dagar sem þóttu geta aðstoðað við að afhjúpa veður framtíðarinnar, einkum þegar líður á mánuðinn og jólahátíðin sjálf er gengin í garð:

13. des Lúsíumessa

Næstu þrjá daga eftir Lúsíumessu breytir veðri til hins lakara eða verra.

14.-28. des Halkíonsdagar

Þá verpir fuglinn halkíon í bláhafi á ísi og gerir hann sér hreiður úr fiskbeinum á sjö dögum fyrir sólhvörf að vetri og liggi síðan á jafnmarga daga á eftir. Þessi tími var nefndur eftir veðurblíðunni sem þá átti að standa yfir: halkíonskyrrðir, halkíonskyrrur, halkíonslogn eða halkíonshægðir.

21. des. Tómasmessa

Eftir því sem þá viðrar, mun viðra til miðs vetrar.

22. des. Sólhvörf

Svo sem viðrar þann dag og þrjá daga fyrir og eftir, svo mun veturinn verða.

24. des. Aðfangadagur

Hreint veður og regnlaust á aðfangadag eða jólanótt boðar frostasamt ár, en viðri öðruvísi veit á betra.

25. des. Jóladagur

Sé sólskin fagurt á jóladag, verður ár gott. Þegar jóladagur kemur með vaxandi tungli veit á gott ár, og sé hann góður veit á því betra.

26. des. Stefánsdagur

Sé sólskin fagurt á annan í jólum, verður ár hart.

28. des. Barnadagur

Blási fjórðu jólanótt, veit á hart.

29. des. Tómasmessa (Tómasar erkibiskups)

Blási þá fimmtu jólanótt, veit á slæmt sumar.

30. des.

Blási sjöttu jólanótt, verður grasvöxtur lítil.

31. des. Sylvestrimessa

Verður ár gott ef blæs sjöundu jólanótt. Ef stillt viðrar seinasta dag í árinu mun gott ár verða sem í hönd fer.

Í lokin er rétt að benda á vísu sem segir okkur að hver og einn jóladagurinn eigi að marka veðrið í hverjum mánuði á árinu sem framundan er:

Tólf dagar, sem jól títt falla,
teikna þess árs mánuði alla,
samlíkan hvern mánuð segi
sem viðrar á hvers þess degi.

Það er semsagt að ýmsu að hyggja á komandi vikum og forvitnilegt að sjá hvort eitthvað verði að marka allan þennan fróðleik.