Hrófá og friðlýstar minjar á Ströndum

Höfundur: Einar Ísaksson fornleifafræðingur

Hrófá í Steingrímsfirði er merkilegur staður og sagnaríkur. Á söguöld bjó þar Þórir bóndi, „mikill hávaðamaður og heldur ódæll og óvinsæll. Hann varð missáttur við hirðmann Ólafs konungs í kaupstefnu á Steingrímsfirði …“ Fór sú deila á þann veg að Þórir var myrtur af Þorgeiri Hávarssyni eins og segir í 13. kafla Fóstbræðrasögu: „Og er minnstar vonir voru leggur Þorgeir spjótinu til Þóris. Það lag kom framan í fang honum og gekk þar á hol. Féll Þórir inn í dyrnar og dauður.“ Strandamenn hafa varðveitt sagnir í kringum þennan atburð og telja að Þorgeiri hafa verið veitt eftirför og sló í bardaga við svokallaðan Víghól í Arnkötludal þar sem þrælarnir á bæjunum í kring fengu að spreyta sig á Þorgeiri að áeggjan bændanna sem stóðu svo að segja við bakið á sínum þrælum. Þegar þrælarnir voru dauðir var gerð sáttargerð en hræin dysjuð. Betur var gert við Þórir sem var grafinn rétt við bæjardyrnar þar sem hann lét lífið.

Víghóll í Arnkötludal – ljósm. Einar Ísaksson

Lengi vel voru tvö kuml sjáanleg í jaðrinum á Krosshól, rétt við gamla bæinn á Hrófá, eða um 20m norðaustan bæjarstæðisins. Var því trúað að Þórir væri í öðru kumlinu. Kuml þessi voru grjóthlaðin, egglaga og vel sýnileg og mikil þúfa var rétt hjá hleðslunum sem ef til vill var einnig kuml.

Krosshóll við Hrófá – ljósm. Einar Ísaksson

Túnið var sléttað í kringum 1970 og kumlin með. Fannst þá heil beinagrind rétt undir sverðinum í öðru kumlinu. Bóndinn á Hrófá fékk af þessu illar draumfarir og gróf beinin aftur þar sem þau fundust og eru þau sjálfsagt enn í fætinum á Krosshól. Tæpum tvö hundruð metrum suðaustar er hrófið (naust) á Hrófá sem er afar tilkomumikið og hefur töluvert verið um það skrifað. Telja menn þetta vera hróf Steingríms trölla, landnámsmanns.

Fyrir satt er haft að einhvern tíma í kringum 1930 hafi bóndinn á Hrófá haft samband við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð til að fá hrófið friðlýst. Óljóst er hvort Matthías hafi komið á Hrófá en friðlýsingin átti að eiga sér stað, enda um merkilegar sögutengdar minjar að ræða. Urðu menn hissa seinna meir þegar að friðlýsingunni var gáð og engin skjöl fundust, því menn voru vissir í sinni sök og töldu víst að hrófið væri friðlýst, enda var talað við Matthías sjálfan. Svo reyndist þó ekki vera.

Áður en fornleifar nutu friðunar í krafti aldurs tíðkaðist að friðlýsa minjar sérstaklega af þjóðminjaverði. Minjar sem taldar eru hafa sérstakt gildi hafa, og geta, bæst í hópinn. Leifar þessar má finna víðsvegar um landið og er skráin yfir þær aðgengileg hverjum sem vill (Skrá um friðlýstar fornleifar). Þessar minjar eru enn í dag taldar „merkilegri“ en aðrar minjar skv. lagabókstafnum, þar sem friðunarsvæði þeirra er stærra en hinna aldursfriðuðu og meiri skorður settar á rannsóknir og rask á minjunum. Einnig eru friðlýstar minjar oft betur merktar en aðrar. Elsta skráin er merkileg fyrir ýmsar sakir en er oft á tíðum ekki hárnákvæm og stundum þokukennd, ef ekki villandi.

Á Ströndum eru tíu friðlýstir staðir, Gvendarlaug í Bjarnarfirði þar á meðal. Aðrir staðir sem nefna má úr skránni er Trjefótshaugur í landi Kaldbaks, Goðahaugur í landi Svanshóls og „byggingarleifar fornar á Staðardal“. Síðan eru á Víðidalsá, næsta bæ við Hrófá: „Fornar dysjar tvær á holti, sem er í austnorður frá bænum, og forn mannvirki á tveim stöðum framar á holtinu.“ Staðkunnugir menn frá Víðidalsá kannast ekki við neinar dysjar á staðnum nema eina smaladys, norðvestan við bæinn, niðri við á. Í raun er úr litlu að moða hvað friðlýsinguna varðar þegar kemur að Víðidalsá. Mikil leit hefur verið gerð að friðlýstu minjunum á jörðinni, bæði af einstaklingum og stofnunum, þar á meðal mér, en árangurinn orðið jafnvel enn þokukenndari en sjálf skráin. Segja sumir friðlýsinguna á Víðdalsá vera „eitthvað kjaftæði sem passar ekki við neitt“.

Friðlýsingaskráin er ekki gallalaus og getur þess t.d. ekki að Trjefótshaugur (Önundarhaugar eða Haugar) er í landi Kleifa í Kaldbaksvík, Staðardalur sé fullur af fornum byggingarleifum og staðsetning Goðahaugs, eða Goða, var ekki leiðrétt fyrr en árið 1990 fyrir tilstuðlan Ingimundar Ingimundarsonar frá Svanshóli sem benti á að haugurinn er í landi Goðdals.

Dæmi hver fyrir sig, en líkindi eru á að dularfull friðlýsing minjanna á Víðidalsá eigi í raun við minjarnar á Hrófá. Annað eins hefur gerst. Lýsingin í friðlýsingarskjalinu passar nokkurn vegin við kumlin tvö við Krosshól og svo hrófið sem sannarlega er fornt mannvirki en reyndar ekki „framar á holtinu“ heldur handan þess, auk þess sem mannvirki eru á holtinu sjálfu.

Þess ber að geta að nú til dags eru friðlýsingar sem þessar að mestu óþarfar og allar fornleifar njóta friðunar í krafti aldurs, a.m.k. svo lengi sem fólk veit af þeim.

Heimildir

Prentaðar heimildir:

Fóstbræðrasaga.

Ragnar Edvardsson. 2005. Menningarminjar við nýtt vegstæði í Arnkötludal og Gautsdal. Viðbótarskýrsla.

Munnlegar heimildir:

Matthías Lýðsson
Ragnheiður Ingimundardóttir
Sigurður Sveinsson
Unnar Ragnarsson

Örnefnaskrá:

Kleifar í Kaldbaksvík. 1975. Páll Guðjónsson, Guðrún Magnúsdóttir.

Rafræn heimild:

https://www.minjastofnun.is/static/files/skjol-i-grein/fridlysingaskra-med-vidbotum.pdf