Í Ósá í Ósdal við Steingrímsfjörð á Ströndum, undir Bólunum sem eru Ósmegin við ána, er hylur í ánni sem er kallaður Svartafljót. Þessi hylur er í raun álagablettur, en í honum má ekki veiða. Sagt er að refsingin fyrir að brjóta gegn þessum álögum sé að sá bóndi sem lætur veiða í honum í trássi við þessa bannhelgi, muni missa í honum mann á því sama ári. Í örnefnskrá fyrir Ós sem Filippus M. Gunnlaugsson skráði og birtist í ungmennafélagsblaðinu Viljanum í janúar 1930 er saga af slíku:
“Eigi fyrir löngu bjó maður sá á Ósi, er Ásgeir hét Snæbjörnsson og lét hann veiða silung í fljóti þessu eitt sumar. Um haustið sat smalapiltur frá honum hjá lömbum frammi í Bólum. Kom hann ekki heim á venjulegum tíma og var farið að leita hans. Fannst hundur hans þá ýlfrandi á Einstökueyrum, en pilturinn ekki. Nokkru síðar fann þó Þórarinn Hallvarðsson, sem þá bjó á Ósi (innra) pilt þennan á eyrunum fyrir framan túnið og hafði hann drukknað í ánni. Var hann borinn heim í hesthúshlöðu Þórarins, og þykir þar hafa orðið vart reimleika síðan.”
Ásgeir þessi varð bóndi á Ósi seint á 19. öldinni, eftir að hann flutti þangað með fjölskyldu sína frá Hólmavík. Þau Elínborg Gísladóttir voru frumbyggjar þar sem Hólmavíkurþorp reis síðar og börn þeirra voru fyrstu “innfæddu” Hólmvíkingarnir.
Það þarf ekki að leita lengi í kirkjubókum, sem nú eru aðgengilegar á vefnum heimildir.is, til að finna nafnið á drengnum. Kristmundur Jónsson 17 ára, unglingur á Ósi, drukknaði í Ósá í október 1887, þann 16. samkvæmt kirkjubókinni, en þann 10. samkvæmt Íslendingabók. Jarðaður 22. okt samkvæmt kirkjubókinni.
Ef maður leitar svo í skrá um fædda pilta í prestþjónustubókinni frá Stað í Steingrímsfirði, finnur maður Kristmund fljótlega. Þá kemur í ljós að hann var fæddur 3. júní 1870, sonur Jóns Jónssonar og Guðbjargar Ísaksdóttur sem þá bjuggu í Vatnshorni, og skírður heima hjá sér þremur dögum seinna. Frændi minn í sjöunda og fjórða lið samkvæmt Íslendingabók.