Rannsóknasetrið, í samstarfi við myndlistarmanninn Arngrím Sigurðsson, setti árið 2020 upp minnismerki um Strandamanninn Klemus Bjarnason, utan við Galdrasýninguna á Hólmavík. Klemus var síðasti maðurinn sem hlaut brennudóm á Íslandi. Dómnum var breytt í ævilanga útlegð og hann lést í Kaupmannahöfn 1692.
Arngrímur Sigurðsson er þekktur fyrir að vinna með þjóðsagnaarfinn í verkum sínum. Árið 2014 kom út eftir hann bókin Duldýrasafnið. Hann hefur líka myndskreytt dálkinn Monster of the Month í Reykjavík Grapevine.
Minnismerkið um Klemus Bjarnason var afhjúpað í nóvember 2020. Ætlunin er að það verði fyrsti áfangastaður í nýrri skúlptúraslóð meðfram ströndinni frá Hólmavík, hugmynd sem á upptök sín hjá þýska myndlistarmanninum Arne Rawe.