Hugmyndir um Sumarlandið

Höfundur: Jón Jónsson
Fyrirlestur fluttur á Landsbyggðarráðstefnu Félags þjóðfræðinga í Stykkishólmi 30. sept. 2023

Framhaldslífið eða „lífið eftir dauðann“ hefur alltaf verið okkur mannfólkinu hugleikið og líklega hugsum við sífellt meira um það með aldrinum. Það eru auðvitað margvíslegar hugmyndir á lofti um hvort slíkt sé yfirleitt raunveruleiki og hvert sé þá fyrirkomulagið. Mörgum finnst dálítið erfitt að vita lítið um þetta fyrir víst.

TRÚARHUGMYNDIR ÍSLENDINGA
Hér á landi hefur fólk haft miklar hugmyndir um líf eftir dauðann, alveg frá landnámi. Í heiðnum sið trúðu Íslendingar á framhaldslíf og það tíðkaðist að setja allskonar áhöld og vopn, skart og skó, í hauga eða dysjar hinna látnu. Hluti sem kæmu sér vel á ferðalaginu sem framundan var. Þá trúðu menn að hin látnu færu ýmist til Valhallar eða Heljar, eftir því hvernig dauðann bar að, og jafnvel að þeir hefðust við í gröf sinni eða haug eða gengju í kletta eða fjöll, eins og sagt var um Helgafellið og Kaldbakshornið á Ströndum og fleiri staði.

Þegar kristin trú hafði svo náð yfirhöndinni varð himnaríki eftirsóknarverðasti áfangastaðurinn hjá guðhræddum og góðum sálum, en helvíti beið þeirra sem höfðu illvirki og glæpi á samviskunni.

Trú á drauga, afturgöngur og uppvakninga hefur verið útbreidd hér á landi og fyrrum var sálin hugsuð út frá líkamanum og með einhverjum hætti tengd við hann. Afturgöngur í fornsögum hafa einmitt tengingu við staðinn þar sem þeir lifðu og störfuðu. Uppvakningar, afturgöngur og ættarfylgjur, voru alþekkt á 19. öldinni, en þeir draugar sem vaktir voru upp af galdramanni þurftu ekki að hafa sál hins látna, heldur hljóp þá illur andi í líkamann. Í þjóðsögum yfirgefur draugurinn gröf sína í kirkjugarðinum og fer þaðan til að erinda eitthvað.

Fólk var með allskonar tilburði þegar einhver gaf upp öndina, skjárinn var tekinn úr glugganum til að hleypa sálinni út og svo settur öfugur í til að hún kæmi ekki inn aftur. Draugahræðslan leiddi líka til allskonar skrítinnar meðferðar á líkum (eða að minnsta kosti sagna um það), kistunni var snúið í hringi með hinum látna í til að villa um fyrir honum og í versta falli voru negldir stálnaglar í iljarnar á líkinu ef draugagangur varð mikill. Einstaka dæmi eru um sögur um að lík hafi verið grafin upp og hausinn hafi verið tekinn af og síðan hafi sá sem fyrir ofsókninni varð gengið á milli bols og höfuðs á líkinu í bókstaflegri merkingu. Stundum voru líka stálnaglar reknir niður í leiði til að draga úr draugagangi. Þetta átti að gera á messudegi milli þess sem pistillinn og guðspjallið væru flutt.

KÖNNUN UM FRAMHALDSLÍFIÐ
Sumarið 2023 gerði Þjóðfræðistofa á Hólmavík dálitla könnun á hugmyndum fólks um framhaldslífið. Okkur langaði að vita hvað fólki nú á tímum finnst um þetta allt saman. Könnun var birt á fésbókinni og skoðaðar breytur um kyn, aldur og búsetu og síðan kom krossaspurningin: Trúir þú á líf eftir dauðann? Eins og alltaf í þessum smákönnunum okkar á fésbókinni voru konur miklu duglegri að taka þátt og stóðu á bak við 75% af svörunum 100 sem bárust. Niðurstaðan um hvort fólk tryði á framhaldslíf var að tæplega þriðjungur svaraði afdráttarlaust „Já“, rúm 35% sögðu afdráttarlaust nei, en afgangurinn, tæpur þriðjungur sagðist vera óviss um skoðun sína á þessu. Það var ekki áberandi kynja-, aldurs- eða búsetumunur.

Síðan kom ein opin spurning til viðbótar, svohljóðandi: Ef þú trúir á líf eftir dauðann, hvernig sérðu það fyrir þér? Geturðu lýst því dálítið fyrir okkur? Svörin við þessu voru færri, enda hafði rúmlega þriðjungur svarenda merkt samviskusamlega við valkostinn Nei, aðspurð um trú á líf eftir dauðann. Óvissan var samt allsráðandi í svörunum, þannig að nokkur sem höfðu merkt við að þau tryðu ekki á framhaldslíf, sögðu samt frá því hvernig þeir sæju fyrir sér að það gæti hugsanlega verið.

Við forðuðumst vísvitandi að nota ákveðin hugtök um framhaldslífið. Ég verð þó að viðurkenna að fyrirfram tilgáta mín var að Sumarlandið yrði nefnt oft og iðulega, en Himnaríki miklu sjaldnar. Hins vegar vildi ég ekki ýta undir slíkt með því að nefna hugtakið.

SVÖRIN
Svörin við opnu spurningunni voru alveg hreint með ólíkindum misjöfn. Þau voru líka mörg einlæg og falleg. Það var ekki mikið um reiðar raddir, þó var nefnt að „þetta andatrúarrugl væri allt saman andskotans vitleysa“. Fleiri voru umburðarlyndari og sögðu jafnvel að þeim væri svo sem „alveg sama hverju aðrir trúa“.

Langflest sem svöruðu notuðu ekki nein sérstök hugtök eða heiti um framhaldslífið. Sum sögðu að þau hefðu ekki hugsað nógu mikið um þessa hluti, en önnur sögðust vera svo óviss um þetta allt saman að þau vildu helst ekki lýsa framhaldslífinu. Mörg sem tóku jákvæða afstöðu gagnvart framhaldslífi, sögðu það snúast um hliðarheim eða tilveru þar sem allt er gott og ástvinir og fjölskyldur sameinast að nýju. Sálin færi í einskonar hliðarvídd þar sem allt illt væri útilokað, að framhaldslífið væri eins konar draumur eða útópía þar sem allt væri gott. Þar ríkti friðsældin ein. Sum sögðu að við myndum þar endurlifa þann tíma þegar okkur leið sem best í lífinu. Nokkur nefndu að þegar fólk yfirgæfi hið veraldlega líf yrði það bæði létt og loftkennt, yngdist upp og yrði upp á sitt allra besta. Í þessari framhaldstilveru hefði fólk engar líkamlegar þarfir eða jafnvel allt aðrar þarfir sem við sem eftir lifum, gætum alls ekki ímyndað okkur. Einnig nefndu mörg að okkar nánasta fólk tæki vel á móti okkur þegar við kæmum á nýtt tilverustig.

Eins komu fram margvíslegar hugmyndir um að hinir látnu lifðu áfram í gegnum minningar þeirra sem enn lifðu. Eins lýstu nokkur svör hugmyndum um að nákomið dáið fólk geti aðstoðað lifendur eftir dauðann og að hægt væri að hafa samskipti við hina látnu með hugskeytum, táknum og skilaboðum. Einnig að látnir gætu sent svipmynd af sjálfum sér úr handanheimum til ættingja og haft samband í gegnum miðla. Þá kom fram sú hugmynd að vofur, svipir og draugar, væru vissulega til og fólk hafði jafnvel sögur af slíkum atvikum að segja, til sanninda þar um.

HIMNARÍKI KOMIÐ ÚT Í KULDANN?
Á síðustu árum hefur mér sjálfum fundist að himnaríki sé æ sjaldnar nefnt til sögu, þegar fólk talar um líf eftir dauðann. Einnig hefur mér fundist að himnasælan sé yfirleitt ekki nefnd lengur, þegar fólk nefnir áfangastaði eftir dauðann í samhengi við andlát ástvina sinna, t.d. þegar tilkynnt er um slíkt á Fésbókinni eða minning er skrifuð þar um látna fjölskyldumeðlimi, vini og kunningja. Þessi tilgáta mín fékk stuðning í könnunni.

Einn sagði samt: „Framhaldslífi finnst mér prýðilega lýst í sögunni um Sálina hans Jóns míns og hef ekki rekist á annað sem ég trúi betur!“ Önnur sagði: „Ég held við förum í svona heim upp á himni (ekki samt endilega tengt guði eða himnaríki eða djöflinum eða helvíti), við horfum niður á fólkið okkar og pössum það. Lífið þarna uppi er mikið fljótara að líða en á jörðinni og við lítum út og erum besta útgáfa af okkur sjálfum, þegar okkur leið sem best í lífinu.“

Nær himnaríkinu sem langflestir Íslendingar trúðu staðfastlega á fyrr á öldum, komst fólk ekki í svörunum sínum. Enginn nefndi það beinlínis til sögunnar sem næsta áfangastað okkar. Einn svaraði:

„Þó held ég að himnaríki sé ekki til, sem slíkt. Það er skáldskaparsvæði, ekki trúlegra en Nangíala eða Ásgarður. Mögulega vantar eitthvað orð yfir framhaldslífið, sumir nota heitið Sumarlandið sem er frekar óhlutlaust svæði, óháð lífsskoðunum og trúarkreddum, þar sem allir munu sameinast „einn góðan veðurdag“ í Sumarlandinu.“

Sumarlandið var þannig vissulega nefnt til sögunnar, rétt eins og í fjölmörgum minningargreinum og tilkynningum um andlát náinna ættingja og vina, en náði samt ekki að vera nefnt í tíunda hluta svaranna, öfugt við það sem ég bjóst við. Sum sögðu að næsta tilvera væri eins konar biðstöð til að hvílast, til að byrja með. Þá minntust raunar bara örlítið færri á Nangíala sem Astrid Lindgren skapaði í sinni mögnuðu bók Bróðir minn ljónshjarta. Fólk sagði að framhaldslífið væri eitthvað sambærilegt ævintýraland, áhyggjulaust samfélag. Þar hitti maður ástvini sem farnir séu á undan.

Endurfæðing var nefnd alloft, að fólk ætti fleiri en eitt líf. Einnig að sálin fari í einhverskonar biðstofu og velji sér þar nýjan stað og hefji nýtt líf. Einnig að sálin væri orka sem verði áfram til í alheiminum á ólíkum tíðnisviðum, fólk þurfi að draga lærdóm af fyrra lífi og vinna með karmað og þróa það í hverju lífsferli.

Óvisssan var allt um kring í svörunum, enda skulum við ekki gleyma því að þriðjungur var allskostar óviss um hvað hann héldi að yrði eftir andlátið. Einn svarar þannig:

„Áður var ég handviss um líf að þessari tilvist lokinni. Ég trúð[i] því að sál okkar væri eilíf og við á andlegri vegferð þar sem við leituðumst við að þroska sál okkar í átt til ljóssins í gegnum jarðvistir. Ég trúði því einlæglega að ástvinir mínir sem farnir voru væru enn með mér úr annarri tilvist. Ég var alin upp við þá trú og í kringum mig fólk sem sá inn í handanheima. Mig langar mikið að trúa þessu ennþá, en eftir sáran ástvinamissi missti ég þessa trú mína. Ég hef þó verið að öðlast aftur smá trú á einhverskonar æðri tilgang, en það er ekki komið í neitt ákveðið form. Allt í mér óskar þess að það sé líf að þessu lífi loknu.“

SUMARLANDIÐ
Ég sagði frá þessari könnun um framhaldslífið og svörunum við henni á þjóðtrúarkvöldvöku á Ströndum um miðjan september 2023 í erindi með yfirskriftinni Mér er sama hvar ég lendi þegar ég dey … Í framhaldinu ákvað ég svo að setja aðra könnun í loftið, þar sem spurt væri beint um Sumarlandið. Spurt var um sömu breytur, aldur, kyn og búsetu og svo komu tvær krossaspurningar um hvort fólk hefði heyrt um Sumarlandið (sem öll höfðu) og hvort þau notuðu þetta hugtak sjálf. Tveir opnir spurningareitir fylgdu svo í kjölfarið.

Þarna kom í ljós að Sumarlandið er hugtak sem er talsvert notað nú á tímum, sérstaklega á samfélagsmiðlum, sem einskonar samheiti yfir framhaldslífið. Einnig er hugtakið í mjög auknum mæli notað í minningargreinum síðasta áratuginn. Mér fannst áhugavert að skoða hvort að á bak við þessa hugmynd búi raunveruleg trú á tilvist Sumarlandsins, eða hvort hugtakið sé einfaldlega notað til að auðvelda samræður um dauða nákominna ættingja eða til að útskýra hugmyndir um framhaldslíf fyrir börnum.

Sumarlandið er hugtak yfir einn af áfangastöðunum í framhaldslífinu sem spíritistar hafa notað allt frá 19. öld. Það finnst fyrst á timarit.is í íslenskum blaðagreinum í þessari merkingu árið 1917, þá skrifar Helgi Pjeturss um það og líka eru þýddar greinar í tímaritum sem Sir Arthur Conan Doyle skrifaði (hann stóð framarlega í hópi spíritista í Bretland, en er þekktastur fyrir sögurnar um Sherlock Holmes). Einar H. Kvaran skrifar líka grein um Sumarlandið árið 1921 í Morgun, tímarit Sálarrannsóknarfélagsins.

Hugtakið kemur svo fyrir í íslenskri umræðu af og til alla 20. öldina, t.d. er grein um það í Kirkjublaðinu árið 1941 þar sem Sumarlandið er sagt „heimkynni eilífrar tilveru“ og hluti af himnaríki. Það er reyndar mjög merkilegt og sérstakt rannsóknarefni hvað spíritisminn átti auðvelt uppdráttar meðal prestastéttarinnar hér á landi og hvað sumir í þeim hópi lögðu á sig til að samþætta þessar trúarhugmyndir kristinni trú. Þegar maður googlar Sumarlandið kemur líka upp mikil markaðsherferð hjá Bykó 1992, þar sem fólk var boðið velkomið. Svo var líka gerð íslensk kvikmynd með þessu nafni 2010.

SVÖRIN VIÐ KÖNNUNINNI
Mér fannst ég sjálfur vera ansi snjall þegar ég bjó til tvær alveg nákvæmlega eins, en samt aðskildar kannanir um Sumarlandið. Þeim deildi ég svo með ólíkum hætti á fésbókinni, önnur fór í almenna dreifingu, en hinni deildi ég aðeins einu sinni í fésbókarhópinn Tveggja heima tal. Í þeim hópi eru rúmlega 7 þúsund manns sem eru mörg komin lengra á andlega sviðinu, en ég sjálfur finn samhljóm með. Hugmyndin var í og með að bera svörin saman og sjá muninn.

Niðurstöðurnar voru áhugaverðar og markhópurinn um andlegu málefnin brást sérlega vel við. Á örfáum dögum fékk ég yfir 200 svör þaðan, en um 60 í almenna hópnum. Dálítill munur var á svörunum, sérstaklega hvað varðar spurninguna um hvort fólk notaði hugtakið Sumarlandið sjálft eða ekki. Í almenna hópnum var það um fjórðungur fólks, en í Tveggja heima tali sögðust tæplega 2/3 nota hugtakið. Sumum sem svöruðu jákvætt fannst hugtakið samt orðið óþægilega algengt og áttu jafnvel aðeins erfitt með að sætta sig við hvernig aðrir notuðu það. Nokkur sögðu að þetta væri yfirheiti á óljósum áfangastað, sem gæti alveg eins heitið Himnaríki, Eilífðarlandið og Handanheimurinn. Allnokkur sögðust tengja hugtakið við dýr.

Hins vegar var enginn sérstakur munur á hvernig fólkið í hópunum tveimur lýsti Sumarlandinu. Mörg svör nefndu reyndar „Bókina“ og útskýrðu að Sumarlandið væri eins og í „Bókinni“. Þarna er um að ræða bók Guðmundar Kristinssonar þar sem framliðnir lýsa andláti sínu og endurfundum í framlífinu, í gegnum miðilinn Sigríði Jónsdóttur. Bókin sem heitir Sumarlandið kom fyrst út 2010 og hefur síðan verið endurútgefin og endurprentuð ótal sinnum og líka þýdd á ensku. Ég er viss um að þessi bók er undirrótin að því hversu mjög Sumarlandið hefur vaxið og dafnað í umræðunni og hugarheimi fólks síðustu ár hér á landi. Áður hafði reyndar komið út önnur bók á íslensku með sama heiti, árið 1995, Sumarlandið – bók um von, sem þjóðkirkjan tók upp á arma sína. Sú bók var rituð áratug fyrr af norskum rithöfundi fyrir fólk sem hafði misst börn sín í slysförum.

BLÓMABREKKAN OG REGNBOGABRÚIN
Í könnunni minni var aukaspurning um tvö hugtök til viðbótar, Blómabrekkuna og Regnbogabrúna, sem eru líka notuð í samhengi við dauðann. Það er hluti af hugmyndinni um Sumarlandið að þau sem deyja í slysförum eða óvænt, vakni upp í Blómabrekkunni í framhaldslífinu. Stór hópur sagðist hafa heyrt þetta en notaði hugtakið ekki. Allnokkur vildu ekkert við þetta kannast, en talsverður hópur þekkti vel lagið Í blómabrekkunni með Mannakornum sem kom út 2012.

Það var heldur ekki almenn stemmning fyrir Regnbogabrúnni í hópnum sem svaraði. Mörg könnuðust þó við hugtakið og vissu að gæludýrin færu þar um. Regnbogabrúin byggir auðvitað í grunninn á gömlum trúarhugmyndum sem við þekkjum úr norrænni trú, um brúna Bifröst sem tengir saman heima. Í nútímanum byggist hugmyndin um brú fyrir gæludýr eftir dauðann hins vegar á bók með sögum og ljóðum, með sama þema, eftir marga rithöfunda, sem gefin var út í Bretlandi 1984. Þar er þessari hugmynd um framhaldslíf gæludýra lýst. Þau bíða eigenda sinna við endann á Regnbogabrúnni (sem sum segja að sé við innganginn í Sumarlandið). Á fésbókinni er íslenskur hópur sem heitir Regnbogabrúin og þar tilkynnir fólk stundum andlát gæludýra og birtir skrautlegar myndir.

ALGÓRITHMINN OG FJÖLMIÐLAR
Þegar maður byrjar að spekúlera í einhverju eins og þessu, sér maður hugtökin út um allt. Alls staðar er verið að vitna til Sumarlandsins og algórithminn á samfélagsmiðlum er nú eftir að ég byrjaði að skoða þetta endalaust að dæla í mig statusum sem snúast um Sumarlandið, Regnbogabrúna og Blómabrekkuna.

Svo er þetta auðvitað líka í fjölmiðlum. Í vikunni áður en fyrirlesturinn í Stykkishólmi var haldinn var t.d. frétt í DV þar sem blaðamaður hafði spottað dáinn kött í fésbókarfæslu söngvarans Björgvins Halldórssonar og skrifað um það. Þetta varð til þess að ég athugaði hvort það væri til dýralæknastofa sem héti Sumarlandið, en svo var ekki. Það hafði reyndar verið til fyrirtæki sem hét Sumarland ehf í Reykanesbæ sem hafði leigt út atvinnuhúsnæði og gert út smábát en var nú gjaldþrota. Líklega kemur það framhaldslífinu frekar lítið við.