Janúarkuldinn mikli 1918

Frost. Mynd: Eiríkur Valdimarsson

Nú berast þær fregnir að á næstu dögum muni kólna all hressilega á landinu eftir frekar milt tíðarfar. Það var svosem viðbúið, kuldinn hefur áður komið og mun oft koma aftur úr norðrinu. En við þessi tíðindi varð mér hugsað til dagbókalýsinga Níelsar Jónssonar á Gjögri á hinum miklu kuldum sem færðir eru í annála frostaveturinn mikla 1918. Ég skrifaði grein um þennan vetur í bókina „Strandir 1918“, sem kom út árið 2020 og er safn greina um lífið á Ströndum þetta merka ár 1918. Ég ætla að deila með ykkur nokkrum línum úr dagbókinni hans Níelsar, en handritið er varðveitt á Landsbókasafni (Lsb 2528, 4to). Þetta eru kuldahrollvekjandi lýsingar á tíðarfari sem vonandi kemur seint aftur í sömu mynd. Annars vegar er þetta dagbókarfærsla frá 6. janúar og hinsvegar 20. janúar:

6. sunnudagur. Þrettándi. Norðan og útnorðan albjartur í loft, hæglátur en brunakuldi, svo sveið á andlit. 24 gráðu frost í dag um og fyrir hádegi, en 23 á nóni. Nú 22. Loftvog 783. Hafís alt sem sést ein slétta nema stór vök hér frá Hleininni inn undir Kjörvogshlíð og aftur inn á firðinum norðanverðum. Af Björgunum ein hvít hella allt sem sást norður og út og austur nema eitthvað austur í afar djúpt í Skagann að sjá, en þar var þoka og frostreykur og alt hvít hella nú að sjá inn flóann. Hér í vökinni alt frostreykur og lagís skellur og lagís mauk. Að verða breitt fram og út við ísinn. Sama sem enginn fugl sést og engin skepna á sjó. Sama sem enginn maður úti á ferð, nema þeir sem bjuggu sig til að gæta að ísnum. Engin skepna hér látin út, þó autt sé og skínandi bjart og flestir að búa betur um fjárhúsin því í þeim fraus flestum. Í öllum húsum fraus hér í nótt vatn og annað meira og minna þar sem fólk svaf. Og nú skurmaði hér í mínu húsi á vaskafati á borðinu við eldhúsgluggann og á fötu sem hékk á dælunni en hvergi uppi eða í suðurendanum, þar var væta á gólfinu og blekið mitt hér uppi á borðinu.

20. sunnudagur. Norðan kóf, skafmold, en bjartur fremur í loft, sá sól. Grimmdar frost, 32 gr. Innistaða, gef alltaf sömu gjöf. Birgisvíkurbræður komu beint yfir á ís, á leið að sækja matvöru á N.fj. fengu sleða hjá mér. Þá kól í andliti á leið hingað, þýddu það með snjó. Ég las blöð. Nú er lagt í alltaf hér uppi.