Einar Ísaksson fornleifafræðingur á Broddanesi við Kollafjörð er þessi misserin að rannsaka dysjar, kuml og hauga á Ströndum, og örnefni, heimildir og sagnir um slíkt. Hann gerir vettvangsathuganir í tengslum við þessa heimildavinnu og er búinn að fara víða um Bitru, Kollafjörð og Steingrímsfjörð, skoða líklega staði og spjalla við landeigendur, bændur og búalið. Síðustu vikur hefur hann beint athyglinni að sunnanverðum Steingrímsfirði.
Í spjalli um þessa rannsókn í Þróunarsetrinu á Hólmavík fyrr í vetur, lagði ég hart að Einari að finna nú hann Láka fyrir mig. Sá strákur var tekinn af lífi við Lákaklett í ágúst 1677 og hefur örugglega verið dysjaður þar í grenndinni. Klettur þessi er í landi Kirkjubóls við Steingrímsfjörð, þar sem ég og mín fjölskylda búum. Ég hef aðeins svipast um eftir dys þarna, óskipulega og tilviljanakennt, en án árangurs. En þetta var einmitt það sem Einar gerði með góðum árangri. Hann rambaði á mannaverk á kletti þarna á svæðinu, fann það sem hann var að leita að. Steinum hefur auðsjáanlega verið raðað þarna og sú hleðsla er rétt rúmlega 2ja metra löng og 1,4 metrar á breidd. Að vísu er Einar varkár að hætti fornleifafræðinga og vill ekkert fullyrða strax og alls ekki slá því föstu að óathuguðu máli að þetta sé pottþétt strákurinn Láki.
Þetta er ég sjálfur hins vegar alveg viss um og vil endilega skrifa smágrein um fundinn á dysinni og örlög Láka, einmitt á þessum tímapunkti. Áður en rannsakað verður betur hvað sé þarna undir steinunum. Ef ekkert finnst þarna á klettahólnum við nánari rannsókn, verður nefnilega of seint að tengja saman staðinn og söguna um Láka sem bæði skjalfestar heimildir og munnmæli eru til um. Annars vegar munnmæli og sagnir sem skráðar voru á 20. öldinni og hins vegar opinber skjöl frá 17. öld, sem engin tengsl virðast vera á milli. Allt er þetta hið áhugaverðasta mál frá sjónarhorni þjóðfræðinnar, til dæmis með hliðsjón af vangaveltum um sanngildi munnmæla og samspil landslags, örnefna og minja.
Örnefnaskrár og sögur um Láka frá 20. öld
Í handritaðri örnefnaskrá Jóhanns Hjaltasonar fyrir Kirkjuból er minnst á Lákakletta (Jóhann Hjaltason, án árt.): „Inn við Miðdalsá upp frá sjó heita Hvammar (17) og eru klettar nokkrir þar fyrir utan sem kallast Lákaklettar (18).“ Ætla má að þessi uppskrift og lýsing Jóhanns sé frá því um 1940, en hún er ekki tímasett á vefnum nafnid.is, þar sem verið er að gera örnefnaskrár allra jarða á landinu aðgengilegar. Uppskriftin sjálf er varðveitt í örnefnasafni Árnastofnunar og áður hjá Örnefnastofnun Íslands. Segir Jóhann að lýsingin á Kirkjubóli sé skrifuð upp eftir handriti Guðjóns bónda Halldórssonar í Heiðarbæ í Miðdal.
Örnefnaskrár fyrir Kirkjuból eru frekar fátæklegar, miðað við margar jarðir á Ströndum. Þó hefur Örnefnastofnun sent bændum á Kirkjubóli spurningaskrá undir lok 20. aldar og þar er m.a. spurt um hvað sé vitað um Lákaklett og fleiri staðanöfn sem talin eru upp (Kirkjuból, spurningalisti, án árt.). Í svarbréfi til Örnefnastofnunar frá árinu 1999 sem Grímur Benediktsson á Kirkjubóli skrifar undir, er m.a. listi yfir örnefni á jörðinni og útlínukort sem númerin eru merkt inn á. Einnig fjallar Grímur sérstaklega um nokkur örnefni sem spurt var um og hefur þetta að segja um Lákaklett (Grímur Benediktsson, 1999): „Munnmælasagan segir að þar hafi maður kallaður Láki verið hengdur. Lagður hafi verið rekaviðarraftur fram af klettabrúninni og Láki hengdur þar.“
Eldri sögn um þennan aftökustað er í grein eftir Gísla Jónatansson í Naustavík um nokkur örnefni í Kirkjubólshreppi sem birtist í Strandapóstinum árið 1989. Þar er að finna eftirfarandi kafla sem hefur yfirskriftina Láki (Gísli Jónatansson, 1989: 124):
Fyrir innan og ofan grundirnar, sem liggja að Miðdalsánni, er klettur einn sem Láki er kallaður. Þar á að hafa verið hengdur maður endur fyrir löngu, er vafalaust hefur heitið Þorlákur. Ekki kann ég skil á æviferli þess ógæfumanns, né heldur hvaða tildrög lágu að aftökunni. En kletturinn talar enn sínu máli og vitnar um meinleg örlög.
Nú vantar auðvitað ljósmyndir og gps-hnit með þessum upplýsingum, til að hægt sé að vera viss um hvaða kletta nákvæmlega er verið að tala hverju sinni. Grímur gengur greinilega út frá því að klettaveggurinn fyrir utan og ofan sumarbústaðinn Árból, rétt utan við Miðdalsána og ofan við þjóðveginn, hafi verið sjálfur aftökustaðurinn og heiti því Lákaklettur. Það getur alveg verið rétt.
Nýfundin dysin er hins vegar á öðru klettaholti þarna í grenndinni, rúmlega 80 metrum innan við innri endann á klettaveggnum. Nánar tiltekið innan núverandi girðingar og skammt ofan og innan til við sumarbústaðinn. Annað svipað klettaholt er svo þarna litlu ofar í landinu, utan girðingar. Ólíkar myndir örnefnanna vekja til umhugsunar, hvort örnefnið Láki sem Gísli notar, Lákaklettar sem Jóhann notar og Lákaklettur sem er í gögnum Örnefnastofnunar og svari Gríms, hafi kannski ekki einu sinni átt öll við sama staðinn upphaflega, heldur hafi bæði aftökustaðurinn og holtið með dysinni verið kennd við Láka. Líka er mögulegt að örnefnið hafi færst á mest áberandi klettinn á staðnum og hann talinn vera aftökustaðurinn, eftir að þekkingin um dysina var töpuð.
Skjöl um Láka frá 17. öld og refsingar við þjófnaði
Sagnfræðingurinn Már Jónsson skrifaði merkilega bók sem gefin var út á vegum Strandagaldurs árið 2008. Bar hún titilinn Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar. Þar birtir Már og útskýrir margvíslega dóma og skjöl og tilkynningar frá Alþingi og héraðsdómum frá þessu tímabili. Þar birtist einmitt fróðleikur um Láka þann sem Lákaklettur er vafalaust kenndur við og hægt að fræðast um sögu hans (Már Jónsson, 2008: 94-96). Skjölin sem Már dró þarna fram í dagsljósið staðfesta þannig munnmælin um örnefnið og aftökustaðinn á Kirkjubóli og einu aftökuna sem frásagnir eru varðveittar um að hafi farið þar fram. Ef dysin reynist svo vera raunveruleg dys með mannabeinum frá 17. öld, bætist svo enn við sönnunargögnin um þennan aftökustað.
Fyrr á öldum lá dauðarefsing við ýmsum brotum og víða um land eru þekktir aftökustaðir. Lákaklettur er um það bil kílómetra frá bænum á Kirkjubóli sem var þingstaðurinn í hreppnum fyrr á öldum. Þar var héraðsdómur haldinn, vorþing og haustþing, og á slíkum samkomum voru menn dæmdir fyrir ýmsa glæpi, margir sektaðir eða flengdir og fáeinir hengdir eða teknir af lífi með öðrum hætti.
Á 17. öld voru lög og viðurlög við margvíslegum brotum hörð. Þau sem uppvís urðu að smáþjófnaði greiddu sekt til konungs og skaðabætur, en refsingin var hýðing ef það stolna þótti meira en 6 álna eða eyris virði. Við annað slíkt brot voru menn brennimerktir, hýddir við þriðja brot og hengdir við fjórða.
Ef andvirði þess sem var stolið var hins vegar meira en ein mörk (sem jafngildir 8 aurum) var dómurinn fyrir slíkan stórþjófnað sekt upp á 13 merkur til konungs eða útlegð af landinu. Ef andvirði þess sem var stolið var meira en tvær merkur misstu menn allt sitt lausafé eða greiddu 13 merkur í sekt af fasteign og voru hýddir að auki. Líflát lá svo við öðru broti (Már Jónsson, 2008: 75). Þjófar voru alltaf hengdir þegar þeir voru líflátnir, rétt eins og galdramenn voru alltaf brenndir.
Strákurinn Þorlákur Þorsteinsson og glæpir hans
Magnús Jónsson sýslumaður á Ströndum mætti á Alþingi á Þingvöllum sumarið 1676 með fanga í járnum. Dreng sem hét Þorlákur Þorsteinsson. Hann hafði verið dæmdur og hýddur heima í héraði árið áður fyrir þjófnað sem metinn var meiri en hálf mörk (4 aurar).
Ekki hafði hann lært mikið af hýðingunni, heldur haldið uppteknum hætti og orðið uppvís að stórþjófnaði þá um vorið og viðurkennt glæpinn. Fannst mönnum þó of harkalegt að dæma hann strax til dauða, enda hefði fyrsta brotið verið smáþjófnaður, ekki náð einni mörk. Þótti þingmönnum hins vegar hæfilegt að hann héldi lífinu, en yrði í staðinn hýddur aftur og nú rækilega, samþykkt var að Láki fengi nú „hæstu húðlátsrefsingu sem næst lífi gangi“. Var svo ályktað að ef hann stæli oftar yrði hann líflátinn. Var Láki síðan hýddur á Þingvöllum 1. júlí 1676, svo rösklega að hann var nær dauða en lífi á eftir (Már Jónsson, 2008: 94-95).
Í Alþingisbókum ársins 1677 kemur svo í ljós að Þorlákur hélt sig enn við sama heygarðshornið. Til Alþingis það ár hafði borist póstur um útlit hans og auðkenni og stóð til að lýsa eftir Láka sem hafði látið sig hverfa eftir þriðja þjófnaðinn. Þessi lýsing var því miður ekki lesin upp og skráð í Alþingisbækurnar, því hann hafði þá þegar verið handtekinn heima í héraði. Var Láki dæmdur til dauða fyrir þriðja þjófnaðinn og var þeim dómi framfylgt á Kirkjubóli í ágúst 1677, í takt við niðurstöðu Alþingis árið áður.
Aftaka Láka og greftrun
Aðstæður við Lákaklett eru þannig að aftakan hefur sennilega farið þannig fram að rekaviðardrumbur hafi verið lagður fram af klettinum, eins og Grímur segir í sinni lýsingu í örnefnaskránni. Síðan hefur væntanlega verið borið grjót eða farg á þann enda sem á klettinum lá, en Láki hengdur í endanum sem út af stóð. Hugsanlegt er líka að reistur hafi verið einhverskonar gálgi til að hengja hann í, nóg er af rekaviði þarna í grennd.
Láki hefur síðan verið dysjaður utan kirkjugarðs og yfirleitt var það gert nálægt aftökustaðnum. Á þessum tíma mátti ekki jarðsetja sakamenn í vígðri mold, frekar en fólk sem fyrirfór sér og ungabörn sem dóu óskírð. Þessir hópar voru hinir eiginlegu utangarðsmenn fyrri alda, þeir sem ekki áttu samleið með öðrum innan veggja kirkjugarðanna eftir dauðann.
Hremmingar föður Láka
Sögunni af Láka er þó ekki alveg lokið, því sama sumar og aftakan fór fram lenti faðir hans, Þorsteinn Þorláksson, í nokkrum hremmingum út af syni sínum. Kom í ljós að Láki hafði komið þýfi fyrir til geymslu hjá föður sínum, nýjum sauðsvörtum buxum og 2 álnum af hvítu gjaldvaðmáli sem metið var til tveggja aura.
Við yfirheyrslu upplýsti Þorsteinn að hann hefði nú alltaf hugsað sér að láta lýsa þessum verðmætum og skila þeim, enda hefði hann grunað að þetta væri þýfi, þó það hefði svo dregist dálítið á langinn hjá sér. Þó sú saga virðist ekkert sérstaklega trúverðug var Þorsteini gefinn kostur á að ljúka þessu máli með því að sanna mál sitt með eiði, án þess að vera tekinn til fanga. Féll dómur um þetta á Felli sem var þingstaður Kollfirðinga þann 12. júní, sem var svo staðfest að væri réttur á Alþingi síðar um sumarið. Þorsteinn fékk góða og loflega kynningu, svo ekki var tekið á málinu af hörku (Már Jónsson, 2008: 95).
Ári síðar á Alþingi
Ári síðar, 1678, var svo á Alþingi lesinn upp dauðadómurinn yfir Láka sem hafði verið kveðinn upp á Kirkjubóli 17. ágúst árið áður. Var jafnframt tekið til umræðu á Alþingi hvort Magnús sýslumaður Jónsson hefði metið þetta mál með réttum hætti. Menn höfðu á þessum tíma mikinn áhuga á að bæta stjórnsýsluna og vildu passa upp á að ferlar og vinnubrögð væru í lagi. Sýslumaðurinn kom vel frá þeirri umræðu, niðurstaðan var að lögmönnum og lögréttu virtist sem valdsmaðurinn „hafi forsvaranlega þar um gjört“ (Már Jónsson, 2008: 96).
Þessi grein byggir að talsverðu leyti á eldri pistli sem ég skrifaði um Lákaklett og birtist fyrir rúmum áratug á frétta- og fróðleiksvefnum strandir.is, en sá ágæti vefur er ekki lengur aðgengilegur. Þá endaði ég pistilinn á orðunum: „Þessi saga er nú ekki lengri, dysin hans Láka hefur enn ekki fundist, en varla hvílir hann langt frá aftökustaðnum.“ Nú eru þau lokaorð úrelt, alla vega í bili, og vel hugsanlegt að frekari fréttir verði sagðar af rannsóknum á dysinni á næstunni.
Eða hvað er best fyrir þjóðfræðing að gera í svona tilfellum? Og hvað myndi strákurinn Láki vilja? Hvíla áfram í friði í sinni dys eins og hver annar jarðálfur, fá sín fúnu bein flutt í kirkjugarðinn við sína sóknarkirkju eða enda í sýrufrírri öskju í geymslunni á Þjóðminjasafninu eftir viðeigandi rannsóknir? Kannski fengist þá lýsingin á Láka, sem við söknum svo sárlega að hafi ekki verið auglýst á Alþingi þarna um árið.
Heimildir:
Örnefnaskrár varðveittar hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
(aðgengilegar á www.nafnid.is):
Grímur Benediktsson (1999): Kirkjuból. Örnefnaskrá og viðbætur, svör við spurningum og uppdráttur. Aðgengilegt á https://nafnid.is/ornefnaskra/17655 og https://nafnid.is/ornefnaskra/17652.
Jóhann Hjaltason (án árt.): Kirkjuból. Örnefni og sagnir. Aðgengilegt á https://nafnid.is/ornefnaskra/17653.
Örnefnastofnun (án árt.): Kirkjuból, spurningalisti. Aðgengilegt á https://nafnid.is/ornefnaskra/17654.
Prentaðar heimildir:
Gísli Jónatansson í Naustavík (1989). Nokkur örnefni í Kirkjubólshreppi. Strandapósturinn 23, s. 121-126.
Már Jónsson (2008). Galdrar og siðferði í Strandasýslu á síðari hluta 17. aldar. Strandagaldur: Hólmavík.