Jónsmessunótt – uppspretta þjóðtrúar og þjóðlegrar nektar

Sólsetur í Árneshreppi. Mynd: Haukur Sig

Undanfarna júnídaga hefur landfræðileg staða Íslands hér langt í norðri minnt rækilega á sig, með kulda og trekki og fönn í fjallshlíðum – jafnvel á láglendi á stöku stað. Þá hugsar maður hlýlega til ungviðanna úti í dýraríkinu og vonar að tíðin batni og valdi sem minnstu tjóni. Um þessar mundir má vissulega búast við öllum veðrum, það hefur sagan kennt okkur í gegnum aldirnar, en á sama tíma er að vænta bjartra daga – og nátta. Um þetta leyti er einmitt Jónsmessan, sem er 24. júní ár hvert.

Jónsmessan er svo nefnd eftir Jóhannesi skírara, en Jón og Jóhannes eru sitthvort afbrigðið af sama nafninu. Samkvæmt Nýja testamentinu átti Jóhannes að vera fæddur sex mánuðum á undan Jesú, sem ber upp á þennan dag, 24. júní. Dagurinn var af kirkjunni álitinn helgur hér á landi langt fram á 18. öld. Í grunninn byggir hann á fornum sólhvarfahátíðum sem haldnar voru þegar sólargangurinn var lengstur á sumrin, rétt eins og haldnar voru sambærilegar hátíðir síðla árs þegar sólargangurinn var hvað stystur um jólaleytið. Samkvæmt júlíanska tímatalinu var sólargangurinn lengstur þann 24. júní, en í okkar almanaki eru sumarsólstöður lítið eitt fyrr, eða á tímabilinu 20.-22. júní.

Þessi ágæti dagur er einn af hinum mergjuðu dögum almanaksins sem þjóðtrúin hefur kynslóðum saman hjúpað áhugaverðum hugmyndum. Stundum er talað um fjóra slíka kynngimagnaða daga, eða jafnvel réttara sagt nætur: Jónsmessunótt, jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Mikið er til af þjóðtrú sem tengist Jónsmessunni og hér verður sagt frá örfáum dæmum, sem gott er að hafa í huga í ár.

Veður

Byrjum á að tala um veðrið: en ekki hvað! Hret í kringum Jónsmessuna er nefnilega ekkert nýtt af nálinni og slík hret hafa hlotið í munni almennings ýmis heiti, á borð við Jónsmessudagshret, Jónsmessuhret, eða öllu óhefðbundnari heiti líkt og Jónsmessurumba eða Jónsmessuskuna. Þjóðtrúin hefur í gegnum tíðina þróast bæði í gegnum reynslu kynslóðanna en einnig með ýmiskonar fróðleik og efni sem borist hefur til landsins með bókum og þýðingum á erlendum ritum. Ein frægasta veðurvísan sem til er um Jónsmessu kemur einmitt úr latneskri þýðingu, sennilega frá 17. öld:

Á Jónsmessu ef viðrar vott
við því flestir kvíða.
Þá mun verða þeygi gott
að þurrka heyin víða.

Með öðrum orðum, ef við fáum rigningu á Jónsmessu megum við búast við blautu sumri í kjölfarið. Þó svo að þessi þekking sé komin hingað til lands erlendis frá fyrir margt löngu, og þar með úr allt öðru loftslagi en hér tíðkast, virðist hún hafa átt upp á pallborðið hjá þjóðinni. Að minnsta kosti er til sú þjóðtrú að veðrið á Jónsmessu muni endurspegla veðrið í júlí og ágúst. Þess vegna hlýtur það að vera öllum til hagsbótar að veðrið á Jónsmessu verði nokkuð þurrt – en, þó er mikilvægt að á Jónsmessunóttu verði náttdögg.

Náttdöggin

Döggin sem fellur á kvöldin og um nætur er oft kærkomin næring fyrir gróður, einkum þegar sólin skín á daginn. Sagan segir að Jón biskup Ögmundsson hafi eitt sinn heitið á Jóhannes skírara á Jónsmessu, að Guð gæfi fólki náttdögginu, en þá hafði verið mikill þurrkur um sumarið og stefndi í allsherjar uppskerubrest. Í kjölfarið byrjaði náttdögg að falla um flestar nætur það sumarið og nærði gróðurinn á meðan sól og heiðríkja ríkti á daginn.

Náttdöggin hefur sum sé reynst jurtum vel í gegnum tíðina, en á Jónsmessunótt er hún alveg sérstaklega góð og þá ekki aðeins fyrir gróður jarðar. Samkvæmt þjóðtrúnni átti fólk að velta sér upp úr þessari ágætu dögg allsbert og það átti að lækna ýmislegt óheilnæmt í húðinni. Sumir létu sér nægja að þvo sér upp úr dögginni, ganga berbætt í henni eða sleikja hana af stráum og blómum. Allt þetta átti að vera hollt og gott og mikilvægt að láta döggina síðan þorna á líkamanum ef hún átti að vera til gangs fyrir sál og líkama.

Grös

Á Jónsmessunótt er kjörið að leita að kröftugum grösum því þá þykir máttur þeirra vera hvað mestur. Má þar nefna lyfjagras sem ber einnig heitið Jónsmessugras, eins var gott að týna á þessari nóttu hornblöðku til að lækna kvef, maríustakk við graftarkýlum, brennisóley við húðkvillum (ef það dugði ekki til að velta sér upp úr náttdögginni) og jafnvel brönugrasið sem eins og allir vita vekur upp losta á milli fólks og stillir ósamlyndi hjóna. Eins þótti það snjallt að týna sýkigrasið einhverntíma á milli Jónsmessu og Maríumessu (15. ágúst). Voru það þá einkum piltar sem það gerðu og þá í þeim tilgangi á ná fram sönnum ástum stúlku ef hún er treg til þess. Þá var umrætt sýkigras blandað saman við hunang og smátt saxaðann hárlokk stúlkunnar, búið til deig, það bakað og stúlkugreyið fengið til að snæða þessu ósköp! Ekki fylgir samt sögunni að þetta hafi nokkurntíma tekist, að minnsta kosti hefur það ekki þótt kokkum til tekna í seinni tíð að hafa hár í matnum sem þeir bera á borð!

Semsagt, á Jónsmessunóttu er gott að fara út og týna grös og jurtir. Einnig er ljóst að á þessum tíma á að vera búið að gróðursetja það sem á að uppskera í haust, en samkvæmt heimildarmanneskju frá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands, þá átti alltaf að vera búið að setja niður rófufræ á Jónsmessunni.

Náttúrusteinar

Í náttúrunni má finna fleira en kröftugar jurtir á Jónsmessunni, en þá eiga allskonar óskasteinar að fljóta upp úr vötnum hér og þar um landið þá um nóttina. Einkum birtust þeir í vötnum sem erfitt var að komast að (en ekki hvað) og má þar nefna tjörn sem á að vera upp í Eyjafjalli sem er norðan við Asparvíkurdal í Kaldrananeshreppi. Ef fólk er á flandri um landið á Jónsmessunni, en þarf nauðsynlega að eignast slíka óskasteinasteina, þá eiga þeir að vera t.d. í Tindastóli í Skagafirði, Drápuhlíðarfjalli á Snæfellsnesi, Kofru í Álfafirði og í Baulu í Borgarfirði. Ef fólk eignast slíkan óskastein er ekki nóg að óska sér bara, heldur þarf að stinga steininum undir tunguna fyrst og óska sér svo. Þá er kannski eins gott að steinninn sé ekki mjög stór!

Á Jónsmessunóttu eru meiri líkur en aðrar nætur að finna lausnarsteina, en þeir finnast í fjörum og einkennast m.a. af því að það hringlar í þeim ef þeir eru hristir. Slíkir steinar þóttu (og þykja jafnvel enn) ómissandi við fæðingar barna, en einnig þegar kýr báru. Ef fólk er heppið gæti það fundið steina á borð við lífsstein sem á að græða sár, en einnig hulinshjálmsstein. Sá er víst dökklifrauður á lit og á að geymast undir vinstri armi, en ef maður vill að hann geri sig ósýnilegan á að fela hann í vinstri lófa, vafðan í hárlokk eða með blaði þannig að það sjáist ekkert í hann. Á meðan þetta er þannig er maður ósýnilegur og getur þannig gert ýmiskonar óskunda eða stundað óborganlegt vinnustaðagrín!

Já, það er ljóst að Jónsmessan er töfrandi dagur og einkum þá nóttin. Ef fólk fer eftir þessum örfáu atriðum hér fyrir ofan er morgunljóst að það verður lítið sofið aðfararnótt 24. júní í ár: fólk upp um öll fjöll og heiðar að leita sér steina og grasa til gagns, í görðum og á túnum verður berrassað fólk að velta sér upp úr dögginni og með ofsalega mjúka og góða húð á eftir! En ef svo ólíklega vill til að fólk leggur ekki í slíkar aðgerðir, er um að gera að njóta bara birtunnar sem af Jónsmessunni starfar því nú er sumarið í algleymi.

Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur