Sýningin Álagablettir á Ströndum var opnuð á Sauðfjársetrinu í Sævangi, þjóðtrúardaginn mikla, 7. september 2013. Álagablettir eru ákveðnir staðir í náttúrunni sem á hvílir bannhelgi eða álög af einhverju tagi. Á Íslandi eru sögur af álagablettum oft tengdar huldufólki, t.d. afmarkaðir grasblettir þar sem slægjurnar tilheyra vættunum og bannað er að slá. Oft eru þessir blettir í grennd við kletta þar sem huldufólk er talið búa. Ef fólk brýtur gegn banninu, hefnist því fyrir.
Algengasta refsingin er að besta húsdýrið á bænum drepst, besti reiðhesturinn eða fallegasta mjólkurkýrin. Aðrar refsingar eru t.d. þær að heyið fjúki eða brenni, veikindi komi upp eða jafnvel dauðsfall í fjölskyldunni eða þá að viðkomandi missi vitið. Það eru þó ekki allar sögurnar tengdar huldufólki, sumar eru tengdar fornmönnum, haugum þeirra og fjársjóðum sem eru grafnir í jörðu. Þá eru líka þekktar sagnir um vatnaálög, sögur um aðra vætti og ýmiskonar búskaparálög.
Sýningin var unnin af þjóðfræðingunum Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og Jóni Jónssyni. Sögum um álagabletti á Ströndum var safnað úr prentuðum heimildum og frásögnum úr Segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar sem er aðgengilegt að stórum hluta á vefnum ismus.is. Einnig er verulegt þjóðtrúarefni að finna í örnefnaskrám. Í framhaldinu var gengið að álagablettunum um alla sýslu, aðstæður kannaðar og þeir ljósmyndaðir í bak og fyrir. Sýningin sjálf samanstendur af ljósmyndum, sögum, frásögnum úr segulbandasafninu, stemmningsljóðum og síðast en ekki síst er tilbúinn álagablettur á miðju sviðinu.
Árið 2021 verður sýningin sem nú hefur staðið uppi í átta ár tekin niður og stendur til að gefa í staðin út bók um álagablettina, í samstarfi Sauðfjársetursins og Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu.