Brígitarmessa

Í dag er 1. febrúar, sem er fyrir mörgum langþráður útborgunardagur, en sömuleiðis er þessi dagur þekktur sem Brígitarmessa. Hér er um að ræða einn merkasta dýrling Írland, heilaga Brígit, eða Lá Fhéile Bríde. Hún hefur á Írlandi verið álitin dýrlingur sólarinnar og gróandans, auk þess að vera einskonar dýrlingur frjósemi og verið í hávegum höfð hjá ljósmæðrum og sængurkonum í gegnum tíðina. Dagur þessi er nefndur sem einn af messudögum hérlendis og hefur það haldist svo um aldir, sem bendir til tengsla við ensk-írska svæðið í fyrndinni. En, ég hef ekkert fundið sem tengir daginn við hverskyns veðurspár eða -merki á þessum degi. Ef það væri samt einhver dagur sem mætti sameina öll sólarkaffi landsmanna, sem um þessar mundir eru haldin í fjörðum og dölum um leið og sólin heimsækir íbúana frá janúar og fram í mars, þá væri það þessi dagur!

En, þegar horft er til Írlands og upprunasvæðis þessa dýrlings kemur í ljós nokkuð áhugavert efni.

Dagurinn ber nefnilega sömuleiðis heitið imbolc og merkir upphaf vorsins á Írlandi og þess að lömb fari brátt að fæðast. Þýðing orðsins imbolc vísar til þess sem „er í vömb“, líkt og vorsins afkvæmi eru um þessar stundir. Þessi tenging við daginn er enn eldri, enda er það svo að kristnar dagsetningar á borð við messudaga voru gjarnan settir á tímabil sem voru mikilvægar í hugum fyrirrennara kristinnar á hverjum stað fyrir sig. Talið er að sumar hefðir viðvíkjandi imbolic, sem enn eru heiðraðar á Írlandi, geti verið um 5000 ára gamlar.

Á þessum degi er kveikt á kertaljósi í nafni Brígit og um leið óskar fólk vinum sínum og fjölskyldu heilla. Já blessað ljósið, þar er aftur tengin við morgundaginn, sem er á ensku nefndur candlemas, eða kyndilmessa. Sá dagur er hér landi og víðar talinn býsna áhrifaríkur varðandi framhaldið á upprisu sólarinnar, í áttina að vorinu. Meira um það á morgun.