Um Strandamanninn Klemus Bjarnason og meinta glæpi hans
Sautjánda öldin var sannkölluð galdraöld í sögu vestrænna ríkja. Þá ríkti galdrafár, bæði hér á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Yfirvöldin, bæði veraldleg og andleg, kóngur og kirkja, voru á þessum tíma sammála um að galdur væri í senn raunverulegur og hættulegur. Fólk sem var álitið kunna og brúka galdur varð fyrir ofsóknum og þeim sem urðu uppvísir að slíkum tilraunum var refsað fyrir.
Á Íslandi virðist sem minniháttar kukl og margvíslegir verndargaldrar hafi á þessum tíma verið gamalgróinn hluti af menningu og vísindum alþýðunnar. Fjölmargt fólk fiktaði við galdrastafi og allskonar verndargripi eða notaði steina og grös við lækningar. Munurinn á bæn og særingu var oft á tíðum alls ekki svo mikill og sama gilti um galdur og lækningar. Og stundum blandaðist þetta allt saman í einn hrærigraut í erfiðri lífsbaráttu fólksins.
Kerfið var ekki beinlínis í liði með lítilmögnum og óvinsælu fólki á þessum tíma. Dómskerfið virkaði þannig að gerð var krafa um að þeir sem voru kærðir fyrir glæpi, sönnuðu sakleysi sitt með því að hópur jafningja þeirra væri tilbúinn til að sverja að þeir teldu líklegra að viðkomandi væri saklaus en sekur. Mannréttindi eru ekki beinlínis í hávegum höfð í slíku kerfi og óvinsælir einstaklingar áttu í vök að verjast.
Hér á landi voru að minnsta kosti 170 einstaklingar ákærðir fyrir galdur frá siðaskiptum fram til 1720. Um fjórðungur þeirra var hýddur í refsingarskyni, annar fjórðungur náði að sverja sakleysi sitt. Óvíst er um málalok í fjórðungi mála og örfá mál enduðu með sekt eða útlegðardómi. 21 af ákærðum þurfti að þola þau örlög að vera brennd á báli fyrir galdra. Fólkið sem fékk refsingu fyrir galdur tilheyrði í nær öllum tilvikum lægri stéttum, alþýðunni.
∞ ∞ ∞
Strandamaðurinn Klemus Bjarnason er síðasti Íslendingurinn sem dæmdur var til dauða fyrir galdra. Það var árið 1690, en aftakan fór aldrei fram. Danakonungur sem fáum árum áður hafði gefið út tilskipun um að hann fengi alla íslenska dauðadóma til nánari skoðunar, breytti dómnum í útlegð frá Íslandi. Talsverðar heimildir eru varðveittar um Klemus, m.a. af því að þýða þurfti málsskjölin á dönsku fyrir konunginn. Í þessum pistli er byggt á rannsókn Jóns Samsonarsonar á þessum gögnum sem Jón birti í Griplu árið 1984 undir titlinum: Tóuvers Klemusar Bjarnasonar.
Klemus Bjarnason var fæddur um 1645 og fremur lítið er vitað um hann, heimili hans og fjölskyldu. Ljóst er þó að hann var bóndi við Steingrímsfjörðinn þegar galdramálið hófst. Galdramál Klemusar hófst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð á Ströndum í ágúst 1689. Þá lagði Kolbeinn Jónsson, sem var annar bændanna á Hrófbergi, fram kæru á hendur Klemusi fyrir að hafa með „fjölkynngi og fordæðuskap“ valdið „stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ sem hafði dregið Guðrúnu Árnadóttir konu hans til dauða.
Sýslumaður Strandasýslu sem þá var Rögnvaldur Sigmundsson, búsettur í Innri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu, tók málið fyrir á þriggja hreppa þingi að Hrófbergi í september sama ár. Tólf dómsmenn voru kvaddir til að dæma.
Nú hafði önnur ákæra bæst við, frá hinum ábúendanum á Hrófbergi, Jóni Bjarnasyni. Hann sagði að Klemus hafi með „óleyfilegri galdrakonst“ verið valdur að undarlegum veikindum konu hans Ólafar Jónsdóttur. Þau lýstu sér meðal annars í því, að sögn Jóns að hún hefði skerst að viti og rænu og sú „óvenjulega veiki og vitskerðing“ orðið til þess að hún hafi lagst í flakk á milli bæja, forðast eigið heimili og neitað samskiptum við mann sinn.
Nú kom í ljós að bændur á þinginu voru andsnúnir Klemusi og vildu ekki styðja hann í þessum hremmingum. Þvert á móti sögðu þeir að Klemus hefði áður verið orðaður við galdra; að hann „hefði um galdra list og brúkun riktaður verið“, en sögðust ekki geta staðfest hvort þetta væri satt eða ekki. Að auki hefði Klemus haft á sér illt orð allt frá barnæsku. Kolbeinn bætti nú við kæru sína og sagði að Klemus hefði í ofanálag haft í hótunum við sig og þetta staðfestu tveir aðrir þinggestir.
Næsta dag útskýrði Kolbeinn ákærur sínar enn betur og sagði að upphaf kuldans á milli þeirra tveggja hefði orðið eftir að hann sakaði Klemus um að ræna frá sér rekadrumbi sem rekið hafði á Hrófbergi. Síðan Kolbeinn bar þessa ásökun upp, sagði hann, hafði Klemus borið þungan hug til hans. Staðfestu fleiri að kannast við þessa óvild. Sagði Kolbeinn að upp frá þessu hafi borið á ókyrrleika á Hrófbergi.
Kvöldið áður hafði einnig orðið sú furða á Hrófbergi, sem Kolbeinn vildi vekja athygli á, að stúlka þar á heimilinu hafði fengið „vondan óvenjulegan snert, með mási, ofboði og óhljóðum, einnig með öngviti“, að sýslumanni ásjáandi, sem hefði þannig sjálfur orðið vitni að ókyrrleikanum sem Kolbeinn kenndi Klemusi um. Dómsmenn töldu nú að réttast væri að sýslumaður fangelsaði Klemus og varð það niðurstaðan.
Aftur var málið tekið fyrir heima í héraði vorið eftir, árið 1690. Klemus átti þá að fá að sverja fyrir galdurinn, en þeir sem voru tilnefndir til að sverja með honum neituðu þá að gera það. Þeir skjalfestu í staðinn að hann hefði haft á sér „stirt og illt mannorð langvaranlega“, og ekki bara af „galdra meðferð og brúkun, heldur einnig um aðra hrekki til orðs og æðis.“ Framkoma hans og hótanir sumarið áður gengju næst „fjökynngi og fordæðuskap“. Jón Bjarnason bætti þá því við fyrri ásakanir sínar, að líklega væru veikindi Valgerðar dóttir hans síðastliðinn vetur líka Klemusi að kenna. Dómsmenn dæmdu að því loknu að Klemus væri frekar sekur en saklaus um galdra og síðan var málinu vísað til alþingis.
Það er ekki að sjá að Klemus hafi játað neitt kukl eða galdur heima í héraði. En þegar á Alþingi kom sumarið 1690 hafði nýr ákæruliður bæst við. Í varðhaldinu hafði hann nefnilega játað að kunna tófuvers sem hann hafði flutt yfir kindunum sínum, „með stórri vanbrúkun guðs heilaga nafns“ eins og segir í ákærunni. Versið er skrifað niður í ákæruskjölum og er svohljóðandi:
Hér rek ég fé mitt,
yfir guðs garða.
Styrmi ég yfir því
stinnum varða;
sting ég á það
sterkum kvarða.
Dís heitir móðir
dýrleg móðir.
Hún vill sína
sauði geyma,
úlfur vill bíta
og berslíta.
Klumsa sé úlfur;
úlfur sé klumsa.
Í nafni föður og sonar og anda heilags.
Að mörgu leyti virðist okkur nútímamönnum þetta vers vera á mörkum þess að vera bæn eða særing, en Klemus sagði að versið skuli lesa þrisvar áfram og þrisvar afturábak með heilagri signing. Þessi aðferð við flutning er auðvitað ótvírætt merki um galdur og tilvísunin í heilaga þrenningu í lokin þótti þá vera stór „vanbrúkun guðs heilaga nafns“. Vitað er að sambærilegar særingar og bænir til að vernda bústofninn fyrir villidýrum þekkjast á öllum Norðurlöndunum, frá fornu fari.
Niðurstaðan á Öxarárþingi varð sú að Klemus skyldi „á lífinu straffast og í eldi brennast sem svarinn og sannprófaður ódáðamaður.“ Aftökunni var þó frestað, því fyrst átti að leita til konungs samkvæmt tilskipun hans fáum árum áður. Rögnvaldur sýslumaður geymdi því fangann áfram og leitaði álits hjá amtmanni varðandi aftökuna. Amtmaður leitaði álits hjá Danakonungi og árið eftir barst loksins svar, þar sem dómnum var breytt í ævilanga útlegð frá Íslandi. Klemus fór þá úr landi og lést síðan úr sótt í Kaupmannahöfn veturinn eftir, árið 1692.
∞ ∞ ∞
Listaverkið sem er tileinkað Klemusi og var sett upp á galdratúninu á Hólmavík, framan við Galdrasýningu á Ströndum, haustið 2020, er gert af Arngrími Sigurðssyni myndlistarmanni. Klemus sjálfur er gerður úr rekaviðardrumbi sem rak á fjörur Steingrímsfjarðar. Segja má að með uppsetningu hans á túninu, sé hann kominn heim á Strandir aftur eftir langa útlegð. Vonandi fær hann betri viðtökur og blíðari meðferð nú, en forðum daga.
Listaverkið Klemus er í hlekkjum, hann var fangi tíðarandans. Eyjan sem hann stendur á vísar í þjóðsagnaarfinn, þjóðtrúarveruna Lyngbak sem er illhveli sem lætur sig fljóta svo lengi með bakið upp úr yfirborði sjávar að fólk álítur hann vera eyju og tekur sér þar bólfestu. Klemus er aleinn á eyjunni, hann er í útlegð. Hjá Klemusi er einn verklegur steinn sem fyrir fáum árum velti sér niður Kálfanesborgirnar og stöðvaðist á gamla veginum, rétt innan við Stóru-Grund og utan við Háaklifið. Á þeim steini er annar steinn sem listamaðurinn hefur farið höndum um, umtalsverður hnullungur, steinbók. Hugmyndin er að hún innihaldi óendanlegan fróðleik og fræði alþýðunnar, sem nú sé öll samankomin þarna á einum stað.
∞ ∞ ∞
Það er og hefur alltaf verið langt yfir strikið að dæma fólk til dauða eða fangavistar, líkamlegra refsinga eða jafnvel í útlegð úr samfélaginu, þótt það þyki erfitt í samskiptum við samferðamennina. Sama gildir þó að hegðun fólks, atferli og framkoma, sé ekki yfirvöldum að skapi. Málfrelsi og mannréttindi skipta máli, bæði fyrr og nú, og ofsóknir gagnvart fólki með aðrar skoðanir eiga ekki rétt á sér. Víða í veröldinni eiga yfirvöld, og stundum almenningur líka, dálítið langt í land með að viðurkenna þetta.