Næmni fyrir veðrabrigðum

Næmni er orð sem við notum gjarnan um tilfinninguna að skynja hvað er í gangi í kringum okkur, eða að vera móttækileg fyrir því. Og gildir það um ótrúlega margt, allt frá einhverju óútskýranlegu til eðlilegra samskipta. Næmni má aukinheldur nota í umfjöllun um veðrabreytingar, þar sem skynjun einstaklingar virðist vera afar misjöfn.

Ég hef áður á þessari síðu fjallað um hvernig fólk með gigt finnur fyrir því á eigin skinni þegar veðrið breytist. En það má benda á önnur dæmi, ekki síður merkileg.

Ýmsar frásagnir eru til um að sjófarendur hafi breytt um hegðun áður en óveður skall á. Til eru frásagnir af hlédrægum mönnum sem byrjuðu að syngja og tralla áður en það byrjaði að hvessa, eða hressa aðila sem skyndilega urðu þungir og þögulir. Voru þeir sem voru þeim samskipa jafnvel búnir að læra inn á þessa hegðun og bregðast jafnvel við, með því að draga inn eða stíma í land á undan yfirvofandi óveðri.

Það hefur stundum verið talað um að formenn (skipstjórar síns tíma) á opnum bátum hafi þurft að vera sérlega næmir og skynsamir áður en haldið var af stað í sjóróður, enda mikil ábyrgð að vera með heila skipsáhöfn sem samanstóð oftast af karlmönnum á besta aldri með barnmargar fjölskyldur í landi. Því eru til margar frásagnir af því hvernig formenn notuðu bæði hyggjuvit sitt áður en lagt var af stað í róður: skoðuðu merki í náttúrunni og vindáttir, tóku eftir veðurhljóðum sem gátu boðað breytingar á veðri, lögðu jafnvel eyra við jarðfasta hluti til að hlusta eftir veðurhljóðum, könnuðu öldulag jafnvel með því að vaða út í sjó til að finna betur hreyfingar undiröldunnar og straumum, brögðuðu jafnvel á sjónum og tengdust þannig náttúrunni með ýmsu móti. Sumir hugðu að draumförum sínum nóttina á undan, áttu sér draumakonur eða -menn sem hegðuðu sér misjafnlega í draumunum allt eftir því hvernig veður var í vændum. Af öllu þessu samanlögðu var tekin ákvörðun um hvort róið var eða heima setið.

Á landi var líka beitt ýmsum kúnstum við að kanna veðurlag – oft með tilliti til ferðalaga, smalamennsku, heyskapar o.s.frv. Þá var líka hlustað eftir hljóðum í náttúrunni, hvinur í fjöllum, skýjafar, snjóalög o.fl. boðaði vindáttir og veðrabrigði til lengri og skemmri tíma. Á landi virðist fólk hafa þurft að reiða sig á minnið og eftirtekt við spár, auk þess sem ýmiskonar næmni hefur skipt máli og jafnvel skilið á milli feigs og ófeigs. Áhugaverð er þó ein frásögn úr Austur-Húnavatnssýslu af öldruðum sjómann sem þá hafði flutt inn í sveit, töluvert langt frá sjó og dvaldi þar á bæ einum þaðan sem víðsýnt var. Hann var þeim kostum gæddur að hann gat heyrt hljóð frá sjónum um langan veg, hljóð sem enginn annar á bænum gat heyrt og þannig sagt fyrir um komandi norðanáttir. Hann virðist hafa náð að þroska einhvern hæfileika sem fólk á landi hafði ekki náð sömu tökum á.

Svona frásagnir minna okkur á það að til eru ótal frásagnir af því hvernig dýr breyta um hegðun á undan veðri; hvernig hestar hama sig, fuglar hópast saman, kýr baula óvenju hátt, forystukindur leiða hjarðir heim að bæjum og kettir leika sér óvenjum mikið. Erum við mannkynið kannski smátt og smátt að tapa niður allskonar næmni sem önnur dýr hafa enn?