Geta jólin spáð fyrir um veðurfar á komandi ári?

Þjóðfræðingur spáir í veðrið fyrir árið 2021

Það er sumum kappsmál að geta séð inn í framtíðina og vitað þannig ókomna hluti, undirbúið sig og þannig verið tilbúnir til að mæta því sem kemur. Eitt af því sem getur verið gott að vita er komandi veður, hvort það verði gott eða slæmt, næstu daga, vikur eða mánuði. Oftar en ekki er erfitt að spá fyrir um veðrið langt fram í tímann þrátt fyrir alla tækni vísindasamfélags nútímans eru alltaf einhverjar breytur sem verða í veðrinu. 

Fyrr á öldum, fyrir tíma þeirrar tækni og þekkingar á loftslagi sem í dag er ríkjandi, þurfti fólk sárlega að kunna skil á veðrinu framundan1. Störf á sjó og í sveitum voru háð veðri og vindum, húsakostur þoldi ekki hvað sem er, farkostir sömuleiðis opnir fyrir hverju sem er o.s.frv. Af þeim sökum eru til ógrynnin öll af hugmyndum og aðferðum fólks til að spá fyrir um veðrið framundan. Einn flokkur aðferða eru svokallaðir merkidagar. Þar er átt við ákveðna daga á almanaksárinu sem þjóðin var sammála um að nauðsynlegt væri að skoða með tilliti til veðurfars næstu daga og missera. Slíkir dagar voru oftar en ekki dagar tengdir einhverskonar tímamótum, heilagleika á borð við dýrlinga eða hátíðum á borð við jólin. Þær veðurspár sem hér um að ræðir voru einkum langtímaspár, spár sem áttu að gilda um tímabil í fjarlægðri framtíð.

Þegar þetta er skrifað er kominn febrúar. Það er stutt síðan jólin umluktu samfélagið með birtu og tilhlökkun líkt og þau hafa gert með einum eða öðrum hætti um langa hríð hérlendis og erlendis. Í kringum jólin hafa margir siðir tekið sér fótfestu hjá fólki, líkt og sá að fylgjast vel með veðurfarinu því það gat gefið vísbendingar um hvaða veðurfar var í vændum á nýju ári. Þannig voru jóladagarnir sjálfir teknir til skoðunar, því veðrið á þeim átti að vera einkennandi fyrir tiltekna mánuði samkvæmt einfaldri reglu þar sem jóladagur táknaði janúar, annar í jólum febrúar og svo koll af kolli. Til er eftirfarandi vísa þessu til minnis: 

Tólf dagar, sem jól títt falla,
teikna þess árs mánuði alla,
samlíkan hvern mánuð segi
sem viðrar á hvers þess degi.2

Þessi þjóðtrú virðist hafa komið hingað til lands með skandinavískum og þýskum bókmenntum sem voru þýddar á íslensku og ljóst að ekki hefur öllum þótt þetta merkileg fræði.3 En þrátt fyrir það hefur þessi vitneskja lifað með þjóðinni allt fram á okkar dagar. Út frá henni er hægt að útbúa ofurlitla veðurspá fyrir árið 2021. Eins og með allar veðurspár er best að taka henni með tilhlýðilegum fyrirvara! Það ber að hafa í huga að þótt slíkar spár séu fremur hjákátlegra í dag og ljóst að fólk hafði mismiklar mætur á gildi þessara spáa, skulum við reyna að setja okkur í spor fólks sem hafði kannski alls ekki neitt annað höndunum til að rýna inn í óljósa og ógnvænlega framtíðina. Hér mun ég taka mið af veðrinu sem var á Akureyri frá 25. desember 2020 til 5. janúar 2021 og því má kannski segja að þessi veðurspá ætti að gilda fremur um norðurhelming landsins.4

25. desember táknar janúar:Mildur, úrkomulítill, nokkur vindur31. desember táknar júlí:Kaldur, þurr, lítill vindur
26. desember táknar febrúar:Svalur, úrkomulítill, lítill vindur1. janúar táknar ágúst:Kaldur, þurr, lítill vindur
27. desember táknar mars:Umhleypingar, mjög blautur, vindasamur2. janúar táknar september:Hlýr, þurr, lítill vindur
28. desember táknar apríl:Svalur, úrkomusamur, nokkuð vindasamur3. janúar táknar október:Hlýr, þurr, nokkur vindur
29. desember táknar maí:Kaldur, úrkomulítill, lítill vindur4. janúar táknar nóvember:Mildur, þurr, nokkur vindur
30. desember táknar júní:Kaldur, þurr, lítill vindur5. janúar táknar desember:Mildur, þurr, lítill vindur

Að túlka þessi gögn er síðan í höndum hvers og eins. Miðað við þessar spár má búast við köldu vori og sumri, auk þess sem það verður þurrt mjög megnið af árinu. Haustið verður hlýtt, auk þess sem búast má við rauðum jólum!

Hvort eitthvað af þessu muni rætast skal ósagt látið. En þó er hér á ferðinni gott dæmi um viðleitni fólks til að skilja heiminn, himinhvolfið, orsakir og afleiðingar og hvernig sumri dagar voru merkilegri en aðrir og báru með sér einhvern leyndan spádómskraft.

  1. Af stakri hógværð vil ég benda áhugasömum lesendum á MA ritgerð mína í þjóðfræði, sem er hér aðgengileg á Skemmu: https://skemman.is/bitstream/1946/6648/1/MA%20lokaeintak.pdf
  2. Sjá t.d. grein í Lesbók Morgunblaðsins 31. nóvember 1958, bls. 629.
  3. Sjá t.d. í Sögu daganna eftir Árna Björnsson, bls. 15.
  4. Gögnin eru að finna á vef Veðurstofu Íslands: https://www.vedur.is/vedur/vedurfar/daglegt/akureyri/. Ég vil þakka Trausta Jónssyni veðurfræðingi fyrir að benda mér á þessa síðu.