Höfuðdagurinn 29. ágúst

Þessi ágæti dagur er kallaður Höfuðdagur til minningar um dauða Jóhannesar skírara, en hann var afhöfðaður eftir skipun Heródes Antípas (sem var sonur Heródesar hins mikla) og af því er dagaheitið komið. Dagur þessi var um langa hríð einn sá mikilvægasti varðandi veðrabrigði og breytingar á veðrinu í andrá hausts og vetrar. Dagurinn er nú liðinn, enda var hann í gær, en það var með ráðum gert – nú er um að gera að rifja upp veðrið sem þá var og dagana þá á undan til að skilja það sem er í vændum.

Margar heimildir eru til um það að þessi dagur var aðal spádagur fyrir haustið. Slíkir dagar eru að vísu margir, en Höfuðdagurinn á að bera höfuð og herðar yfir slíka daga. Í stuttu máli sagt á tíðarfar að breytast á höfuðdeginum, annað hvort til hins betra eða ekki. Breytingin á síðan að haldast í ákveðinn tíma, oft í þrjár vikur. Sagt var að eftir höfuðdaginn væri allra veðra von, en í einni heimild frá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands má finna þessa ágætu lýsingu á Höfuðdeginum:

„Trú margra var það að veðurfar breyttist um höfuðdag, svo var allmikil trú á veðrinu á höfuðdaginn sjálfan en þar voru menn þó ekki að öllu sammála. Ef tekinn er saman í stuttu máli kjarninn úr þeirri formúlu, sem flestir vildu hafa fyrir höfuðdagsveðri og hvað ekki mátti vera, verður hún eitthvað á þessa leið: æskilegt veður helst ausandi rigning fram yfir dagmál, að mestu minnkaður um hádegi, farið að rofa fyrir heiðríkjugloppum um nón, sól farin að skína milli skýja um miðaftan og að mestu léttur til um náttmál. Þá var von á þurrkatíð það sem eftir var af slætti. Miður æskilegt: þurrkur á höfuðdag en þó mikil úrbót ef þurrkur fór batnandi eftir því sem leið á daginn. Afleitur fyrirboði: heiður himinn og brakandi þerrir framan af degi en rótaði upp blota af útsuðri er á daginn leið. Þá mátti búast við hálfsmánaðarrosa ef ekki enn verra.“ (ÞÞ 3853)

Þess ber að geta að þessi aðili var úr V-Skaftafellssýslu og því mögulegt að útfærsla fólks á þessum degi hafi verið öðruvísi á öðrum stöðum á landinu. Kjarninn í þessari heimild og flestum öðrum er í raun sú að ef veður hefur verið gott, þá megi búast við að nú snúist til einhvers verra veðurs. Mörgum var það keppikefli að vera búin með allan heyskap fyrir Höfuðdaginn ef að haustið skyldi nú sýna sínar kuldaklær í kjölfarið. En að sama skapi hélt fólk í vonina um breytingu til batnaðar, ef sumarið hafði verið slæmt fram að Höfuðdegi.

Nú er því ráð að ráða í undangengna tíð, með það í huga að sjá hvernig haustið verður… Inn á Bliku má sjá hugleiðingar veðurfræðings varðandi veðrið eftir Höfuðdaginn í ár (2022) og má sjá það hér: https://blika.is/frett/hva-gerist-eftir-hofudag