Skógjafir: Jólasveinninn kemur í kvöld …

Höfundar: Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson

Það er ys og þys í desember, undirbúningur jólanna stendur sem hæst, fólk hefur í nógu að snúast. Líklega eru fæst þó jafn upptekin og sjálfir jólasveinarnir, á þessum tíma ársins, enda þurfa þeir að liggja í dvala næstum allt árið á eftir til að jafna sig.

Síðustu áratugi hefur verið til siðs að íslensk börn setji skóinn sinn út í glugga þann 11. desember og bíði síðan spennt eftir jólasveinunum 13. Þeir koma til byggða einn og einn, hver á eftir öðrum og skilja litlar gjafir eftir í skónum.

Jólasveinar á Ströndum

Jólasveinarnir voru auðvitað ekki jafn viðkunnanlegir eða gjafmildir hérna áður fyrr. Þeir voru í raun hálfgerð plága fyrr á öldum, hryllilegir hrekkjalómar og mannætur sem stálu öllu steini léttara. Þá voru þeir líka miklu fleiri en 13. Þekkt nöfn á jólasveinum eru nálægt 100 og áður fyrr var hver landshluti eða hérað með sitt eigið sett af jólasveinum. Þegar jólasveinarnir tóku svo upp betri siði um miðja 20. öldina, ákváðu flestir þeirra að setjast í helgan stein, en þeir 13 sem við þekkjum í dag héldu áfram að koma til byggða.

Könnun um skógjafir

Íslensku jólasveinarnir fengu snemma á 20. öld fregnir af því að erlendir frændur þeirra væru býsna vinsælir, enda gæfu þeir börnum gjafir. Ákváðu þeir íslensku að taka þá sér til fyrirmyndar, elsta heimildin um slíkt er frá 1937. Skógjafir urðu svo vinsælar í kringum 1950, en fyrst um sinn ríkti mikil óreiða og óskipulag í tengslum við siðinn. Nokkrir jólasveinar gáfu gjafir allan desember, sumir í 9 daga og aðrir 13 og sum börnin fengu bara í skóinn síðasta daginn fyrir jól. Fjölmargir fengu alls ekki neitt, enda jólasveinar ekki vanir því að haga sér vel. Það var líka mikill munur á stærð gjafanna. Í kringum 1970 ákváðu Þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins, kennarasamtökin og ríkisútvarpið að aðstoða jólasveinana við að skipuleggja sig og reyna að samræma hefðina um allt land svo sem allra flest fengju 13 litlar gjafir.

Þjóðfræðingar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu útbjuggu dálitla netkönnun fyrir jólin 2021 um skógjafir og deildu eingöngu að gamni sínu á Facebook. Uppátækið var til gamans gert, en undir niðri vorum við forvitin um hvort miklar breytingar hafi orðið á siðnum og hvernig minningar fólks um þetta eru. Spurt var um aldur og búsetu í krossaspurningum og síðan voru þrjár spurningar með opnum svarglugga. Ekki var beðið um nafn svarenda.

Könnunin var sett í loftið þann 15. desember og eingöngu dreift á Facebook. Svör fóru strax að hrúgast inn. Þann 23. desember höfðu borist 161 svar. Sama dag var ákveðið að lesa í gegnum svörin og skrifa smá samantekt um það sem þarna kemur fram. Könnunin var þó opin áfram, enn um sinn.

Hér á eftir ætlum við að rekja nokkur atriði sem komu fram í þessari stuttu og einföldu könnun. Þetta er hraðsoðin úrvinnsla.

Upphaf skógjafa jólasveinanna

Á svörunum sést munur milli búsetu og aldurs með tilliti til þess hvort fólk fékk í skóinn í æsku, eða ekki. Einstaklingar eldri en 50 ára sem búa í dreifbýli segjast yfirleitt ekki hafa fengið í skóinn sem börn. Einstaklingur á sextugsaldri úr þorpi segir frá öðrum skemmtilegum sið: „Í staðinn var stórskemmtilegur siður að leita að litlum jólasveinum sem faldir voru víðsvegar um húsið. Þetta voru litlar dúkkur/fígúrur af ísl. jólasveinunum.“ Aftur á móti virðist fólk allt að sjötugu sem ólst upp í borginni kannast við siðinn úr sinni æsku. Sumstaðar hafa börn föndrað sjálf skó í skólanum fyrir jólin.

Gefðu mér gott í skóinn …

Algengasta skógjöfin samkvæmt spurningakönnunni eru eitthvað smávegis sem hægt er að borða: Mandarínur og sælgæti, epli, rúsínur, tyggjó og piparkökur. Einnig sjást dæmi um allskyns smádót, hárteygjur, jólaskraut, styttur, spil, pez-karla, penna, sokka, jójó, límmiða, slím og happaþrennur.

Þá virðist algengt að einn jólasveininn gefi veglegri gjafir en hinir, oftast eru það Ketkrókur eða Kertasníkir. Þá gefa þeir til dæmis bíómyndir eða náttföt. Ákveðnar gjafir virðast líka eftirminnilegri en aðrar. Kona á höfuðborgarsvæðinu man ennþá sérstaklega vel eftir fallegum sundbol sem hún fékk árið 1954.

Skór í glugga

Margar eftirminnilegar gjafir lýsa líka þeirri trú barnanna að jólasveininn hafi fylgst með þeim og mörg börn hafa fengið gjafir sem foreldrarnir hefðu aldrei samþykkt. Til dæmis er ein eftirminnileg minning: „Eitt skipti sérstaklega þá var ég sem barn að leika mér ein inni i herbergi og var búin að fá lánaða diska potta og pönnur úr eldhúsinu hjá mömmu og var búin að búa til trommusett sem ég lék á. Svo gaf jólasveinninn mér í skóinn litla tindáta með trommur til að hengja á jólatré. Þar með vissi ég að hann hefði séð mig.“

Í öðru svari segir: „Sérstaklega eftirminnileg eru glow stick sem ég fékk einhvern tímann (því foreldrar mínir voru á móti þeim og sögðu að þau væru full af eiturefnum. Þetta sannfærði mig enn frekar um að þau ættu ekki neinn þátt í þessu athæfi).“

Kartöflur og tómir skór

Flestir svarendur virðast hafa hagað sér vel í aðdraganda jólanna, en 30% af þeim sendu inn svar höfðu þó einhvern tíma fengið kartöflu í skóinn. Sum höfðu líka vaknað með tóman skóinn vegna óþekktar og stundum hafði jólasveininn skrifað þeim bréf til að hvetja til betri hegðunar og segja þeim að fara fyrr að sofa. Fólk var misánægt með kartöflurnar sínar. Í einu svari segir: „Já ég fékk kartöflu og ég henti henni út um gluggann.“ Í öðru segir: „Stundum kartöflur, stundum miða upp á það að kartöflurnar hefðu klárast í seinasta hverfi eða götunni við hliðina.“ Sumir sýna jólasveininu þó skilning og segja meðal annars: „Já, en man ekki ástæðuna, líklega verið óferjandi þann daginn.“ Öðrum fannst það ekki mikil refsing: „Já fékk einu sinni kartöflu, en fannst það bara fínt og fór með hana á leikskólann og lét sjóða hana.“ Önnur segir: „Ég fékk mandarínu en besta vinkona mín kartöflu – sökum óþekktar – hún borðaði ekki kartöflur sem voru reyndar í miklu uppáhaldi hjá mér svo við skiptum.“

Stundum var annað upp á teningnum og fólki fannst kartaflan óverðskulduð. Stundum fannst því líka heilmikið óréttlæti að fá ekkert, sem kom stundum fyrir. Í einu svari segir: „Fékk ekkert og vissi ekki af hverju sem rændi mig trú á réttlátt samfélag.“

Í enn öðru svari segir frá óverðskuldaðri kartöflu: „Fyrsta alvöru minningin er þegar ég var 4 ára og fékk kartöflu í skóinn, en stóri bróðir minn fékk nammi. Ég skyldi ekkert í því og grét mjög mikið og var voða sár yfir þessu óréttlæti. Næsta dag fékk ég tvö nammi í skóinn, á meðan bróðir minn fékk kartöflu. Þá kom í ljós að bróðir minn hefði étið bæði nammið sitt og það sem ég átti að fá. Hann hafi síðan reddað sér og sett kartöflu í skóinn minn. Litli púkinn.“

Fleiri minningar, góðar og slæmar

Þegar spurt var út í góðar og slæmar minningar fólks af siðnum áttu flest svörin það sameiginlegt að lýsa spenningi og fjöri. Slæmu minningarnar tengdust því helst þegar fólk upplifði að það hefði verið gabbað eða að foreldrar þeirra eða aðrir væru að trufla jólasveininn eða vasast í skónum. Eitt svar lýsir þessu vel: „Þegar ég var um 5 ára vaknaði ég upp seint um kvöld og nappaði mömmu mína við að reyna að stela úr skónum mínum. Hún sagðist vera að kíkja í skóinn til að athuga hvort jólasveinninn væri kominn. Ég vissi þó betur og hljóp fram á gang og kallaði til allrar fjölskyldunnar og tilkynnti henni að mamma væri þjófur.“

Í öðru svari hafði líka verið átt við skóinn: „Í heimavistarskólanum fengu allir í skóinn, þá stóðu inniskór í röðum fyrir framan herbergin á vistinni, það voru oftast súkkulaðibitar eða brjóstsykur pakkað í álpappír. Einn morguninn voru allir skórnir út um allt og ekkert nammi neins staðar. Það kom fram seinna að nokkrir eldri krakkar höfðu rænt öllu, það var sárt fyrir okkur sem vorum minnst, við héldum að jólasveinninn hefði átt við skóna.“

Önnur svör lýsa því að börn hafi verið hrædd við siðinn og ekki kunnað við að gamlir ókunnugir karlar heimsæktu þau á nóttunni. Slík svör eru þó ekki mörg. Algengast er að fólk hafi haft gaman að þessu og einu í svari segir: „Dásamlegar minningar. Að vakna og trítla beint fram í stofu til að kíkja í skóinn. Mikil gleði og spenningur sem fylgdi þessum jólatöfrum og gerir enn hjá mínum börnum í dag.“ Í öðru svari segir: „Elskaði þennan sið og geri það enn. Það var engin tilfinning skemmtilegri en að vakna með eitthvað sætt í skónum.“

Gjafmildir, en samt ennþá hrekkjóttir

Þá virðast hrekkir jólasveinanna eftirminnilegir og vekja lukku. Mörg börn reyna líka að gleðja þá til baka með gjöfum: „Ég man líka eftir að hafa skrifað þeim mörg bréf og fengið mjög illa skrifuð svör til baka og svo eftir því að Kertasníkir hafi bitið í kerti, sem var skilið eftir handa honum út í glugga og var auðvitað stórskemmtilegt. Ég lagði mikið upp úr því að skilja eftir glaðninga fyrir þá, skyr, þvörur, potta og fleira sem þeir höfðu áhuga á.“

Í öðru svari segir: „Gefa Skyrgámi skyr og sjá skyrslettur í glugganum eftir hann. Kerti fyrir Kertasníki, laufabrauð fyrir Gáttaþef. Fann fótspor í garðinum og var viss um að það var eftir jólasveininn.“

Í einu svari segir frá því þegar Stúfur kom í heimsókn: „Einu sinni þegar Stúfur var á svæðinu þá kom hann alla leið inn í eldhús og tók pönnuna af eldavélinni hjá mömmu sem var að elda (svona eftir á að hyggja þá hefur þetta verið Pottaskefill). Ég og bróðir minn hlupum út á eftir honum ca. 5 og 7 ára, en hann hljóp hratt, skrattakollurinn, og hvarf á bak við hlöðu í myrkrinu. En pabbi fann pönnuna og kom með hana þegar hann kom úr fjárhúsunum.“

Aðrar góðar minningar fjalla um óvæntar uppákomur: „Einnig þegar ég var lítil, fórum við einu sinni til Reykjavíkur, þá beið skórinn í glugganum heima í nokkra daga. Það var mjög gaman að koma heim og kíkja á uppsafnaðar smágjafir þegar heim var komið.“ Í öðru svari segir: „Þegar ég fékk mandarínu og það var full skál af mandarínum á eldhúsborðinu. Það var mikið hlegið.“

Töfrar jólanna

Sumstaðar fá gæludýr greinilega í skóinn og þá virðist það tíðkast hjá sumum að fullorðnir fái ennþá í skóinn ákveðna daga. Í einu svari segir að það séu „töfrar í því að allir fái í skóinn á aðfangadagsmorgun.“

Við þökkum öllum fyrir að deila með okkur minningum sínum af þessum skemmtilega sið og það verður gaman að sjá hvort verði frekari breytingar á honum í framtíðinni.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla!