Spánskadys við Kamb

Höfundur: Jón Jónsson

Nálægt bænum Kambi í Árneshreppi, uppi undir fjallinu, bæjarmegin við nesið fram af fjallinu Kambi, er dys. Hún er í einkar fallegu umhverfi, rétt við hestagötuna heim að Kambi. Dysinni má lýsa sem grjóthrúgu á milli níu stórra steina sem mynda þarna myndarlegan hring eða umgjörð um dysina.

Ég fór þarna fyrst með leiðsögn Valgeirs Benediktssonar í Árnesi árið 1996. Hann sagði að þarna undir grjóthrúgunni væru þrír erlendir sjómenn grafnir, hefðu verið dysjaðir þarna af félögum sínum, enda hefðu kaþólskir ekki fengið legstað í kirkjugarðinum fyrr á öldum. Líklega hafa þeir þá orðið sóttdauðir á sjó eða drukknað. Ekki er minnst á þessa dys í örnefnaskrám eða öðrum rituðum heimildum, eftir því sem mér er kunnugt um.

Árið 2014 birti ég nokkrar myndir af dysinni á Facebook, sem ég tók í gönguferð það ár. Nokkur viðbrögð bárust og m.a. var spurt hvort þetta gæti verið aftökustaður, en enginn kannaðist við frásagnir þar um. Valgeir Benediktsson bóndi í Árnesi segir í umræðuþræði við færsluna á Facebook, í tengslum við vangavelturnar um aftökustaðinn (27. júlí 2014): „Munnmælin segja að þrír erlendir sjómenn eigi sér hvílustað undir þessari dys sem er rétt við hestagötuna heim að Kambi. Það að arfsögnin segi að þarna séu fleiri en einn urðaður bendir væntanlega frekar til að þarna séu sjódauðir menn undir en ekki sakamenn sem hafi verið teknir af lífi á staðnum.“

Einnig gerði Sævar Pálsson frá Djúpavík svohljóðandi athugasemd við þessar myndir (27. júlí 2014): „Faðir minn Páll Sæmundsson f. 1924, hann ólst upp á Kambi, sagði það vera sjórekna menn. Það var siður langt eftir síðustu öld að kasta þremur steinum á dysina þegar gengið var framhjá, einn stein fyrir hvern. Hann getur ekki um dysina í örnefnaskráningu sem hann gerði fyrir Örnefnastofnun á sínum tíma. Aldrei mynnist ég þess að hann talaði um aftökustað á þessu svæði.“

Þannig hafa verið varðveittar frásagnir og munnmæli um Spánskudys á Kambi í gegnum aldirnar, þó þær hafi ekki ratað á prent, fyrr en nú.