Þjóðtrúarfléttan

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur tvívegis styrkt verkefni á vegum Rannsóknasetursins sem ber titilinn Vestfirska þjóðtrúarfléttan. Þar er m.a. um að ræða samstarfsverkefni þjóðfræðinga á Vestfjörðum og safna, setra og sýninga í fjórðungnum og snýst um fjölbreytta miðlun. Einnig hefur Frumkvæðissjóður Brothættra byggða í Strandabyggð styrkt verkefnið veglega, með það fyrir augum að skapa Ströndum þá sérstöðu að Rannsóknasetrið geti í framtíðinni verið eins konar miðstöð upplýsingamiðlunar um íslenska þjóðtrú. Báðir þessir sjóðir fá bestu þakkir fyrir mikilvægt framlag sitt til verkefnisins.

Á árinu 2019 var m.a. unnið að námskeiðahaldi og mótun á námsefni, einnig samstarfsverkefni við Galdrasýningu á Ströndum um barnamenningarverkefni á sviði þjóðtrúar. Einnig þjóðtrúarkvöldvöku í samstarfi við Sauðfjársetur á Ströndum. Auk þess var unnið að úttekt á rannsóknum, miðlun og vinnu með þjóðtrú á Vestfjörðum síðustu áratugi. Ætlunin er að byggja á þeirri vinnu margvísleg samstarfsverkefni við söfn og sýningar og fleiri aðila í framhaldinu. 

Árið 2019 var einnig unnið með þjóðtrú tengda náttúrunni, selum og ísbjörnum, vestfirskum vættum og vofum, auk þess sem þjóðtrú og menningarlandslag á Ströndum hefur verið rannsakað í viðamiklu verkefni á Ströndum með aðstoð þjóðsagnasafna og örnefnaskráa. Álagablettir, aftökustaðir, þjóðtrú og sagnir á Vestfjörðum hafa verið þar í brennidepli. Fyrirlestrar voru þá haldnir um Vestfirði, bæði sjálfstæðir og sem hluti af málþingum, m.a. á Suðureyri, Hnjóti í Örlygshöfn og á Ströndum.

Árið 2020 hefur athyglinni til viðbótar verið beint að þjóðtrúarverum og vættum, m.a. draugum og jólaverum, og lögð áhersla á að koma á laggirnar vefsíðum um íslenska þjóðtrú, á íslensku og ensku. Einnig var áfram unnið með dýralífið, nú voru fuglar og þjóðtrú í brennidepli. Unnin var sérstök rannsókn um þjóðtrúartengd örnefni í örnefnaskrám á Ströndum sumarið 2020 og einnig gerð þá tillaga um hljóðleiðsögn um Strandir milli valinna sagnastaða. Sögugöngur með áherslu á þjóðtrú hafa einnig verið á dagskránni á Ströndum síðustu árin, í Reykhólasveit og Dölum, en þar er um að ræða samstarf við söfnin á Ströndum og í Dölum. Vinna að verkefninu birtist einnig í samstarfsverkefnum við námsmenn, eins og t.d. sýninguna Skessur sem éta karla sem Dagrún Ósk Jónsdóttir setti upp víða um land veturinn 2018-2019 og sýningu um þjóðtrú um drauga sem sett var upp á vegum Rannsóknasetursins í ársbyrjun 2020.