Kraftur tímamótanna: Þjóðtrú á þrettánda degi jóla

Það eru ávallt nokkrir dagar á almanaksárinu sem eru sérstæðari og dularfyllri en aðrir. Sjötti janúar, öðru nafni þrettándinn er svo sannarlega einn slíkur. Nafnið er frekar augljós stytting á „þrettánda degi jóla“, enda eru á þessum degi þrettán dagar síðan við gúffuðum í okkur jólasteik og rifum upp pakkana á aðfangadagskvöld. Á þrettándanum fer þrettándi og síðasti jólasveinninn til fjalla, hann Kertasníkir og þar með ljúkum við jólunum formlega, hátíðin tekur enda, hversdagurinn tekur við á ný. Það er einmitt á slíkum tímamótum sem margt undarlegt getur gerst.

Árið 1700 átti sér stað breyting á tímatalinu hér á Íslandi, þar sem hið gregoríanska tímatal tók við af hinu forna júlíanska tímatali, kennt við Júlíus Cesar. Það þýddi að 11 dagar voru felldir úr í nóvember það ár. Það hafði vitaskuld áhrif á jólin, sem skyldilega birtust 11 dögum fyrr en vanalega og hefur greinilega ekki verið meðtekið möglunarlaust af þjóðinni. Sem er ekkert skrítið, enda um býsna róttækar breytingar á venjubundnu gangverki hversdagsins. Fljótlega fór að bera á því að þrettándinn fékk heitið „gömlu jólin“ því þá áttu jólin hérumbil að hefjast samkvæmt gamla tímatalinu. Og þetta heiti hefur loðað við þrettándann æ síðan, enda er hægt að finna sambærilega þjóðtrú tengda þrettándanum og nýársnótt eða jólanótt. Einkum þegar kemur að blessuðum kúnum, en sú trú var, og jafnvel er, býsna sterk að kýr tali á jólanótt og þá verði hver maður vitlaus sem heyrir í þeim. Hér er dæmi um slík undur úr þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Á þrettándanótt tala allar kýr. Á Þingeyrum í Húnavatnssýslu dvaldist fjósmaðurinn þessa nótt þegar fjósverkum var lokið og leyndist í moðbás. Hann beið þar fram undir miðnætti og varð einkis var; kýrnar lágu og vóru að jótra. En um miðnættisskeið stóð sú upp sem næst var dyrum annars vegar í fjósinu og sagði: „Mál er að mæla.“ Þá stóð önnur upp sem næst var og sagði: „Maður er í fjósi.“ Síðan stóð upp hver af annari og töluðu; þriðja: „Hvað mun hann vilja?“ fjórða: „Forvitni sýna;“ fimmta: „Ærum við hann, ærum við hann; “ sjötta: „Tölum þá og tölum þá;“ sjöunda: „Fýkur [aðrir: tekur] í fossa, segir hún Krossa;“ áttunda: „Ég skal fylla mína hít, segir hún Hvít“ níunda: „Ég stend á stálma, segir hún Hjálma;“ tíunda: „Ég skal halda, segir hún Skjalda;“ ellefta: „Ég ét sem ég þoli, segir hann boli.“ Þá sleit hin fyrsta sig upp og svo hver af annari. En fjósmaðurinn hljóp í rangala sem lá úr fjósinu og í fjósheyið og út um gat á heyinu og komst svo í bæinn. Um morguninn sagði hann tíðindin. En þegar menn komu í fjósið voru allar kýrnar lausar.

Þrettándanóttin hefur stundum verið nefnd draumnóttin mikla, einkum vegna þess að þá áttu Austurvegskonunga að hafa dreymt fæðingu Jesú á sínum tíma. Það er því ekki vitlaust að huga vel að draumförum sínum eftir þrettándanóttina.

Já, það má segja að allt mögulegt geti gerst á þessum ágæta degi. Selir eiga það til að fara úr hömum sínum á þrettándanum, sumir lenda í því að hitta á óskastundina sína og þá geta óskir okkar ræst, álfar eiga það til að flytja á þrettándanum, líkt og á nýársnótt, þannig að upplagt er að koma sér þá fyrir á krossgötum og athuga hvort álfarnir eigi þar ekki leið hjá. Þó ber að passa sig á ýmsu, því ef álfa ber að garði og maður situr á krossgötunum miðjum, verða þeir pínu armæðulegir því þeir komast ekki framhjá með góðu móti. Þeir byrja að biðja mann að færa sig, sennilega kurteisislega fyrst, en, það er alveg sama hvað þeir reyna að bjóða manni, gull og græna skóga, maður má alls ekki sýna svipbrigði né þiggja neitt frá álfunum. Alveg sama hvað! Ef manni tekst að halda út alla nóttina, gefast greyin upp og snúa til baka, en skilja allt eftir sem þeir buðu. Og þá má maður eiga allt heila klabbið. Þó ber að minnast á eitt annað smáatriði sem ber að varast við slíkar krossgötusetur. En það er hin augljósa staðreynd að í nútíma samfélagi eru það oftast vélknúin ökutæki sem fara um götur, en síður álfar og huldufólk, og eru stórhættuleg ef maður situr á götunni miðri og neitar að færa sig!

Því skal vara sig á ýmsu þennan dag – forðast fjós, og krossgötur, dreyma eitthvað fallegt og óska sér einhvers sem kemur manni svo sannarlega til góða!