Að skrifa niður veðurfarslýsingar í dagbækur er siður sem hefur tíðkast lengi. Í dagbókum 19. og 20. aldar var það nánast regla frekar en siður að hefja færslur á veðurlýsingum, jafnvel áður en rætt er um aðra mikilvæga viðburði mannsævinnar. Reyndar er veðrinu lýst frekar nákvæmlega í mörgum árum, á meðan barnsfæðingar, brúðkaup eða andlát fá lítinn sess á síðum dagbóka. Veðrinu átti að gera góð skil og oftar en ekki með það fyrir augum að halda utan um tíðarfarið hverju sinni til að geta skilið veðurframvinduna sem í vændum var. Enn í dag heldur fólk dagbækur og veit ég um dæmi þess að veðrinu sé lýst í upphafi hverrar færslu.
Hér fyrir neðan vil ég grípa niður í dagbók sem ég er þessa dagana að vinna með hér hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum – þjóðfræðistofu. Um er að ræða dagbók Strandamannsins Jóns Jónssonar, en hann var bóndi meðal annars í Miðdalsgröf, auk þess að vera þurrabúðarmaður á tímabili og hafa mikinn áhuga á sjósókn og selaveiðum. Hann fæddist árið 1795 og lést 1879 og náði því nokkuð háum aldri miðað við samtímafólk sitt. Hann hélt dagbók frá árinu 1846 og allt til dauðadags, og þrátt fyrir bágan fjárhag náði hann að halda dagbók flesta daga á þessu tímabili.
Það eru því hæg heimatökin að nota þessa dagbók til að skoða hversdagslífið á Ströndum á síðari hluta 19. aldar. Hér fyrir neðan hef ég tekið saman veðurlýsingu fyrir dagsetninguna 27. mars, árin 1846-1879. Á því eru tvær undantekningar, en færslu vantar fyrir árið 1847 og árið 1870 var Jón of veikur af sinabólgum til að geta skrifað í dagbók sína. Mér finnst áhugavert hvernig hægt er að taka saman veður dagsins í einni setningu og hvet ykkur lesendur til að gera slíkt hið sama í kvöld þegar þið gerið upp daginn
1846
Heitt og gott veður fram að miðaftani, þá austan stormur með fjúki.
1847
[vantar]
1848
Frost að nóttinni, að deginum við sunnan sólskin og blíðviðri.
1849
Norðan garðurinn með frosti og kafaldi.
1850
Norðan með hörku og kafaldi.
1851
Landaustan bráðviðri, frostlint.
1852
Norðan með hörðu frosti og kófi á milli.
1853
Norðan gjóla allan daginn með fannfergju.
1854
Hláviðri.
1855
Vestan hláviðri, en þó rosalegur.
1856
Gott veður og hula í lofti, andvari vestan.
1857
Þokulaust og blíðviðri.
1858
Vestan með úrfelli.
1859
Stórmold með hörku.
1860
Norðan með hörku fjúklítið.
1861
Norðan með frosti og kófi.
1862
Austnorðan með hörku og kafaldi.
1863
Skafrenningsmold vestan og sólskin. Norðan síðast og ágangur.
1864
Norðvestan stórdrif með hörkukófi.
1865
Gott veður og linja.
1866
Norðan með hörku og kafaldi.
1867
Norðan með frosti og kófi, þó hæglátur.
1868
Bloti og útsinningur. Hafísar fyrir vestan.
1869
Hægur sunnan og þíðviðri.
1870
[Of veikur og verkjaður til að skrifa í dagbók]
1871
Logn og drungi í lofti. Eins og til veðurbreytingar.
1872
Norðan með bráðviðri og stórkafald til miðdegis. Þá sá sól og fjúklítið og lítið frost.
1873
Hægð, blíða og úrfelli framan af.
1874
Stormur austan og úrfelli og kafaldskrepja á milli til kvölds.
1875
Hægð, lítið fjúk á milli.
1876
Norðan drif, hart frost og sólfar.
1877
Norðan með frosti og kófkafaldi.
1878
Hreinviðri, hægð og frost.
1879
Hægð og þíðviðri.