Staðbundið veður og veðurspár

Nú þegar „vorið“ er loksins að verða búið og veturinn getur haldið áfram sinn vanagang, er einn flokkur veðurspáa sem ég vil vekja athygli á. Það eru spá sem tengjast vissum stöðum í náttúrunni og tilteknum örnefnum. Þrátt fyrir það fylgja slíkar spár svipaðri hugsun hvar sem er á landinu. Hér eru um að ræða fjöll eða annarskonar misfellur í landslaginu sem taka til sín ský sem boða hitt og þetta; ár og lækir sem með nið sínum geta boðað vindátt eða breytingu á vindáttum; laugar og heitar uppsprettur sem boða frost eða loftþrýstingsbreytingar með því hvernig rýkur úr þeim; eyjar eða önnur kennileiti sem hillir undir í vissum vindáttum; skaflar sem annað hvort eru litlir eða stórir og þykja boða ákveðið tíðarfar í kjölfarið. Það mætti nefna margt fleira áhugavert þar að lútandi, svo sem veðurfar sem á sér nafn ekki ósvipað örnefnum, líkt og Tryggvagat eða Leifagúlpur. Þetta efni er um margt forvitnilegt og ótvíræður vitnisburður um viðleitni fólks til að lesa í náttúruna og landslagið sitt hverju sinni og skilja veðurfarslega framvindu í kjölfarið.

Ég er í miklum rólegheitum að safna þesskonar örnefnum eða staðsetningum. Ég er kominn með vel á annað hundrað slíkra dæma og langar til að deila með ykkur örfáum ólíkum dæmum. Ég væri afar þakklátur ef lesendur mínir myndi deila þessu sem víðast og nefna dæmi um svona þekkingu sem þið kannist við. 😊 Hægt er að senda bæði í einkaskilaboðum og sem komment hér fyrir neðan.

Það er rétt að nefna hið augljósa að þessar spár eru afar staðbundnar, og jafnvel þótt visst örnefni sé nefnt til sögunnar hér, byggjast spárnar á staðsetningu þess sem kunni spána og þar að leiðandi geta upplýsingarnar verið allt aðrar hinumegin við fjallið, í meiri fjarlægð eða nær því.

Fjöll

Eiríksjökull: Ef hlaðast upp ský að norðanverðu kemur norðanátt, en hár þoku- og skýjabakki sunnan á honum veit á sunnanátt. Skafheiður boðar góðviðri.

Kinnarfjöll: Ef að þau ljómuðu í morgunskininu þá var góður dagur framundan. En ef það var þoka þá var ekki langt í regn.

Mælifellshnjúkur: Þegar belti er utan um toppinn, þannig að hann stendur upp úr skýjunum er von á þurrki.

Vatnsföll

Búði í Þjórsá: Það vissi á góðviðri ef að heyrðist í fossinum Búða í Þjórsá. Það er mjög skiljanlegt, því það heyrist bara í hægri austanátt.

Rjómafoss: Þegar heyrðist í honum langdreginn niður vissi það á sunnan átt. Þessi fossahljóð heyrðust aldrei nema fyrir sunnan vind. Þá í logni.

Goðafoss: Þannig var, ef drunur frá Goðafossi heyrðust yfir Fljótsheiði austur í Reykjadal eða út í Aðaldal, sem stundum kom fyrir, þá mátti eiga von á sterkri suðvestur eða vestanátt.

Heitar laugar

Krísuvík: Ef rauk úr hverunum í Krísuvík og á Reykjanes, kom suðaustanátt.

Vallnalaug: Búast mátti við næturfrosti ef mikið rauk úr Vallnalaug á haustkvöldi.

Reykholtsdalur: Stæði eldhúsreykur beint upp í loftið vissi það á gott veður en legðist hann með jörð vissi það á vont veður, sama gilti um hverareyk í Reykholtsdal.

Eyjar og hillingar

Grímsey: Ef Grímsey hillir mikið merkir það að búast megi við hægvirði á næstunni. Hinsvegar ef hún er mjög lág (sýnist löng) spáir það sunnanátt.

Drangey: Um hana eru þessar vísur alþekktar:

Þó að tíðin þyki bág
þann ei hræðumst voða.
Nú er Drangey löng og lág,
landátt virðist boða.

Sé hún Drangey löng og lág
það landátt virðist boða
en sé hún aftur
ógnarhá oft veit það á hroða.

Mánáreyjar: Úr Öxarfirði sjást Mánáreyjar stundum í hillingum og þótti það örugg vissa um áframhaldandi góðviðri en venjulega sést aðeins móta fyrir annarri eyjunni.

Skaflar og fannir

Fornagil: Ef fönn leysti alveg úr Fornagili hjá Bólstað í Kaldrananeshreppi var ávallt búist við hörðum vetri á eftir.

Gunnlaugsskarð: Í Gunnlaugsskarði í Esjunni lá yfirleitt snjóskafl allt sumarið, en ef hann eyddist alveg var það talin örugg vissa um harðan snjóavetur á næsta ári.

Breiðadalsheiði: Sagt var að það vissi á harðan vetur, ef skaflinn í Breiðadalsheiðinni hvarf alveg.