Þjóðhátíðardagurinn er merkisdagur fyrir margra hluta sakir. Á þessum degi hefur þjóðin í gegnum árin og áratugina brugðið undir sig betri fætinum, arkað út í fjölmennið og haldið upp á daginn með fjallkonum og fjöri. Margir eiga berskuminningar um samkomur á þessum degi og halda upp á hann með einhverjum hætti enn þann dag í dag, þó svo að hátíðarhöldin virðast hafa breyst nokkuð í seinni tíð, eins og gengur.
Veðurminni fólks er æði misjafnt. Til að mynda er mitt veðurminni fremur gloppótt og meira í ætt við dyntótt skammtímaminni… Á meðan geta aðrir rutt út úr minni sínu veðurlýsingum frá degi til dags langt aftur í tímann. Eitt hefur vakið sérstaka athygli mína upp á síðkastið, en það er sú algenga setning sem margir láta út úr sér: „að það sé alltaf rigning á 17. júní!“ Í sakleysi mínu þori ég ekki öðru en að trúa því sem fólk segir… en ákvað þó að skoða málið örlítið betur. Og niðurstaðan er meðfylgjandi samantekt og mynd, sem sýnir veðrið í Bolungarvík, Reykjavík og á Akureyri, á hádegi þann 17. júní árin 1983-2018. Þetta eru semsagt þjóðhátíðardagar lífs míns, en þann 17. júní 1983 var ég 7 mánaðagamall, og svo fann ég ekki gögn eftir árið 2018 (og man vitaskuld ekkert hvernig veðrið var þau árin!).
Ekki vil ég taka af ykkur gleðina að rýna í þessi gögn, en þó get ég upplýst það strax að allar fullyrðingar um að það sé ALLTAF rigning á þjóðhátíðardaginn, eiga ekki við rök að styðjast. Sorrý!
Yfirlit veðurs á 17. júní. Tafla: Eiríkur Valdimarsson
Eiríkur Valdimarsson er þjóðfræðingur á Hólmavík með sérstakan áhuga á veðri og veðurtengdri þjóðfræði. Hann heldur úti Facebooksíðunni: Alþýðlegar veðurathuganir.