Íslensk þjóðtrú í Vesturheimi

Er hver vegur að heiman vegurinn heim?

Seint á 19. öld og snemma á þeirri 20. fluttu ótal Íslendingar sjóleiðina frá Íslandi til Ameríku í leit að betra lífi, tækifærum og lífsafkomu sem sómi var af. Slíkt var þá vandfundið á Íslandi, hart var í ári og mörgum reyndist það þrautaráð að selja búsmalann og halda af landi brott. 

Þó svo að fólk hafi sennilega ekki getað tekið marga veraldlega hluti með sér um borð í skipin sem ferjuðu fólkið yfir hafið, hefur ýmislegt annað fylgt fólkinu: Minningar, sögur, ættfræði, föðurlandsást, hefðir, þjóðtrú. Öllu þessu dröslaði fólkið með sér inn í annan heim, þar sem sumt hvarf um borð í skipinu en annað fluttist áfram og gekk á land – þjóðtrúin þar á meðal, þekking sem hafði mótast kynslóð fram af kynslóð á eyjunni Íslandi. En gat sú þekking lifað í nýju landi – nýrri heimsálfu?

Veturinn 1972-73 dvöldust hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir í Norður Ameríku og tóku ótal viðtöl við fólk af íslenskum uppruna. Afraksturinn var gefinn út á bók árið 2012 er nefnist Sögur úr Vesturheimi og annaðist Gísli Sigurðsson útgáfuna. Upptökurnar eru sennilega í kringum 60 klukkustundir og á þeim er rætt um sögur, kvæði, landnám, veður, þjóðtrú og allt þar á milli. Viðtölin veita því mikilvæga innsýn inn í ferðalag fólks og menningar frá einu landi til annars.

Þegar þetta er skrifað er mars 2021 og unnið að því að koma öllum þessum upptökum loksins inn á vefinn ismus.is. Smátt og smátt eru þessar horfnu raddir því að verða aðgengilegar fræðafólki og almenningi og þá kemur margt spennandi í ljós. Ljóst er að þarna liggja ótal rannsóknarverkefni þjóðfræðinga og annarra fræðimanna, enda er heimildafólkið gjarnan fætt í kringum aldamótin 1900 og yfirleitt fyrsta eða önnur kynslóð Vestur-Íslendinga.

Í viðtölunum er mjög oft talað um nafngreinda drauga, s.s. Þorgeirsbola, Ábæjarskottu og aðrar skottur og móra.1 Draugarnir virðast hafa ætlað að fylgja fólki frá Íslandi til Vesturheims og halda þar áfram að vera til ama og leiðinda eins og ekkert hefði í skorist. En síðan hefur eitthvað gerst.

Í einni frásögn er fjallað um drauginn Rauðpilsu sem fylgt hafði manni nokkrum á Íslandi, en sá hafði tjáð það þegar hann var fluttur til Winnipeg að Rauðpilsa hefði rétt misst af skipinu sem hann tók til Ameríku. Skipið hefði verið rétt að skríða frá landi þegar hún kom að bryggjunni og þar með var maðurinn laus við hana. Í staðinn hefði Rauðpilsa farið að fylgja bróður mannsins heima á Íslandi og því fundið sér nýtt hlutverk í heimalandinu.2 Í öðrum tilfellum virðast draugarnir hafa komist um borð í skipin sem sigldu vestur, en í einni frásögn fór það þannig að þegar skipin voru komin miðja vegu yfir Atlantshafið þá sukku allir draugarnir í hafið og bárust því ekki alla leið yfir í nýja heiminn.3 Áhugaverðust er þó tvímælalaust sú frásögn sem einnig er varðveitt í viðtali frá 1972 og segir frá því að ýmsir draugar og ættarfylgjur hefðu borist með landnámsfólki til Kanada í upphafi, en þegar frumbýlingarnir féllu frá leiddist draugunum svo þeir sneru einfaldlega aftur heim til gamla landsins.4 Ein af skýringunum fyrir því að draugar þrifust ekki lengi í Vesturheimi er sú skoðun að landslagið hafi ekki þótt eins hentugt fyrir vættir og á Íslandi, þar sem fjöll og forneskja hjálpaði til með að magna upp þjóðtrúna.5

Það er fróðlegt hvernig þjóðsagnaverur og vættir virðast ekki hafa lifað almennilega af flutninginn frá Íslandi til Kanada. Margar hverjar entust ekkert lengi, enda ljóst að fólkið sem flutti var að yfirgefa heimahagana, náttúruna og upprunann, í leit að einhverju gjörbreyttu og alveg nýju. Það er því frekar góð myndlíking að segja að draugunum hafi leiðst og snúið aftur heim í gamla landið, því á sama tíma hafi fólkið fest rætur í nýja heiminum, opnað hug sinn fyrir nýjum siðum og venjum.

Í kjölfarið á þessari laufléttu kynningu á hinu magnaða safni þjóðfræðiefnis fólks af íslenskum uppruna í Kanada, er ekki laust við að manni sé hugsað til flutnings þjóðtrúar á milli landa í samtímanum. Áhugavert væri að fjalla um hópa sem hafa flust til Íslands á síðustu áratugum, s.s. fólk sem komið hefur frá Póllandi, Taílandi og Filippseyjum. Eru til dæmi um þjóðtrú sem hefur borist hingað til lands með fólkinu, s.s. nafngreindir draugar og andar? Hvernig hefur þeim reitt af hér á Íslandi? Eru til dæmi um að þessháttar þjóðtrú hafi borist hingað til Íslands yfir hafið, en ekki náð að festa rætur með fólkinu og hreinlega yfirgefið landið? 

Tilvísanir

  1. Til nánari glöggvunar má hér benda á BA ritgerð í þjóðfræði eftir Svanhvíti Tryggvadóttur frá 2015, sem aðgengileg er á Skemmunni (skemman.is), Á mörkum tveggja heima: Samanburður á draugasögum Vestur-Íslendingar og draugasögum í íslenskum þjóðsagnasöfnum.
  2. Frásögn Valdheiðar Einarsdóttur og Ágústs Sigurðssonar, EF 72/15.
  3. Frásögn Andrésar Guðbjartssonar, EF 72/31.
  4. Frásögn Sigurðar Sigvaldasonar, EF 72/17.
  5. Frásögn Gunnars Sæmundssonar, EF 72/19.