Vorið kemur með farfuglunum!

Um þessar mundir eru margir landsmenn farnir að huga að vorinu, sumrinu og hvort ekki verði gæðalegt veður næstu vikur og mánuði. Í sumum sveitum er sauðburður handan við hornið, sem er í hugum fólks jafnt ánægjulegur, erfiður og viðkvæmur tími, og spilar vorveðrið þar býsna stóra rullu. Hér ætla ég að fjalla aðeins um farfuglana, sem voru oft notaðir þegar spáð var í hvort vorið yrði ekki bærilegt.

Fyrir það fyrsta þá þótti það fyrir góðu vori þegar farfuglar komu snemma á vorin. Var þá alveg sérstaklega vinsælt ef spóinn kom í fyrra fallinu og gaf frá sér hljóð sem kallað er að vella: „áður en vetrar úti er þraut, aldrei spóinn vellir graut“. Eins var sagt að hrossagaukurinn hneggjaði aldrei fyrr en hann hafði komist í merarhildar, þ.e.a.s. eftir að merar eru farnar að kasta folöldum. Síðan eru ýmsar hugmyndir til í hvaða átt fyrsta hrossagaukshljóðið heyrist og eru þessar hugmyndir algengastar: Í suðri sælugaukur, í vestri vesaldargaukur, í norðri námsgaukur, í austri auðsgaukur, uppi ununargaukur, niðri nágaukur. Og betra þótti að heyra gaukinn hneggja hátt í lofti en niður við jörð. Sumir telja einnig að komandi veðuráttir megi marka eftir því úr hvaða átt hneggið heyrist.

Margar heimildir eru fyrir því að fólk fagnaði maríuerlunni og lóunni sérstaklega á vorin, og vonuðu að betri tíð væri framundan eftir það. Hrafninn á að verpa á þeim stað þaðan sem vænta má vinda næstu vikur á eftir, s.s. kemur norðanátt ef hann staðsetur hreiðrið í mót norðri. Kjóinn sést síðan ekki fyrr en vetrarveður er alfarið að baki.

En þetta kann allt að hljóma vel, enda er ég hér á Hólmavík búinn að heyra í hrossagauknum (sá reyndist vera auðsgaukur), tvær lóur eru á vappi fyrir utan eldhúsgluggann minn auk ýmissa annarra farfugla sem eru hingað komnir um og fyrir miðjan apríl. Það kann þó að bregða blikum á loft, sumir segja að ef kvak lóunnar er óvenju angurvært megi búast við harðindum. Eins segir einn heimildarmaður þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands um snemmkomna farfugla: „Því var líka almennt trúað að ef farfuglar komu óvenjulega snemma á vori, vissi það á gott vor, en ég hygg að það hafi æfinleg brugðist.“

Í lokin vil ég sýna ykkur smá lista sem ég tók saman um lóuna. Hún hefur alveg sérstakan vor-sess í hugum fólks, enda hefur koma hennar til landsins fengið fleiri forsíðufréttir en margur stjórnmálamaðurinn! Ég tók því saman af vefnum timarit.is, fréttir þar sem fyrst er sagt frá komu lóunnar og um hvaða leyti árs það gerðist. Hér er á ferðinni óvísindaleg samantekt, með gloppum á milli, en samt býsna gaman að sjá hvernig koma lóunnar hefur löngum þótt mikilvæg fregn, oftar en ekki eftir langan vetur og krefjandi.