Dýr á landi, í lofti og í sjó þykja mörg hver finna á sér veðurbreytingu eða breyta um hegðun á undan veðrum. Hér er saman kominn listi yfir tæplega 50 dýr sem kynslóðirnar hafa numið þekkingu út frá hegðun þeirra – og varðveitt. Raunar kemur sauðkindin fyrir tvisvar, annarsvegar óbreitt sauðkind og hins vegar forystukind, en hin síðarnefnda þykir einstaklega glögg á veðrabreytingar.
Listinn er alls ekki tæmandi, hér reyni ég að vera með hérumbil eitt dæmi frá hverri tegund. En þið lesendur góðir megið mjög gjarnan bæta við einhverju sem að ykkar mati vantar
Álftir
Þær vita oft óveður í rassinn á sér.
Ánamaðkar
Sjást mikið í görðum þegar rigning er í vændum.
Fjörumaðkar
Þegar mikið veiddist af honum skyndilega þegar verið var að safna honum í beitu, þótti það lítið gagnast því þá var von á vondu veðri.
Flyðrur
Breiðfirðingar töldu norðangarð í aðsigi ef flyðran var mjög gráðug í beitu.
Forystufé
Skera sig frá öðrum kindum. Eru gjarnan fyrstar út úr húsi ef veðurútlit er gott, en síðastar út ef veðurútlit er slæmt.
Fýlar
Þótti von á hláku þegar fýlar voru komnir í björg.
Grásleppur
Ef grásleppa sást synda í „sjólokunum“ var óveður í nánd.
Gæsir
Þær vita oft óveður í rassinn á sér.
Haftyrðlar
Þegar þeir sjást þykir það boða óveður, einkum rok af hafi.
Háfur
Ef mikið var af honum á lóð í Árnessýslu, var talin hafátt í vændum og þá helst suðaustanátt.
Hávellur
Þegar þær vella mikið á sjónum að vetrarlagi, þykir illra veðra von.
Helsingjar
Þeir vita komandi veður í rassinn á sér, og snúa stélinu upp í yfirvofandi vindátt.
Hestar
Ef þeir hópa sig saman í góðu veðri, og snú allir lendunum í sömu átt er von á óveðri úr þeirri átt sem rassinn snýr.
Himbrimar
Ef hann flýgur um með háum gólum, er sagt að hann taki í löppina og veit það á vind.
Hnísur
Kæmi hnísuhópur að báti með miklum asa, vissi það á vind.
Hrafnar
Margir hrafnar saman í hóp sem leikar sér með léttu krunki, boðar gott veður.
Hundar
Mikil útilykt af hundum er talið vita á illt veður.
Hvalömbur
Mikið af þessu fyrirbæri (langir hvítir þræðir) boðaði austan hvassviðri.
Höfrungar
Mikill asi og leikur í höfrungum, þar sem þeir stukku mikið, vissi á storm.
Kettir
Ef köttur þvær sér upp fyrir eyrað á vetrardegi, kemur hláka.
Kjóar
Kjói barmar sér og vælir fyrir vætu.
Krabbar
Ef krabbar væru á kreiki í þangi og á skerjum sem fóru sjaldan í kaf, vissi það á sjóveður.
Kríur
Gargaði kría mikið að morgni, var von á rigningu daginn eftir.
Krossfiskar
Þegar mikið var um krossfisk á lóð, einkum þegar illa veiddist, mátti búast við „ógæftum og ördeyðu“ næst þegar farið var á sjó.
Kýr
Ef þær bauluðu á morgnana þegar þær komu út úr fjósi boðuðu þær rigningu, en þurrk ef þær bauluðu á kvöldin.
Köngulær
Stundum er óvenju mikið af köngulóavef út í náttúrunni á haustin, sem kallast vetrarkvíði og boðar harðan vetur.
Lómar
Gefur frá sér mismunandi hljóð eftir því hverju hann spáir: fyrir þurrki gargar hann: „þurrka traf“, en fyrir óþurrki segir hann: „marvott“.
Lóur
Þegar lóan syngur „dýrðin“ óspart, má vænta góðs veðurs.
Lundar
Þegar hann söng mikið á klettanefjum á kvöldin, mátti eiga von á vætutíð.
Marflær
Mikið af iðandi marflóm sem komu í ljós þegar steinum var velt, vissi á hafrót og miklar hreyfingar á sjó.
Marglyttur
Mikil marglytta að hausti þótti boða harðan vetur.
Mávar
Breyttu flugstefnu eftir því hvernig vindaði. Ef þeir flugu langt, vissi á vind í þeirra stél.
Mýs
Mikill músagangur í kringum mannabústaði er vísbending um óveður í vændum.
Óðinshanar
Væru þeir langt úr á sjó og synti mikið í kringum báta, boðaði það hvalavað og norðan storm.
Ritur
Fylgst var með henni hvar hún sat í innsiglingu, og sagði staðsetningin fyrir um hvaða vindátt var í vændum.
Rjúpur
Hún fyllir sarp sinn mikið á haustin ef harður vetur er framundan. Sést mikið heim við bæi á undan harðindum.
Sauðkindur
Ef fé stangast mikið veit það á hvassviðri.
Selir
Búast mátti við versnandi veðri ef selur stökk mikið upp úr sjó.
Skarkolar
Ef mikið veiddist af honum boðaði það landsynning, enda stundum kallaður landsynningsgrallari.
Snjótittlingar
Þegar þeir hópast heima að bæjum og tísta mikið, en illviðravon.
Spóar
Þegar spói vellir mikið er votviðri í nánd.
Súlur
Ef vart verður við súlu norðanlands, er ætíð að vænta óveðurs.
Svanir
Þegar svanir syngja á flugi er vinds að vænta þaðan sem þeir koma.
Svartfuglar
Kæmu þrír svartfuglshópar fljúgandi hver á fætur öðrum, var von á stormi úr þeirri sömu átt.
Tjaldar
Ef hann stóð lengi á öðrum fæti og blístrið var hljóðfrárra en ella, var von á þurrki.
Toppendur
Á vetrum þótti það merki um komandi norðanátt þegar toppendur komu heim frá hafi og héldi sig til á tjörnum.
Ufsar
Mikil ufsavaða vissi á storm skömmu síðar.
Veiðibjöllur
Ef þær hópuðu sig í fjörum og skerjum og flugu síðan hátt inn til landsins, boðaði það hvassviðri.
Þorskar
Færðist eftir vindáttum, undan þeim áttum sem voru þá í vændum. Ef hann spriklaði mikið eftir að hann var veiddur, spáði það vindi og rigningu.
Þrestir
Það þykir vera von um illa tíð þegar þrestir koma heim að bæjum í góðu veðri, bæði um vor og á haustin.
Æðarfuglar
Hann syngur og dúar mest í logni og mugguveðri, en þetta þótti benda til versnandi veðurs.