Grýluörnefni á Ströndum

Skyrgámur og Grýla móðir hans þegar þau tóku þátt í barnaleikritinu Jóladagatalið
sem sýnt var hjá Leikfélagi Hólmavíkur 1989. Mynd: Jón Jónsson

Nú líður að jólum og jólavættir og verur eru óðum að fara á stjá. Það getur verið varasamt að vera á ferli í svartasta skammdeginu í kringum jólahátíðina. Á þessum tíma ársins getur maður auðveldlega rekist á jólavætti af tröllakyni, Grýlu og Leppalúða og allt þeirra fólk. Þessum jólaskepnum er ekki gaman að mæta á förnum vegi, fjöldi Grýlukvæða og fleiri heimildir vitna um það.

Grýluörnefni eru allnokkur á Ströndum, þannig að augljóst er að Grýla kerlingin hefur farið um byggðir og bú í héraðinu, eins og víðar um land. Jafnvel haft hér bæli og bólstað um tíma. Grýluhóll heitir til dæmis urðarhóll austan við Votahvamm á Melum í Hrútafirði og í Gröf í Bitru er Grýluklettur í Bæjargilsbrúninni norðanverðri. Öldum saman lá alfaraleiðin yfir Bitruháls sunnan við gilið, en Hvolf heitir fyrir neðan klettinn. Grýlulág og Grýluklettar er á Broddadalsá í Kollafirði, á Grundunum heiman við Stekkjarnes. Gengið er um lágina þegar farið er út á Broddadalsárreka eða áleiðis út að Stigakletti og klettarnir eru upp frá þessari lægð sem gönguleiðin liggur um. Börnum var sagt að Grýla ætti sér bústað í þessum smáklettum.

Grýlubás er í Grímsey á Steingrímsfirði og annar Grýlubás er í landi Kaldbaks við Kaldbaksvík, klettabás innan við Skrefluvík. Heitir sker þar framan við Siglingaflaga. Grýlublettur er á Felli í Árneshreppi, hann er ofarlega í Fellsdal, gróðurmikill álagablettur sem ekki mátti slá. Grýlufoss er í Tunguá fyrir framan Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þar koma gríðarleg grýlukerti að vetrarlagi og tröllalegt um að litast.

Grýlufoss í Tunguá að vetrarlagi – gríðarmikil grýlukerti setja svip á staðinn.
Birkir bóndi Stefánsson í Tröllatungu við ána – ljósm. Sigríður Drífa Þórólfsdóttir

Grýlusteinn er í Reykjarfirði í Árneshreppi, í fjörunni sunnarlega á Reykjarfjarðarsandi sem fjarar uppi á stórstraumsfjöru. Þar var börnum sagt að Grýla byggi. Grýluhellir er smáhellir upp af Nátthaganum á Brunngili í Bitrufirði. Grýlubær heitir klettur við Bæjarána á Skjaldfönn og þar var sagt að Grýla ætti bústað. Þarna er líka holt sem heitir Grýla, á því er alllstór steinnn og Grýlulækur rennur þarna um holtið. Einnig er Grýlusteinn undir Hesthúshólnum á Hamri í gamla Nauteyrarhreppi sem nú er hluti af Strandabyggð.

Þannig er ljóst að Grýla blessunin hefur heldur betur verið á ferli á Ströndum fyrr á öldum. Og kannski er þessi gamla ísdrottning og ógnvættur barna ennþá á rólinu.