Kyndilmessa

Í dag, 2. febrúar, ættum við öll að fylgjast pínulítið með himninum aldrei þessu vant! Kyndilmessa er runnin upp og sá dagur hefur í gegnum tíðina verið álitinn mikill merkidagur. Sennilega er eftirfarandi minnisvísa hvað þekktust:

Ef í heiði sólin sést (eða sest)
á sjálfa Kyndilmessu.
Snjóa vænta máttu mest,
maður upp frá þessu.

Í stuttu máli sagt þá þýðir þetta einfaldlega að sól á þessum degi boðar áframhaldandi vetur hér um slóðir, en dumbungsveður þýðir að skaplegt veður sé framundan.

Það er býsna merkilegt að þessi boðskapur kyndilmessunnar er víða um lönd hinn sami og því er um býsna útbreidda veðurþjóðtrú að ræða. Í gær var Brígitmessa, sem er í huga margra markar upphaf vorsins og segja má að kyndilmessan sé mikilvægur mælikvarði á hvernig muni vora.

Í Þýskalandi nefnist kyndilmessan Lichtmeß, og þar er til gömul hending: „Sonnt sich der Dachs in der Lichtmeßwoche, so geht er auf vier Wochen wieder zu Loche.“ En þar er talað um að ef greifinginn, sem vanalega er þá enn í hýði sínu, kemur út og sér sólina í kyndilmessuvikunni megi búast við fjórum vikum til viðbótar af vetri. Þessi þjóðtrú hefur síðan borist með innflytjendum vestur um haf, en í Pennsylvaníufylki Bandaríkjanna er 2. febrúar kallaður Groundhog Day. Þar er það ekki greifingi sem spáir fyrir um áframhald tíðarfarsins heldur múrmeldýr, og það spáir fyrir um sex viðbótar vetrarvikur í stað fjögurra.

Víða um lönd má finna minnisvísur og hendingar sem bera með sér sömu vitneskju og sú íslenska: „If Candlemas is fair and clear/ There’ll be twa winters in the year.“ Sem þýðir að ef dagurinn er bjartur og fagur verði auka (twa) vetur það árið.

Á dönsku er sagt á þessum degi: „Sne og uvejr på denne dag lover tidligt forår“ og útleggst þannig að óveður boði snemmbúið vor.

Nú er að sjá hvernig úr rætist, vorið er svosem ekki alveg á næsta leyti hér um slóðir í febrúarbyrjun … en það má alveg fara láta sig dreyma …