Höfundur: Jón Jónsson
Eins og kunnugt er eiga Grýla og sambýliströll hennar fjölmörg afkvæmi. Talað er 500 flagðbörn í Grýlukvæði sem ættað er austan af landi (Ólafur Davíðsson IV, 1898: 122) og rúmlega 100 jólasveinar hafa verið nafngreindir og tæplega 100 Grýlubörn að auki sem koma fyrir í nafnaþulum (Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson, 2025: 33-7 og 45-9).
Jólasveinar í orðabók Grunnavíkur-Jóns
Í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá því um miðja 18. öld er ein færslan um jólasveina. Svo skemmtilega vill til að þetta er ein allra elsta íslenska heimildin sem nafngreinir slíka. Þarna nefnir Grunnavíkur-Jón meðal annars til sögunnar Jólaskódóla og Skinnsokkabrokk, sem eru ekki hefðbundin jólasveinanöfn (AM 433 fol).
Þessum tveimur jólasveinum sem Grunnavíkur-Jón nefnir til sögunnar hefur nefnilega alls ekki verið hampað á síðari árum. Þvert á móti hafa fræðimenn afneitað þeim og segja að þessir karlar séu misskilningur hjá Jóni, telja að hann hafi ruglast í ríminu. Fræðingarnir telja að þessi heiti eigi rætur í munnmælum og á þeim byggi þjóðsögur sem skrifaðar voru á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Þar eru þessi orð notuð sem lýsing á vestfirskum alþýðuhetjum og lögð tröllkonu í munn.
Ólafur Davíðsson var fyrstur til að benda á þetta í riti sínu um þulur og þjóðkvæði sem út kom í lok 19. aldar. Fyrst upplýsir Ólafur að Jón Grunnvíkingur segi í orðabók sinni „að jólasveinar heiti meðal annars Jólaskó-dóli og Skinnsokka-brokkur“. Ólafur bætir svo við að þar hafi hann „eflaust ruglazt í ríminu og ruglað saman nöfnum jólasveinanna við vísuna, sem tröllkonan mælti fram við Árum-Kára í Selárdal“ (Ólafur Davíðsson IV, 1898: 172). Síðan vísar Ólafur í Þjóðsögur Jóns Árnasonar til að sanna þessa fullyrðingu, fyrra bindið sem kom út árið 1862, í kaflann um Einstaka galdramenn. Þar er að finna söguþátt um Árum-Kára sem var prestur í Selárdal við Arnarfjörð og er hann byggður á skrásetningu Ólafs Sívertsen í Flatey eftir munnmælum Arnfirðinga. Tekið er fram að Ólafur hafi sjálfur skoðað flest örnefnin (sjá Jón Árnason 1862: 505-508) og hjá Árnastofnun er vissulega varðveitt handrit með þessari sögu frá Ólafi (AM 970 III, 4to).
Sögur um Árum-Kára
Ein sagan um afrek Árum-Kára er á þá leið að tröllkona sem bjó í Skandadalsfjöllum sem átt hafði í útistöðum við Kára, hafði í nokkur ár rænt sauðamanni hans um jólin. Árum-Kári greip því að lokum til þess ráðs að leggjast sjálfur í hvílu sauðamannsins í skáladyrum þegar von var á skessunni og breiddi yfir sig uxahúð (sem minnir ögn á söguna um hvernig Grettir Ásmundsson lá undir röggvafeldi í skálanum, meðan hann beið eftir að draugurinn Glámur vitjaði hans). Um nóttina kom tröllkonan og þuklaði á Kára og virtist koma henni á óvart að hann væri í bæði sokkum og skóm því hún fór með þennan vísupart:
Þrýstinn um bóga
er á skinnsokkum, bokki.
Hefur jólaskó, dóli.
Árum-Kári beið þá ekki boðanna og réðist að skessunni sem lagði á flótta eftir nokkur fangbrögð. Segir að hún hafi brotið allan dyraumbúnaður á leið fram bæjargöngin og hafi hann setið á herðum hennar. Skessan flúði svo út með Selárdalshlíðum en Kári stytti sér leið fram dalinn og yfir fjall og kom á undan henni að híbýlum hennar. Þar börðust þau í fjörunni skammt frá Skandadal og hafði Árum-Kári betur eftir langa mæðu. Þegar hann hafði unnið á henni velti hann skessuhræinu í sjóinn fram af Byltuskerjum sem síðan heita svo (Jón Árnason I, 1862: 506-7).
Jóni Árnasyni hafði reyndar borist önnur útgáfa af viðureign Kára og skessunnar, svo sagan var greinilega þekkt víðar en í Arnarfirði. Séra Sigurður Gíslason á Stað í Steingrímsfirði á Ströndum hefur líka sent honum sögu og er hún birt sem athugasemd í lok sagnanna af Árum-Kára í fyrstu útgáfu þjóðsagnanna (Jón Árnason I, 1862: 508), en hefur fengið fyrirsögnina Missögn af Árum-Kára í útgáfunni 1954 (Jón Árnason I, 1954: 492). Þessi útgáfa er lítilsháttar frábrugðin hinni. Sigurður segir:
[A]ð Kári hafi lagzt í fleti sauðamanns í skáladyrum, og hafi haft bússur á fótum; því sagði og tröllkonan, er hún krumlaði um fætir hans:
Þrýstinn í roði
er þessi dólgur.
Í skinnsokkum, brokkur,
hefir jólaskó, dóli.
Síðan kemur örnefnafróðleikur, um að glímuvöllurinn heima í Selárdal heiti Sporaglenna, en í þessari útgáfu er ekki talað um að bardagann í fjörunni í Skandadal eða Byltusker, heldur hjó Árum-Kári aðra höndina af skessunni og hrinti henni síðan fyrir björg (Jón Árnason I, 1862: 508).
Í síðari útgáfu af heildarsafni Jóns Árnasonar kemur svo í ljós ein útgáfa til viðbótar af þessari sögu og hefur yfirskriftina: Flagðkonan í Selárdal. Þar er Árum-Kári ekki nefndur á nafn, en sagt að sagan sé um prest í Selárdal. Hann hafði tapað sauðamönnum úr kofa við sjóinn þrjá vetur í röð, áður en hann lagðist þar sjálfur til hvílu fjórðu jólin. Í kofann kom tröllskessa og þreifaði á presti og sagði svo: „Er í skinnsokkum brokkur, hefur jólaskó dóli“ (Jón Árnason III, 1955: 230-1).
Dýra-Steinþór kemur til sögunnar
Fjórða útgáfan af þessari sögu hefur ratað á prent. Í Vestfirskum þjóðsögum sem Arngrímur Fr. Bjarnason safnaði í kringum aldamótin 1900 og gefnar voru út 1954 er svipuð saga, en þó ekki um sömu hetjuna. Í þessari útgáfu er það Dýra-Steinþór, frægur banamaður hvítabjarna, sem er hetjan mikla sem sigrar tröllkonu sem sauðamönnum rænir (Arngrímur Fr. Bjarnason II(1), 1954: 13-19).
Steinþór tók að sér að vera sauðamaður hjá prestinum á Stað í Grunnavík, í beitarhúsi sem stóð á Sauðhúseyri í Lónafirði í Jökulfjörðum. Þaðan höfðu sauðamenn horfið ár eftir ár og horfði til mestu vandræða með rekstur beitarhússins. Ber fátt til tíðinda framan af, en á aðfangadagskvöld leggst Dýra-Steinþór til hvílu í skála við sauðhúsið. Um nóttina ryðst inn tröllkona með látum og fyrirgangi. Steinþór læst sofa. Þuklar skessan síðan á honum „og mun hafa þótt honum vel í skinn komið“. Tautar hún svo við sjálfa sig: „Í skinnsokkum brokkar! Hefir jólaskó, dóninn!“ (Arngrímur Fr. Bjarnason II(1), 1954: 14-15).
Sprettur Steinþór þá á fætur og grípur atgeir sinn og ræðst að tröllskessunni, en hún snarast út. Þarna verður sú óvænta vending í sögunni að Steinþór tefst við að klæða sig (þótt hann hafi greinilega sofið í bæði sokkum og skóm) og á meðan rænir skessan tveimur sauðum í fjárhúsinu. Hún krækir þeim saman á hornunum og lagði svo á flótta með feng sinn á öxlinni inn með firðinum. Steinþór eltir drjúga stund. Skessan kastar að lokum frá sér sauðunum, þar sem síðan heitir Sleppir við fjarðarbotninn. Steinþór nær henni þó að lokum við forvaða sem heitir Einbúi og heggur þar af henni aðra hendina við úlnlið. Skessan komst þó undan og koma afdrif hennar ekki fram í sögunni. Þó er þess getið að sumir hafi sagt að skessan hafi búið í Kvíarnúpi og verið síðasta lifandi tröllið á Íslandi (Arngrímur Fr. Bjarnason II(1), 1954: 13-16).
Heimildir að sögunum um Dýra-Steinþór eru í þjóðsagnasafninu sagðar vera sagnir úr Jökulfjörðum frá 1895 og er það í smáu letri undir fyrirsögn sögunnar. Í lokin á sagnaþættinum kemur hins vegar fram að fylgt sé frásögn Þórðar Þórðarsonar Grunnvíkings. Aðrir segi hins vegar að skessan hafi átt heima í Einbúa (Arngrímur Fr. Bjarnason II(1), 1954: 18).
Jólasveinar eða alþýðuhetjur?
Allar þessar ólíku útgáfur af sögunni um skessu sem þuklar á sauðamanni sýna að hún hefur gengið í munnmælum. Það er líka augljóst af blæbrigðunum í vísuorðunum. Þrátt fyrir það er óvarlegt að ákveða að þessir tveir jólasveinar sem Jón Grunnvíkingur nefnir til sögunnar hljóti að byggjast á misskilningi og engu öðru. Það er vel þekkt að sami karakterinn í sagnaarfinum getur haft ólík hlutverk eftir því hvar hann birtist. Hér má t.d. nefna Steingrím trölla á Ströndum, sem talið er fullvíst að tengist nafni Steingrímsfjarðar eða sé tilraun til að útskýra það nafn. Svo virðist sem hann sé allt í senn; landnámsmaður, þjóðsagnapersóna, staðbundinn jólasveinn á Ströndum og sennilega náttúruvættur að auki (Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson, 2025: 64 og 2021: 78-9; Jón Jónsson, 2022).
Einnig virðist það ganga gegn heilbrigðri skynsemi og meðalhófi að slá því föstu að jólasveinar sem nefndir eru um miðja 18. öld hljóti að byggjast á þjóðsögum sem eru ekki skráðar fyrr en 100 árum seinna. Það eru skrítin rök fyrir því að Grunnavíkur-Jón hljóti að hafa ruglast í ríminu, jafnvel þó slíkt hafi gerst með einhverjar aðrar skráningar hans og skýringar. Leitin að hinu rétta í málinu hlýtur alltaf að vera næsta vonlaus viðureignar, eins og þjóðfræðingar ættu að vita. Satt best að segja eru heimildirnar fyrir mörgum öðrum jólasveinanöfnum álíka óljósar og þessi.
Niðurstaðan hlýtur samt alltaf að vera sú að það geti alveg eins verið að jólasveinarnir Skinnsokkabrokkur og Jólaskódóli séu áhrifavaldarnir og hafi brokkað á skinnsokkunum sínum sem leið lá inn í síðari tíma þjóðsögu um vestfirskar alþýðuhetjur. Þar eru þeim svo gefnar einkunn frá tröllskessunni sem ætlar að ræna þeim; bokki (sem getur átt við um einhvern sterklega vaxinn), dóli (getur t.d. þýtt sláni) og dóni (sem merkir ruddi, bæði fyrr og nú). Rótin að þessum ólíku birtingarmyndum gæti eftir sem áður vel verið einhver munnmæli sem ekki eru lengur varðveitt eða þekkt.
Heimildir
Handrit:
AM 433 fol. Orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík.
AM 970 III, 4to. Söguþáttur Ólafs Sívertssen (ritaður 1847 eða 1848) um Árum-Kára.
Prentuð rit:
Arngrímur Fr. Bjarnason (1954). Vestfirzkar þjóðsögur II (fyrra hefti). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson (2021). Álagablettir á Ströndum. Strandir: Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa.
Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson (2025). Gömlu íslensku jólafólin. Fróðleikur og ljótar sögur. Strandir: Sögusmiðjan.
Jón Árnason (1862). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Leipzig: J.C.Hinrichs bókaverslun.
Jón Árnason (1954-5). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I og III. Reykjavík: Þjóðsaga.
Jón Jónsson (2022). Steingrímur – jólasveinn á Ströndum. Pistill á Þjóðtrúarvefnum thjodtru.is, dags. 20. des.
Ólafur Davíðsson (1898). Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur IV. Þulur. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.
