400 ár frá fyrstu galdrabrennu 17. aldar

Höfundur: Jón Jónsson

Á árinu 2025 voru liðin 400 ár frá fyrstu galdrabrennu á Íslandi. Hún fór fram í Eyjafirði árið 1625 og þar var Jón Rögnvaldsson brenndur á báli fyrir galdur. Sýslumaður á þessum tíma var Magnús Björnsson sem sat á Munkaþverá. Hann var nýlega tekinn við embætti og hafði dvalið í Kaupmannahafn og Hamborg og efalaust kynnst galdrabrennum þar. Mjög lítið er vitað um þetta mál og engin dómsskjöl varðveitt (Már Jónsson 2021, 88-91; Magnús Rafnsson 2003, 25-6).

Minnst er stuttaralega á málið í annálum og einnig er varðveitt kvæði eftir bróðir Jóns, þar sem fjallað er um brennuna. Þá eru skráðar sagnir frá 19. öld um þetta galdramál, en þær eru auðvitað bæði þjóðsögur og skráðar 200-250 árum síðar.

Skarðsárannáll var hins vegar skrifaður af samtímamanni þessara atburða, Birni Jónssyni á Skarðsá í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hann var fæddur 1574, en byrjaði að skrifa annálinn laust eftir 1630 að áeggjan Þorláks biskups Skúlasonar Hólabiskups (Annálar 1400-800 I, s. 28-9). Atburðirnir gerast því skömmu áður en annálaritunin hefst. Í Skarðsárannál segir (Már Jónsson, 2021: 89):

Brenndur til dauðs í Eyjafirði eftir dómi Jón Rögnvaldsson úr Svarfaðardal fyrir fjölkynngishátt. Hann hafði uppvakið einn dauðan, hvör að sótti að einum pilti á Urðum, drap þar hesta og gjörði aðrar skráveifur.

Annar annáll sem skrifaður er á svipuðum tíma og atburðirnir verða, Vatnsfjarðarannáll elsti, er enn fáorðari: „Brenndur fyrir norðan galdramaður“ (Már Jónsson, 2021: 88).

Kvæðið Æviraun eftir Þorvald Rögnvaldsson, yngri bróðir Jóns, fyllir aðeins í eyðurnar (Már Jónsson, 2021: 89-90). Í því rekur Þorvaldur ævisögu sína og nefndir galdramálið í vísum 15-19 í kvæðinu:

Á þegar leið minn aldur,
angrið fékk að stillt,
að bróðir báru galdur,
berlega fóru villt.
var ei af því valdur,
vissi eg um þann pilt,
allt um of einfaldur,
á það við oss skylt.

Segir Þorvaldur síðan að hann hafi ekki beitt sér í málinu og sér greinilega eftir því. Hann er ósáttur við sýslumanninn og telur að hann hafi farið offari:

Dæmdi dóm án fresti
dauðaverðan hann
kynti eld með kesti
kola svo til brann.

Þorvaldur, sem var talinn ákvæðaskáld og er sjálfur þekktur úr galdrasögum í safni Jóns Árnasonar frá 19. öld, segir síðan í kvæðinu að Kristur muni dæma þá báða að lokum, bróðir sinn og sýslumanninn. Þá muni réttlætið ná fram að ganga.

Loks fjallar Jón Espólín um málið í árbókum sínum og dregur þar saman ýmsan fróðleik (Már Jónsson 2021: 90-91; Magnús Rafnsson 2003: 25-26). Sumt er þjóðsagnakennt, enda er annállinn skrifaður árið 1827, rétt rúmum 200 árum eftir málin sjálf. Hjá honum kemur fram að Jón hafi verið sakaður um að hafa vakið upp draug og sent pilti á Urðum. Drap draugurinn hesta og gerði ýmsan usla. Jón er sagður hafa neitað, en það fundust hjá honum blöð með galdrastöfum. Sá sem kærði Jón fyrir galdra tók síðan guð til vitnis um að Jón bæri ábyrgð á ásókn þeirri sem hann varð fyrir og þetta tvennt varð honum að falli. Magnús sýslumaður er sagður hafa brugðist hratt við og Jón var brenndur fyrir galdur. Jón Espólín segir að galdratrú hafi aukist mjög í sveitum um þetta leyti, en hann sjálfur efaðist um lögmæti þess að brenna fólk á báli fyrir galdur á þessum tíma, þótt það tíðkaðist í Danmörku, því konungsboð um slíkt hefði ekki borist til Íslands eða verið kynnt með réttum hætti.

Eftir fyrstu galdrabrennu 17. aldar, sem samkvæmt þjóðsögum fór fram á Melaeyrum í Svarfaðardal, varð aftur hlé á galdrabrennum í tæp þrjátíu ár, fram til 1654. Þá voru þrír menn brenndir á báli fyrir galdra í Trékyllisvík á Ströndum. Oft er talað um að þá hafi svokölluð brennuöld hafist og staðið til ársins 1683.

Heimildir

Annálar 1400-1800 I. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1922.
Magnús Rafnsson: Angurgapi. Um galdramál á Íslandi. Hólmavík, Strandir: Strandagaldur, 2003.
Már Jónsson (ritstj.): Galdur og guðlast á 17. öld. Dómar og bréf I. Reykjavík: Sögufélag, 2021.