Sumarmál

Síðustu dagar vetrarins eru nefndir sumarmál. Slíkir dagar eru á mörkum vetrar og sumars, og eru því svokallaðir jaðartímar sem þjóðfræðingar elska að rannsaka og skoða vegna þess að á slíkum tímum er þjóðtrúin gjarnan máttug og áberandi í lífi fólks. Þegar þetta er skrifað eru enn tæpar tvær vikur til sumarmála, en þó orðið vel tímabært að huga að þessum dögum og hafa nokkur atriði á hreinu síðustu dagana fyrir sumardaginn fyrsta.

Sko. Ef þið, lesendur góðir, hafið ekki áttað ykkur á því þá er það einfalt og gegnumgangandi leiðarstef í íslenskri þjóðtrú og þjóðmenningu að fagna ekki of snemma – hvort sem um er að ræða mikilvæga leiki í handbolta (það kemur jú alltaf „vondi kaflinn“ í lok leiks) eða í veðurfarinu. Þegar veðurfarið er blessunarlega gott hér á Ströndum s.s. á vetrum, setja innfæddir iðulega í brýrnar, halla undir flatt og segja „það hefnir sín“! Mögulega er það sagt víðar um land. En allavega, í þjóðtrúnni má gjarnan sjá eitthvað svipað og sér í lagi á góðviðrisköflum sem koma þegar enn á að vera vetur.

Sumarmál eru sem sagt mjög gott dæmi um slíkt. Í Skagafirði er það kuldamerki ef Vötnin (Héraðsvötn) ryðja sig og/eða það koma flóð í þau fyrir sumarmál. Sömu sögu má segja um margar ár og vötn víða um land, s.s. Hörgá í Eyjafirði en ef hún ruddi sig fyrir sumarmál var það ljóst að hana myndi leggja aftur eftir sumarmál. Í Reykjavík var svipaða sögu að segja um Reykjavíkurtjörn, en ef hún varð íslaus fyrir sumarmál mátti eiga von á einhverju illu. Í Skagafirði þótti það ills viti ef lygnt vatnsfall fraus um nótt á sumarmálum. Allt þetta sameinast í raun í þessum spakmælum sem ýmsir kunnu hér áður fyrr, og jafnvel enn: „Trú þú aldrei vetrarþoku, þótt ekki sé nema ein nótt til sumars.“

Þá þótti það fyrir illu ef lóan eða aðrir farfuglar kæmu fyrir sumarmál eða ef músarrindillinn hélt sig nærri bæjum á þeim dögum. Eins ef kominn var gróandi í náttúruna svo snemma og farið að grænka, þá gerði iðulega einhvern byl, snjóhörkur eða hrakningar. Ef gerði hret eða illviðri á sumarmálum, sem vitaskuld var kallað sumarmálahret eða sumarmálakast, átti það að vera fyrir góðu og sumir vildu jafnvel meina að í andrá slíks hrets mætti gera ráð fyrir batnandi tíðarfari inn í vorið. Reyndar voru ekki allir sammála því og héldu að sumarmálahret væri aðeins byrjunin á vorleiðindum og langvarandi harðindi væntanleg í kjölfarið. Kuldi hefur semsagt lengi verið fólki hugleikið í kringum sumarmálin líkt og þessi vísa lýsir:

En þó andi af sænum svalt
með sortaéljum hálum.
Mér hefur áður klappað kalt
kári að sumarmálum.

Jafnvel var það svo að draumar í kringum sumarmál voru álitnir mikilvægir fyrir spár framtíðarinnar, en að dreyma heyflekki á túni um sumarmál átti að boða snjókomu á komandi sumri. Litið skárra var að dreyma að búið væri að taka flekkina af túninu því það var fyrir heyleysi að dreyma engi sem búið var að slá og heyja, og ef fólk átti erfiðar draumfarir síðustu þrjár nætur vetrar átti sumarið að verða erfitt.

Á sumum bæjum var hafður sérstakur sumarmálamatur, einkum grautur sem kallaður var rúsínuvellingur. Það sem gerði hann sérstakan var krækiberjasaft sem geymt var sérstaklega fyrir sumarmálin og sett út á grautinn. Saftin var geymd í flöskum og brætt vax eða lakkað með bréflakki yfir tappann, svo ekki kæmist loft í flöskurnar.

Þegar maður les sig í gegnum spár sem tengjast tilteknum dögum á almanksárinu má segja að forsendur og afleiðingar hafa verið í sumum tilfellum ansi flóknar og snúnar, líkt og tíðarfarið sjálft. Í einni heimild frá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands, sem lýsir sumarmálahreti, sést það kannski berlega:

„Trú manna var það að þíður og blíður gerði eftir sumarmálarumbuna svo framarlega að páskabróðurinn bar ekki upp á síðasta sunnudag í vetri, væri svo mátti sumarmálakuldi helst ekki koma því þá mátti búast við kuldatíð til hvítasunnu.“

En hvað um það, skógarþrösturinn er kominn á Strandir og syngur fyrir okkur sem röltum í skóla eða vinnu á morgnana. Nú styttist í sumarmálin og kannski rétt að hafa þessi atriði á bak við eyrað á næstunni.