„Vorsins göngudagur – 21. mars“

Í gegnum tíðina hef ég hér á þessari síðu minnst á ýmsa merkidaga, messudaga og aðra almanaksdaga sem í gegnum tíðina hafa tengst veðrinu með einum eða öðrum hætti. Margir þeirra eru alþekktir og bera með sér reglur og minnisvísur sem þjóðin þekkir vel. Aðrir eru minna þekktir og í dag er einmitt einn slíkur.

Í dag, 21. mars, er Benediktsmessa sem kennd er við Benedikt frá Núrsíu. Hann er einmitt nafngjafi klaustursreglunnar Benediktsreglu sem var býsna útbreidd hér á landi í kaþólskum sið, m.a. í Þingeyraklaustri, Kirkjubæjarklaustri, Munkaþverárklaustri og Reynistaðarklaustri.

Á einum stað í svörum við spurningaskrám þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands rakst ég á lýsingu konu sem fædd var 1896, þar sem hún segir frá þessum degi og hvernig vorið var ákvarðað út frá veðrinu á þessum degi. Þar var þessi dagur jafnframt kallaður „vorsins göngudagur“ eða „vorinngöngudagur“. Það sem ekki hvað síst merkilegt við eftirfarandi frásögn er að þar segir þessi ágæta kona frá endalokum þess að þessum degi væri trúandi fyrir vorkomunni:

„Einn dag ársins trúði faðir minn á gagnvart veðráttu. Það var 21. mars, kallaður vorsins göngudagur. Ef þá var blítt veður taldi hann vissu fengna um gott vor. Þá lét hann steikja lummur og gefa aukakaffi til fagnaðar. Vorið 1906 var blítt veður og mikil leysing 21. mars. Ég gekk með pabba til fjárhúsa 21. mars. Þá sagði hann mér að sér hefði aldrei brugðist að vorið færi eftir veðri vorinngöngudagsins. Ekki stóð á kaffinu með lummum. En nú fór svo að þetta vor 1906 var mjög hart. Gróður kom seint. Kýr voru fyrst settar út 7 vikur af sumri. Faðir minn lét ekki nema eitt lamb fylgja hverri á. Ef 2 fæddust var annað líftekið. Þetta man ég vel þó mörg ár séu síðan. Ég grét yfir lömbunum sem dæmd voru til dauða og skildi ekki hver orsök lá til alls þessa háttalags. Ég heyrði ekki talað um neinn nema föður minn sem tók mark á 21. mars. Eftir vorið 1906 var aldrei tekið mark á veðri 21. mars og engar lummur steiktar þó veður væri gott.“

Hér má sjá hvernig árið 1906 markar viss endalok þessarar þjóðtrúar enda hef ég hvergi annarsstaðar rekist á sambærilega frásögn af þessum degi „vorsins göngudegi“. Það er í raun mjög áhugavert að sjá í reynd hvernig þjóðtrú virðist hafa lifað en síðan hreinlega dáið þegar hún virkaði ekki í reynd, með dapurlegum afleiðingum fyrir bændur og búalið.

Af þessu sögðu ætla ég nú að fá mér eins og eitt gott aukakaffi, en lummurnar verða að bíða betri tíma.