Gleði og glaumur á gamlárskvöld!

Höfundar: Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir

Áramótunum fylgir gleði og gaman. Fjölskyldur hittast og gera sér glaðan dag, borða góðan mat, horfa saman á Áramótaskaupið og vaka fram á nótt við flugelda og fjör. Fólk lítur yfir farinn veg á þessum tímamótum, kveður gamla árið með söknuði eða eru stundum dálítið fegið að það sé búið, svona stöku sinnum. Auðvitað veltir fólk jafnframt fyrir sér hvaða ævintýri og áskoranir munu svo mæta á nýju ári.

Starfsfólk Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu gerði dálitla könnun um áramótahefðir og siði og breytingar á þeim, á því herrans ári 2020, á milli jóla og nýárs. Könnuninni var eingöngu deilt á Facebook. Í ljósi þess hversu frábærar viðtökur sambærileg könnun okkar um jólaundirbúninginn fékk sama ár, var viðmiðið að ef við fengjum 150 svör, yrði hafist handa við að skrifa stutta og hraðsoðna samantekt um helstu niðurstöður á næstsíðasta degi ársins. Eftir að könnunin hafði verið í loftinu í nákvæmlega þrjá sólarhringa, laust eftir hádegið þann 30. desember voru svörin orðin 201 og ekki annað að gera en að standa við stóru orðin og skella í smá pistil. Konur voru duglegri að svara.

Hefðbundin en frjálsleg áramót

Helsta niðurstaðan er sú að ekki hafi orðið miklar breytingar á áramótahefðum og siðum allra síðustu ár. Fólk er nokkuð sammála um þetta og breytingar virðast frekar tengjast breyttum fjölskylduaðstæðum og aldri, eins og hjá þessum: “Breytist eitthvað frá ári til árs, líklega samfara hækkandi aldri. Styttri vaka, færra fólk, minna fjör, engar sprengjur.” Í öðru svari segir: “Miklar breytingar. Ég djammaði mikið um áramótin. Fór á ball eða niður í bæ. Eftir ég eignaðist börn snarhætti það. Núna vinn ég oftast um áramót eða eyði tímanum með fjölskyldunni.”

Áramótin hafa greinilega lengi verið talsvert frjálslegri og alls ekki í jafn föstum skorðum og jólahátíðin. Í einu svari segir til dæmis: “Allt er jafn gaman og hátíðlegt, en miklu minna stressandi en um jólin.“ Fjölskyldur hittast, stórar og smáar, og veislumáltíðir, spil, skaupið, flugeldar, gleði og glaumur einkenna þessi tímamót. Unga fólkið fer út að skemmta sér, í boð og á djamm um áramótin, þangað til barneignir og fjölskyldulífið breyta því. Allmargir fullorðnir fara í heimsóknir til vina og fjölskyldu á nýársnótt.

Umtalsverður meirihluti fólks fer í sparifötin á gamlárskvöld, hvort sem ætlunin er að vera heima eða fara út á lífið. Nýársdagur er líka dagur þar sem fólk fer í betri fötin, en nokkuð er þó um að hann sé náttfatadagur. Hjá einstaka svarendum eru þematengdir búningar og skrautlegir hattar dregnir út úr skápum á gamlárskvöld.

“Sparimatur, en vettvangur fyrir tilraunamennsku”

Veisluhald virðast vera í nokkuð föstum skorðum um áramótin og mikið um fjölskylduboð sem eru með sama sniði frá ári til árs. Hins vegar virðast fjölmörg velja að hafa máltíðir fjölbreyttar á áramótunum. Í einu svari segir: ”Á áramótunum reynum við að hafa eins fínan og framandi mat og mögulegt er,” og í öðru: “Reynt að gera vel við sig bara og oft eitthvað nýtt sem aldrei hefur verið prófað.” Áramótin eru þannig álitinn rétti tíminn fyrir tilraunaeldhús, sem er allskostar ólíkt hefðum á jólunum.

Á mörgum borðum er Wellington-steik, kalkúnn, hátíðarkjúklingur eða humar og humarsúpa um áramótin, en líka eru nefndir réttir eins og hamborgarhryggur, hangikjöt, steinasteik, nautasteik, sérstakur áramótabrauðréttur með strengjabaunum, kótilettur í raspi, lambalæri og hryggur, einnig kiðalæri eða hryggur, skinka, purusteik, hreindýr, gæs, rjúpur, heimagert sushi, sjávarfang og svið. Sem eftirmatur eru m.a. nefndur appelsínufrómas, súkkulaðidesert, heimagerður ís og Tobleroneís. Það þekkist líka að hafa kaffiveislu strax eftir miðnætti, þegar fólk kemur inn frá flugeldafjöri: “Svo er farið inn og hitað súkkulaði og bornar fram kökur, og jafnvel tertur.” Mörg skála í freyðivíni eða kampavíni um áramót og ostar og snakk eru á borðum yfir sjónvarpinu.

Covid áramót 2020

Venjulega eru áramótin fjölskyldusamkomur, hefðir og siðir snúast um matarveislur og samverustundir. Fjölskyldur geta verið bæði stórir og litlir hópar og það fer vissulega eftir stærð þess hóps sem er vanur að koma saman hvort árið í ár er öðruvísi eða ekki. Allstór hópur segir að ekki séu miklar breytingar á hefðbundnum áramótahefðum út af covidinu. Árið í ár er þó líka öðruvísi hjá mörgum, hópurinn sem kemur saman er fámennari, stórfjölskyldur brotna upp í minni einingar að þessu sinni. Stórar brennur og fjölmennar samkomur eru ekki leyfðar. Fólki finnst þetta ögn dapurlegt, en úr svörunum má lesa að ætlun fólks er að jólakúlur sóttvarnayfirvalda verði í heiðri hafðar. Í einu svari segir að stórfjölskyldan muni samt hittast smávegis, á Zoom-fundi.

Í einstaka svörum birtast vangaveltur um hvort jól og áramót verði rólegri tími í framtíðinni hjá fólki eða hvort samkomur verði aftur af auknum krafti þegar kófinu líkur. Í einu svari segir: “Líklegt er að covidið auki á upplausn á þessum venjum og siðum sem voru kannski að breytast hvort sem var vegna breyttra aðstæðna.”

Brennur og flugeldar

Innkaup á flugeldum hafa minnkað, samkvæmt nokkrum svörum, en kannski er það aldurstengt. Í einu svari segir til dæmis: “Einnig hefur flugeldaskotum fækkað, mesta lagi keypt ein terta, en reiknum með að fara seyðfirsku leiðina hér eftir, fleyta kertum í stað flugelda.” Í öðru svari segir: “Við kaupum venjulega minnsta pakkann og skjótum lítið. Eins og staðan er nú eru flest börnin í fjölskyldunni búin að missa áhuga á flugeldum og fullorðna fólkið nennir ekki að brasa með flugelda. Auk þess förum við ekki á brennur þar sem enginn nennir að standa út í kuldanum og horfa á brennu, þegar það er hægt að vera inni og drekka gott vín og borða góðan mat.”

Rótarskot og umhverfisástæður eru einnig nefnd í þessu samhengi, hlýnun jarðar og mengun. Einnig að dýrin séu hrædd við lætin. Mörg segja svo að stuðningur við Björgunarsveitirnar séu mikilvæg ástæða fyrir flugeldakaupum og stundum eru þær líka styrktar beint: “Nú orðið eru ekki keyptir neinir flugeldar eða stjörnuljós, heldur er lagt inn hjá Björgunarsveit það fjármagn sem annars hefði verið kveikt í.”

Sum hafa þó líka mjög gaman af flugeldaskotunum: “Pabbi, tvíburabróðir hans og einn mágur þeirra sáu um flugeldakaupin fyrir stórfjölskylduna, þegar best lét var keyptur heill sendiferðabíll af flugeldum.”

Flest virðast fara á brennu í þorpum og bæjum, en sum virðast þó fara af skyldurækni í og með. Einn segir: “Ég hef alltaf eytt talsvert miklu í flugelda og hef gaman að þeim. En fyrir tveimur árum var því hætt af umhverfisástæðum. Brennu hef ég aldrei haft gaman að. Tók einu sinni þátt í að safna í brennuna og skvetta olíu á eldinn og það var fjör.” Þó hafa sum gaman af brennum og í svörum um breytingar vegna covid kemur stundum fram efirsjá yfir því að ekki séu stórar brennur þetta árið. Í sveitinni virðist víða vera kveikt bál heima á bæjum um áramót, fyrir utan stóru brennurnar.

Skylduáhorf á skaupið

Að horfa saman á Áramótaskaupið virðist vera útbreiddasta hefðin um áramót af þeim sem hér var spurt um og það eru mjög fá sem segjast ekki horfa á þennan árlega skemmtiþátt. Skoðanir á skaupinu eru svo auðvitað skiptar, eins og þekkt er, og misjafnt hvort fólki finnst það batna eða versna með hverju árinu. Í einu svari segir: “Já, allir safnast saman og éta snakk og drekka gos og horfa á skaupið og reyna yfirleitt að hafa gaman af, frekar en að fussa og sveia.” Í öðru segir: “Já, en áhuginn hefur samt minnkað verulega með hverju árinu enda sömu leikarar í hverju skaupi og lítið stuð,” og í því þriðja: “Áramótaskaupið er ofmetið. Við horfum ekki á það.”

Hlaðborð af snakki virðist vera staðalbúnaður á meðan horft er á skaupið á mörgum heimilum og stundum ostar eða nammi eða jafnvel er terta eða eftirréttur dreginn fram. Í einstaka svari er minnst á eitthvað sterkara: “Horfi á skaupið í vinahópi, oft einhver smá drykkjuleikur tengdur við það, en þó allt í hófi.”

Áramótaheitin

Í kringum fjórðungur svarenda segjast ekki strengja eiginleg áramótaheit, þó segjast sum fara yfir hið liðna ár á þessum tímamótum og meta hvort þau vilja halda áfram á sömu braut eða þurfi að gera breytingar. Meirihluti svarenda strengir einhver heit eða setur sér markmið. Þetta árið snúast þau mörg, eins og oft áður, um aukna hreyfingu og útivist. Þá tengjast mörg heitin því að minnka neyslu, t.d. á mat, kjöti, áfengi og sjónvarpsáhorfi, eins því að eiga færri hluti og fara í “kauppásu”. Heilsan er áberandi þema þetta árið og er þá bæði talað um að huga að líkamlegri og andlegri heilsu. Þá eru nokkur áramótaheit sem snúast um að fjölga samverustundum með sínum nánustu og vera duglegri að sýna þakklæti. Klassísk áramótaheit eins og peningasparnaður sjást líka. Líklega eru langflest hætt að reykja eða hafa endanlega gefist upp á því að hætta, því þetta er ekki nefnt í neinu svari.

Markmiðasetning virðist vera regluleg yfir árið hjá mörgum og fólk talar um að það setji sér markmið fyrir hvern mánuð fyrir sig. Þetta sést til dæmis í þessu svari: “Nei, mér finnst óþarfi að gera það um áramótin, maður á alltaf að vera að setja sér markmið.” Eitt skemmtilegt svar segir frá því að valið sé einkunnarorð fyrir árið í staðinn fyrir að strengd séu eiginleg heit: “Fyrir þetta ár var orðið „fókus“ en held að orðið fyrir næsta ár verði „heilsa“. Hef gert þetta nokkur ár og finnst þetta virka vel fyrir mig. Eitt árið var orðið „hugrekki“ og þá var ég djarfari að taka áhættur og prófa eitthvað nýtt.”

Fyrir suma endast áramótaheitin stutt. Í einu svari segir: “Já, yfirleitt set ég mér mörg markmið. Mis gáfuleg og raunhæf. Næ aldrei að uppfylla þau öll.” Sum kunna þó ráð við þessu, einn segir til dæmis: “Set venjulega áramótaheit sem ég veit ég mun ná eða vil ná. Leiðinlegt að byrja nýja árið á klúðri.”

Þrettándinn

Áhugavert er að nokkur nota það orðalag að þau “roti” jólin á þrettándanum, gaman væri að vita hvort það sé landshlutabundið að taka svona til orða. Þá kemur fram í nokkrum svörum að þá sé gengið frá jólaskrautinu: “Tek niður allt jóladrasl nema ljósin.” Önnur segjast klára að borða síðustu smákökurnar og tvö nefna líka að piparkökuhús séu brotin og borðuð á þessum degi.

Ekki eru öll sem halda upp á þrettándann, í einu svari segir: “Nei, þrettándinn hefur enga þýðingu, nema að þá er síðasti séns að klára flugeldana”. Þó virðist meirihluti svarenda gera eitthvað til hátíðabrigða, mörg borða góðan mat á þessum degi og sum fara á brennu. Einhver fara líka í fjölskylduboð. Í einu svari er talað um að það sé möndlugrautur og gjöf á þrettándanum. Sum nefna að börn gangi í hús og safni nammi eða “sníki í gogginn”, en þetta er þekkt á nokkrum stöðum á landinu, meðal annars Ólafsvík.

Sum tala um álfa í tengslum við þrettándann, álfasöngva og brennur: “Allir dönsuðu í kringum brennuna og sungu álfa-söngva, man að mér var sagt að þetta kvöld dönsuðu álfar með okkur,” segir í einu svari.

Nokkrar skemmtilegar áramótahefðir

Fleiri hefðir sem fólk hefur í heiðri tengjast sjónvarpinu. Til dæmis nefna nokkur að mikilvægt sé að horfa á korktappana dansa á nýársnótt, horfa á fréttaannála, ávarp forsætisráðherra og forseta, Kryddsíldina og svo að sjá ártalið breytast í sjónvarpinu á miðnætti. Einhver segjast líka skrifa uppgjör um liðið ár og deila á Facebook eða vefnum. Fyrir sum eru ákveðnir brandarar mikilvægur hluti af tímamótunum, í einu svari segir: “Segja fimmaura brandara eins og pabbi heitinn gerði alltaf sem tengdust allir einhverju frá því í fyrra. Hef ekkert borðað frá í fyrra, farið í bað frá í fyrra o.s.frv.”

Þá er aðeins talað um tiltekt og að hafa hreint um áramótin “Tek til í skápum og hendi því sem þarf ađ henda. Skipti um á rúmi, og hef hreint alls staðar. Hef trú á að það verði eitthvað betra þannig á komandi ári. Og út með allt rusl.” Önnur setur tiltekt á þessum tíma í samhengi við álfatrúna: “Vil helst hafa alltaf hreint um áramótin eins og mamma gerir því annars koma víst álfarnir … veit samt ekki hvað það þýðir nema það veit víst ekki á gott.” Fleiri nefna álfana og flutninga þeirra í sambandi við gamlársdag og einstaka lætur loga útikerti fyrir álfana á nýársnótt.

Þá eru nefndar nokkrar framandi, óvenjulegar og skemmtilegar áramótahefðir. Ein slík er þessi: “Við höfum á gamlársdag eða á nýársdag oft kastað bráðnu vaxi, eða tini í vatn, held þetta sé siður frá Austurríki. Svo skoðar maður skúlptúrinn sem kemur og spáir í nýárið út frá þeim myndum sem maður sér í vaxinu eða tininu.” Önnur hefð kemur líka erlendis frá: “12 vínber þegar klukkan slær á miðnætti er hefð sem við pikkuðum upp á Spáni.” Ein skemmtileg hefð í viðbót er hér: “Þegar klukkan slær 24:00 skrifa á lítið blað mína ósk fyrir nýja árið og svo brenna það og henda inn í kampavínsglas og drekka, á að gera það áður en verður 00:01.” Þá eru nokkrir sem “strengja spotta og hoppa yfir í nýja árið kl. 12”. Það er um að gera að taka upp alls konar hefðir sem gaman er að og hægt er að gleðjast yfir.

Starfsfólk Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu óskar ykkur gleðilegs nýs árs og við vonum innilega að nýju ári fylgi gleði og gæfa fyrir ykkur öll.

Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir