Siðvenjur og hefðir um páska

Höfundar pistils: Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson

Nú er páskahátíðin að baki, með tilheyrandi afslöppun, súkkulaðiáti og stuði. Þjóðfræðingar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum Þjóðfræðistofu útbjuggu um hátíðina dálitla netkönnun um siði og venjur fólks í tengslum við páskana og deildu henni á Facebook. Uppátækið var mest til gamans gert, en auðvitað höfum við líka áhuga á að heyra beint frá fólki hvort því finnist að miklar breytingar séu að verða á páskahefðum nú á tímum og hverjir séu hápunktarnir í þessum hátíðahöldum. 

Alls bárust 129 svör við könnuninni á fyrstu þremur sólarhringunum. Spurt var um kyn, aldur og búsetu í krossaspurningum og síðan voru sex fjölþættar spurningar um ákveðnar hliðar páskaundirbúnings og páskahalds með opnum svarglugga. Ekki var beðið um nafn svarenda. Yfir 80% svarenda voru konur.

Margt fróðlegt kom í ljós. 

Aðdragandi og undirbúningur hátíðarinnar

Mörg sem svara gera lítið úr sérstökum undirbúningi fyrir páskahátíðina, segja jafnvel að enginn slíkur undirbúningur fari fram. Þó er ljóst að ennþá er tekið til á mörgum heimilum fyrir páska og reynt að halda húsinu hreinu um hátíðina. Á sumum heimilum er jafnvel framkvæmd sérstök páskahreingerning, þó ekki eins viðamikil og sú sem tilheyrir jólunum. 

Sum sem svara skreyta heimilið í tilefni páskanna og oft virðast föndurstundir vera hluti af hátíðahöldum og stemningu, t.d. að mála hænuegg eða búa til páskaskreytingar. Páskagreinar virðast vera algengt skraut, voru það allavega á árum áður. Meðal þeirra sem rifja upp minningar um þetta er kona af höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 40-59 ára: “Í æsku voru sóttar greinar út í garð og þær skreyttar með páskaskrauti sem voru úr eggjum og fjöðrum sem mamma eða amma höfðu gert, en þegar ég var lítil voru ekki mörg eftir, því kisan okkar komst í þetta og japlaði á” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 32). Önnur á aldrinum 19-39 ára segir um páskaskreytingar (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 34):

Við settum upp slatta af páskaskrauti, sem var mikið til gulir dúkar, pappaegg frá Noregi, páskaungar, blóm og greinar og talsvert af skrauti sem við krakkarnir gerðum í grunnskóla og heima. Skemmtilegust finnst mér máluð og blásin egg, við áttum mikið af þeim og gaman að skoða þau á hverju ári, sum falleg en önnur ljót. Það er smá vinna sem fer í það að gera eggin, þannig manni þykir aðeins meira vænt um þau. Mikið af útklippimyndum af páskaungum. Skreyttum samt alltaf minna en fyrir jólin t.d.

Einnig er talað um að kaupa blóm fyrir hátíðina, túlípana og páskaliljur. 

Samvera einkennir líka dagana fyrir páskadag, t.d. er farið í leiki, spilað, haldið bingó eða farið í fjölskyldukeilu. Stundum rennur föndrið og spilahefðin saman og fólk á greinilega skemmtilegar minningar um slíkt: “Við bjuggum líka eitt sinn til páskaborðspil (svipað slönguspilinu) og spilum það á heimilinu um páskana, en ef maður er heppinn lendir maður á reitum sem gefa páskaöl og súkkulaði” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 36). 

Þá er líka ljóst að mörg leggja land undir fót í aðdraganda hátíðarinnar, fara í ferðalög og algengt er að nýta tímann í útivist. Skíðaferðir virðast sérlega vinsæl skemmtun dagana í kringum páska, ef veður leyfir. Karl kominn yfir sextugt nefnir þetta einmitt í svari sínu: “Ef vel viðrar er gjarnan stunduð einhver útivist, gönguferðir, veiði eða skíði ef svo ólíklega vildi til að snjór sé á jörðu” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 44).

Annars virðist fólk reyna að leggja sig fram við að slaka á og slappa af þessa frídaga fyrir páskadag og reyndar líka á sjálfum hátíðisdeginum.

Föstudagurinn langi – sá mikli sorgardagur

Það er alveg ljóst að siðir og hefðir í kringum föstudagurinn langa hafa tekið heilmiklum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Hjá langflestum er búið að fella úr gildi allar hefðir um allt það sem ekki mátti gera á þessum degi. Sama gildir reyndar líka með reglur og lög um helgina á föstudeginum langa, nú mega verslanir vera opnar og alls konar fjáraflanir á þessum degi eru leyfðar. 

Mörg nefna að það hafi ekki mátt spila á þessum degi þegar þau voru börn, en þetta sé allt breytt. Ekki sjást nein merki í könnuninni um að fólk sé óánægt með þær breytingar. Þvert á móti birtist í mörgum svörum ánægja með að boð og bönn á þessum degi heyri sögunni til og greina má ákveðna uppreisn gagnvart þessum siðum sem fólk þekkir úr æsku sinni. Dæmi um það er t.d. þetta svar frá konu 19-39 ára: “Það mátti ekki spila á þessum degi þegar ég var lítil, og ekki heldur á heimili mannsins míns sem núna gerir í því að spila sem mest á föstudaginn langa” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 22). Annar segir að ekkert sé lengur um sérstakar siðvenjur á föstudaginn langa: “Nei, nema hvað ég segir barnabörnunum sögur af því hvað þessi dagur var óumræðilega leiðinlegur í minni æsku” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 44).

Þó eru líka stöku dæmi um að fólk haldi í þá hefð að spila ekki á spil á föstudaginn langa og enn virðist nokkuð algengt að fólk borði fisk eða sjávarrétti á þessum degi, en ekki kjöt. Einnig má sjá dæmi um skemmtilegar og sérstakar matarhefðir, eins og kvár 19-39 ára lýsir: “Nei, en amma mín … eldaði aldrei á föstudaginn langa meðan hún hélt heimili og hafði alltaf sviðasultu í matinn. Mamma ákvað að halda þeirri hefð ekki við” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 10).

Áhugavert er að leikritið Jesus Christ Superstar er nefnt nokkrum sinnum. Annað hvort að fólk hafi fyrir sið að hlusta á tónlistina úr því leikriti á þessum ákveðna degi eða horfi á kvikmyndina. Einnig er talsvert algengt að fólk nýti tímann í útivist, fari á skíði og í gönguferðir, líkt og aðra daga í páskafríinu.

Messur og matarhefðir á páskadag

Páskadagurinn er auðvitað mesti hátíðisdagurinn. Þá segjast sum fara í skárri fötin eða jafnvel sparifötin fyrir kvöldmatinn, en önnur segjast ekki spekúlera í því. Svörin frá flestum miðast við að þeir séu í fríi á páskadag og það eru víða fjölskyldusamkomur og hátíðarmáltíð á páskadag. Kona á aldrinum 19-39 ára svarar á þessa leið (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 68): 

Góður matur, oftast lamb á föstudaginn langa og páskadag. Reynt að hafa fínni mat hina dagana, eða allavega nostrað við matargerð. Mikið hlustað á útvarp og horft á sjónvarp enda oft ýmislegt sem kemur inn um páskana. Engin sérstök spariföt, nema helst á páskadag hjá sumum fjölskyldumeðlimum en engin pressa eins og á jólum.

Páskalambið virðist enn vera talsvert vinsælt, en þó er meiri fjölbreytni komin í spilið því stundum er nefnt að fólk sé hætt að borða kjöt, svona yfirleitt og líka um páskana. Nokkur nefna kalkún sem páskadagsmatinn. Stöku sinnum er sagt frá fjölskyldukaffiveislum með kökum og tertum hjá ömmu og afa, sennilega er sá siður á undanhaldi. Páskarnir eru samt greinilega enn heilmikil matarhátíð. 

Misjafnt er hvort fólk fer í kirkju um páskahátíðina, en greinilega er ennþá nokkuð um það og stundum segist fólk hlusta á útvarpsmessu. Sum nefna að þau hafi hlutverk í kirkjunni, eru að syngja í kór eða taka með öðrum hætti þátt í messuhaldi. Stór hópur segist ekki fara til messu. Eitt svarið sem er kannski dálítið dæmigert fyrir páskadag er svona: “Ekki farið í kirkju. Borðaður góður matur, oftast lambakjöt, klæðum okkur smá spari fyrir kvöldmatinn, verður að vera malt og appelsín” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 69).

Páskaegg og málshættir

Heilmiklar siðvenjur og hefðir eru ennþá í kringum páskaeggin og málshættina. Líklega eru hefðir í kring um það meiri núna en fyrir nokkrum áratugum. Leitin að egginu hefur verið leikjavædd á mörgum heimilum og það er falið vandlega og búinn til ratleikur til að finna eggið. Misjafnt er hversu lengi sá viðburður stendur, sumir segja að tíu mínútur eða korter fari í leitina og ein sem svarar segir að það geti tekið allt að því hálfan daginn. 

Stundum vakna börnin með eggið hjá sér, en hjá sumum er regla að byrja ekki á súkkulaðinu fyrr en eftir morgunmat eða hádegismat. Kona á aldrinum 40-59 ára rifjar upp góðar minningar tengdar páskaegginu (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 32): 

Við fengum systurnar aldrei neitt páskaegg áður en páskadagur gekk í garð heldur var hefðin hjá okkur sem kom frá pabba að við vöknuðum á páskadagsmorgun og þá á náttborðinu okkar systra voru páskaeggin. Það var mikil eftirvænting kvöldið áður og svo að vakna með stírurnar í augunum, og sjá smá óskýrt páskaeggið í sellófaninu glampandi við hliðina á rúminu manns var ógleymanleg tilfinning.

Það er ljóst að málshátturinn skiptir miklu máli og mörg nefna þá í svörum sínum. Oft er sagt að málshættir séu lesnir upp fyrir alla viðstadda og spekúlarað í þeim eða hneykslast á þeim. Karlmaður í dreifbýlinu segir til dæmis: “Í gamla daga voru almennilegir málshættir og spakmæli í eggjunum, en núna er þetta oft óttalegt rugl“ (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 78). Það er samt greinilega mikilvægt ennþá  að hver fái sinn málshátt, ein kona segir: “Mér finnst páskaegg ekki einu sinni það góð, en það er mikil stemning í kringum þau, finnst mér, t.d hvaða málshátt maður fær“ (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 34).

Önnur kona á höfuðborgarsvæðinu segir frá skemmtilegum fjölskyldusið með páskaegg, sem eru ekki úr súkkulaði (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 128): 

Já við notum sömu ‘eggin’ ár eftir ár sem við bjuggum til úr pappa og máluðum. Öll kaupa svo sitt uppáhalds nammi og setja í. Einnig erum við með fullt af prentuðum málsháttum sem dregið er úr og sett í eggin. Ef einhver þarf nýtt egg eða bætist í fjölskylduna þá eru ný gerð. Í ár voru 2 ný gerð og aðrir nýttu tækifærið til að lappa upp á sín egg (mýs höfðu gætt sér á pappaeggjunum uppi á lofti). Kvöldið fyrir páskadag felum við svo eggin og gerum ratleik fyrir hvert annað. Oftast um 3-6 vísbendingar og þá oft með heimagerðum vísum, rímum eða einkabröndurum.

Heimagerð páskaegg eru nefnd í fleiri tilfellum. Mörg nefna að þau njóti þess að gleypa eggið og súkkulaðið í sig yfir sjónvarpinu og talsvert er minnst á fjölbreytileika páskaeggjanna nú á tímum. Þar kemur líka fram smá nostalgía yfir því sem horfið er af sjónarsviðinu og eini grátkallinn (tjáknið) í svari við könnuninni er vegna þess að strumpapáskaegg fást ekki lengur í búðum (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 107). 

Slappað af yfir sjónvarpinu

Hátíðahöldin snúast að miklu leyti um að slappa af og eiga notalegar stundir með fjölskyldunni. Enn virðist fjölskyldan safnast saman til að horfa á sjónvarpið á þessari hátíð, en einnig eru margvísleg ferðalög greinilega orðin hefð hjá sumum á þessari heillöngu helgi. 

Sautján sinnum er sjónvarpið nefnt, bíómyndir og teiknimyndir 13 sinnum þar fyrir utan og sófinn kemur fyrir í öðrum 10 svörum. Þá er fólki einnig tíðrætt um sjónvarps- og útvarpsdagskrá páskahátíðarinnar. Eldri karlmaður í þorpi er ánægður með að nú á tímum séu fleiri beinar útsendingar frá fótboltaleikjum í sjónvarpinu um hátíðina, en áður var. Þetta sé sannkallað fagnaðarefni. Maður í þorpi á aldrinum 40-59 ára segir (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 25): 

Það er léttara yfir öllu og kirkjan sér ekki lengur til þess að fólk sé að drepast úr leiðindum með einhverri helgislepju. Sömuleiðis er afþreying í fjölmiðlum fjölbreyttari en hún var þegar aðeins var ein útvarpsstöð og ein sjónvarpsstöð sem höfðu það helst að markmið að drepa fólk úr leiðindum.

Þegar spurt er um breytingar sem orðið hafa á páskahátíðinni eru þó nokkur sem nefna að minni hátíðleiki einkenni páskana í dag. Kona á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 19-39 ára segir: “Miklu minni hátíð núna en þá. Meiri notalegheit, minna spari” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 82). Önnur á aldrinum 40-59 ára segir einfaldlega: “Hátíðleikinn og kristnihaldið. Farið” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 85). Kona á sama aldri saknar þeirrar helgi sem áður var á páskum: “Meiri verslunarmennska. Stærri páskaegg yfir lengri tíma. Ég sakna þeirrar helgi sem var á páskum. Ég meina, mega búðir ekki vera lokaðar á föstudaginn langa og páskadag? Fyrr má nú vera helvítis neyslukrílahátturinn!” (Þjóðfr.st. 2023:1, svar 27).

Auðvitað hafa þær breytingar sem hafa orðið á opnunartíma verslana og veitingastaða líka haft í för með sér að núna eru talsvert fleiri eru að vinna á þessum hátíðisdögum en áður. Flest sem svöruðu könnuninni okkar virðast vera í fríi um páskana, sennilega hafa hin síður gefið sér tíma í það. 

Þegar svörin eru skoðuð virðist vera ljóst að mörg upplifa að páskarnir hafi aðeins tapað hátíðleikanum, en leggja áherslu á að þeir séu í dag skemmtileg hátíð og gott frí sem einkennist fyrst og fremst af samveru, sjónvarpsglápi og súkkulaði. 

Heimildaskrá

Óprentaðar heimildir:
[Þjóðfr.st.] Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa. Svör við könnun 2023:1 um páskahefðir og siði, nr. 1-129. Í vörslu Þjóðfræðistofu.