Svartafljót – álagahylur í Ósá á Ströndum

Í Ósá í Ósdal við Steingrímsfjörð á Ströndum, undir Bólunum sem eru Ósmegin við ána, er hylur í ánni sem er kallaður Svartafljót. Þessi hylur er í raun álagablettur, en í honum má ekki veiða. Sagt er að refsingin fyrir að brjóta gegn þessum álögum sé að sá bóndi sem lætur veiða í honum í trássi við þessa bannhelgi, muni missa í honum mann á því sama ári. Í örnefnskrá fyrir Ós sem Filippus M. Gunnlaugsson skráði og birtist í ungmennafélagsblaðinu Viljanum í janúar 1930 er saga af slíku:

“Eigi fyrir löngu bjó maður sá á Ósi, er Ásgeir hét Snæbjörnsson og lét hann veiða silung í fljóti þessu eitt sumar. Um haustið sat smalapiltur frá honum hjá lömbum frammi í Bólum. Kom hann ekki heim á venjulegum tíma og var farið að leita hans. Fannst hundur hans þá ýlfrandi á Einstökueyrum, en pilturinn ekki. Nokkru síðar fann þó Þórarinn Hallvarðsson, sem þá bjó á Ósi (innra) pilt þennan á eyrunum fyrir framan túnið og hafði hann drukknað í ánni. Var hann borinn heim í hesthúshlöðu Þórarins, og þykir þar hafa orðið vart reimleika síðan.”

Ásgeir þessi varð bóndi á Ósi seint á 19. öldinni, eftir að hann flutti þangað með fjölskyldu sína frá Hólmavík. Þau Elínborg Gísladóttir voru frumbyggjar þar sem Hólmavíkurþorp reis síðar og börn þeirra voru fyrstu “innfæddu” Hólmvíkingarnir.

Svartafljót í Ósá – álagahylurinn. Rétt ofan við fossinn er Smalahellir – ljósm. Jón Jónsson

Það þarf ekki að leita lengi í kirkjubókum, sem nú eru aðgengilegar á vefnum heimildir.is, til að finna nafnið á drengnum. Kristmundur Jónsson 17 ára, unglingur á Ósi, drukknaði í Ósá í október 1887, þann 16. samkvæmt kirkjubókinni, en þann 10. samkvæmt Íslendingabók. Jarðaður 22. okt samkvæmt kirkjubókinni.

Ef maður leitar svo í skrá um fædda pilta í prestþjónustubókinni frá Stað í Steingrímsfirði, finnur maður Kristmund fljótlega. Þá kemur í ljós að hann var fæddur 3. júní 1870, sonur Jóns Jónssonar og Guðbjargar Ísaksdóttur sem þá bjuggu í Vatnshorni, og skírður heima hjá sér þremur dögum seinna. Frændi minn í sjöunda og fjórða lið samkvæmt Íslendingabók.